Íslensk peningatré...

Í Austurglugganum nýverið var stutt viðtal við Innanríkisráðherra, Ögmund Jónasson og þar tjáir hann sig um ný Oddskarðsgöng. Skemmst er frá því að segja að þar eru þessi jarðgöng slegin út af borðinu, allavega næstu misseri vegna skorts á fjármagni, að sögn ráðherra.

Þessi orð hans vekja furðu hjá mér því að á sama tíma er ríkið í raun að fjármagna Vaðlaheiðagöng með kaupum á skuldabréfum af hlutafélagi því sem að byggir göngin (eignarhlutur ríkisins í því fyrirtæki er 51%) Stytting hringvegarins vegna Vaðlaheiðarganga er um 16 km, og því er ákaflega hæpið að þær 8 mínútur sem sparast í akstri (samkvæmt mælingum Eurorap) verði þess virði að greiða veggjald fyrir þær sem nægir til að endurgreiða ríkinu skuldabréf þau er keypt verða til að fjármagna framkvæmdina.

En látum það liggja á milli hluta í bili, tilgangur þessara skrifa var ekki að ráðast á Vaðlaheiðagöng sem slík, heldur benda á mikilvægi þess að ráðast í gerð jarðganga milli Eskifjarðar og Norfjarðar sem allra fyrst og að bera saman þessa tvo kosti og velta því aðeins upp hvað sé það sem veldur því að aðra sé hægt að fjármagna með opinberu fé en hin ekki..

Í fyrsta lagi við ég nefna þau loforð ríkisvaldsins um tengingar innan þess sveitarfélags sem nú heitir Fjarðabyggð, miklu var lofað en minna um efndir, og hafa sveitarstjórnarmenn hér þurft að berjast fyrir hverjum metra, þrátt fyrir að við séum að tala um umferðarþyngstu vegi á Austurlandi t.d. Hólmaháls, þar sem þurfti að beita gífurlegum þrýstingi til að fá úrbætur á vegi sem var í raun stórhættulegur á sama tíma og hann er umferðarþyngsti vegur austanlands.

En rökin með göngum er vel þekkt, en ætla ég að tína þau til einu sinni enn. Norðan við Oddskarð er annar stærsti byggðarkjarni Austfjarða, með um 1.500.- íbúa, þar er staðsett sjúkrahús fjórðungsins, Verkmenntaskóli Austurlands hefur þar sína starfsemi, eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, Síldarvinnslan er þar staðsett og er stór atvinnuveitandi fyrir Austfirðinga, margskonar þjónustufyrirtæki starfa á Neskaupstað, sem bæði fá vinnuafl og selja sína þjónustu íbúum og fyrirtækjum sunnan Oddskarðs.

Milli 50 og 60 manns sækja vinnu daglega yfir Oddskarð í eitt fyrirtæki á austurlandi (Alcoa Fjarðaál) og má gera ráð fyrir því að það sé ekki eina dæmið um slíkt báðar leiðir yfir Oddskarð, en við vitum að Launafl, Síldarvinnslan, VHE, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Fjórðungssjúkrahúsið, Fjarðabyggð og fleiri atvinnurekendur treysta á að fólk komist ferða sinna til og frá Norfirði sem greiðast.

Fjallvegurinn er einn sá hæsti á landinu utan miðhálendisins og liggur í yfir 600 metra hæð yfir sjó á snjóþungum fjallgarði, það snjóþungum að aðalskíðasvæði Austfirðinga er staðsett þar og má benda á að oft eru opnunardagar þar fleiri en á öðrum skíðasvæðum landsins vegna staðsetningar og snjóalaga. Núverandi göng eru að hruni komin, fólk veigrar sér við að fara í gegnum þau vegna hruns og þrengsla, og nýleg dæmi sýna svo ekki verður um villst að fullþörf er á endurnýjun.

Næst ber að nefn þau rök að Norfjarðargöng ættu að vera fyrsti áfangi í því að tengja Austfirðina með alvöru nútíma samgöngum og hefur verið ljáð máls á því að næsti áfangi á eftir nýjum Norfjarðargöngum ætti að vera göng milli Norfjarðar og Seyðisfjarðar um Mjóafjörð, en skýrsla RHA sýnir það svart á hvítu að það er einn arðbærasti jarðgangakostur á Austurlandi og myndi það breyta öllu umhverfi Austfirðinga og austfirskra fyrirtækja, samgöngulega séð.

En þrátt fyrir öll þessu haldgóðu rök, þá er þetta ekki hægt það eru ekki til peningar… Segir ráðherrann.

