Sárt er að kveðja góðan dreng...

Ég man fyrst eftir Jóni Ægir, eða Ægi eins og ég kallaði hann alltaf,  í leðurjakka og hlýrabol og kínaskóm drekkandi kók í gleri fyrir utan Essó sjoppuna á Djúpavogi . Leðurjakkinn var skreyttur barmnælum af ýmsum toga og þarna stóð hann keikur í nístings frosti og norðan garra og það beit ekert á hann. Einhvern vegin stóð mér ógn af þessum dreng sem sennilega var eini pönkari Djúpavogs, í það minnsta í mínum huga en þarna hef ég ekki verið nema um 11 ára gamall.  Kínaskór voru reyndar einkennisskófatnaður Ægis í fjöldamörg ár eftir þetta....

En ég kynntist Ægi betur seinna þegar við unnum saman í mörg ár hjá Búlandstindi á Djúpavogi, þar varð Ægir einn af mínum vinnufélögum og bestu vinum, við unnum öll þau verk sem til féllu, aðgerð, landanir, síldarsöltun og fleira í þeim dúr og alltaf var Ægir hvers manns hugljúfi.

Þarna vorum við nokkrir drengir á svipuðu reki sem unnum saman og skemmtum okkur saman og alltaf var góð stemming í þessum hóp og mikil gleði ríkti á vinnustaðnum þrátt fyrir að frystihúsvinnan hafi ekki endilega verið draumadjoppið, og var þessi góði andi ekki síst Ægi að þakka.

Einnig deildum við áhugamáli þó svo að hæfilekar mínir í hljóðfæraleik væru ósköp takmarkaðir þá höfðum við báðir mikinn áhuga á tónlist, og eftir að hafa starfað með Ægi og fleirum í hljómsveit um nokkur misseri, þá held ég að ég geti fullyrt að ljúfari dreng var erfitt að finna. Auðvitað voru menn ekki brosandi alla daga og auðvitað kastaðist annað slagið í kekki milli vina, en það breytti ekki því að grunnt var á glensið og gamanið og yfirleitt alltaf hafði það yfirhöndina.

Ég var harmi sleginn þegar ég frétti af sviplegu fráfalli gamals vinar og hans skarð verður seint fyllt. Djúpivogur hefur misst einn af sínum bestu sonum.  

Í draumi þeirra daga Jón Ægir
var draumur okkar sá
Að mega verða að mönnum
sama marki ná

Í lífsins leik og gleði
var gatan oftast greið
Hvern gat órað fyrir því
hversu stutt yrði þín leið

Veturinn kom með vindinum
þá vitjaði okkar vá
Fréttin um að félagi
fallinn væri frá

Samt finnst mér það nú frekt
að fallið væri nú
Því flestir hafa lifað
svo miklu meira en þú

Ég að mestu var í móki
mæddist og varð meir
Stund sannleikans varð sýnileg
allt sofnar að lokum og deyr

Blómið þitt í bænum
barmar sér í nótt.
Yfir sumri og sól
sem fór allt of fljótt

Nú kveikjum við á kerti
þú berð krossinn eins og er
En minningin hún lifir
þú verður alltaf hér

Þú varst ljós sem að lýstir
meðan létt var þín lund
Skærasta stjarnan
á himninum um stund

Höf:Sigurgeir Vilmundarson

Hvíl í friði kæri vinur.

Unnustu, börnum og öðrum aðstandendum sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Þetta var sorglegur slysadagur á Austurlandi.

Rúnar Þór Þórarinsson, 21.10.2011 kl. 19:20

2 identicon

Greinilega góður félagi sem þú áttir í Jóni Ægi, innilegar samúðarkveðjur!

Tinna Hrönn (IP-tala skráð) 21.10.2011 kl. 22:16

3 identicon

Ég samhryggist þér innilega elsku Eiður minn.

Þetta er allt saman svo sorglegt og ömurlegt :(

En þetta er falleg minning sem