En dæmið hér fyrir ofan af Vaðlaheiðargöngum sýnir að það eru greinilega til peningar, íbúar Norfjarðar og Austurlands hafa jafnvel lýst því yfir að þeir séu tilbúnir að greiða veggjald, þó ekki séu menn einhuga um þá leið. Því sé ég ekkert því til fyrir stöðu að stofnað verði hlutafélag um Norfjarðargöng og ríkið kaupi skuldabréf til að fjármanga göngin rétt eins og gert er fyrir norðan. 

Vissulega er meiri umferð um Víkurskarð, eða um 1.256 bílar á dag (2010) en 436 um Oddskarð, en ef borið er saman hlutfall ÁDU og SDU þá er hlutfallið í Oddskarði 84% á meðan það er einungis 59% yfir Víkurskarð, sem segir að hærra hlutfall umferðar tengist afþreyingu og sumarleyfum, og því má gera því skóna að stórt hlutfall sumarumferðar fari áfram um Víkurskarð og spari sér veggjaldið og njóti útsýnisins á meða, því íslensk fjöll eru öll eins innanfrá séð.

En ég held að þetta snúist ekki um peninga, þetta snýst um eitthvað allt annað.

Margsinnis hafa ný Norfjarðargöng verið í umræðunni og alltaf eru menn sammála um mikilvægi þess að þau séu byggð, en ekkert gerist öðrum göngum er kippt fram fyrir og þessi mikilvæga samgöngubót látin sitja á hakanum. Það eru til fjármunir í þessa framkvæmd, það þarf bara að forgangsraða upp á nýtt, við gerðum það þegar tekin var ákvörðun um að klár að byggja minnisvarða um hrunið (Hörpuna), þeir eru til þegar byggja á háskólasjúkrahús sem varla verður hægt að manna eða reka vegna landflótta læknastéttarinnar og niðurskurði í rekstri heilbrigðisstofnan, þeir eru til þegar kemur að því að rjúfa land á Hólmsheiði til byggingar á fangelsi þó að það hafi verið bent á fljótlegri, einfaldari og umfram allt ódýrari lausnir. Og peningarnir eru til þegar kaupa þarf skuldabréf af fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins til að fjármagna göng undir Vaðlaheiði.

Ég spyr því hæstvirtan innanríkisráðherra.. Vaxa bara peningar á norðlenskum og sunnlenskum trjám eða snertir framkvæmd Norfjarðaganga ekki nógu marga atkvæðabæra einstaklinga til að þau séu „arðbær“ ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafliði Hinriksson

Ögmundur er bara forsjáll maður og er hann búinn að taka frá aurana sem áttu að fara í Norððfjarðargöngin, og verða þeir notaðir í viðhald á glerhjúpnum á hörpunni þegar hann byrjar að trast niður í særokinu á miðbakkanum.

Hafliði Hinriksson, 25.8.2011 kl. 16:51

2 identicon

Við vorum einmitt að ræða þetta í morgun strákarnir. Verkmenntaskóli Austurlands á að fara á Reyðarfjörð sem fyrst svo hann nýtist að viti..

Þá væri kannski möguleiki að ná þátttöku í kennslu flestra faga á hverri önn td.

Svo við tölum ekki um að hann nýtist þessu "atvinnusvæði" sem talað er um í sífellu..  

   Alcoa gæti jafnvel kostað yfirbygginguna og rekstur á alvöru skóla þar, sem myndi skila miklu fyrir þá ef hugsað er til framtíðar!

En sjálfsagt er pólitík, hefðir og eiginhagsmunapot viðriðið þetta eins og annað ;) 

Sveinbjörn Valur (IP-tala skráð) 25.8.2011 kl. 23:45

3 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Eiginhagsmunapot og hefðir.. segir þú ...  Sennilega kostar svipað að byggja upp nýjan Verkmenntaskóla sem öllu því fylgir og að bora ný göng, þannig að ég held að hefðir og hagsmunapot hafi lítið með þetta að gera.   Það má alveg færa ágæt rök fyrir því að færa skólann og það má alveg halda því fram kinnroðalaust að skólinn hafi verið settur niður á vitlausum stað í upphafi..

En það er öll umferðin sem þarna fer yfir og sú þjónusta öll sem er fyrir norðan skarð sem er undir ekki bara Verkmenntaskólinn..

Því er það mín skoðun að farsællegast væri að grafa göngin, halda síðan áfram til norðurs á Seyðisfjörð og tengja síðan Héraðið með göngum einhversstaðar undir Austfjarðafjallgarðinn.. Þá er allt miðsvæðis og við gætum hætt að togast á um það....

Eiður Ragnarsson, 26.8.2011 kl. 07:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband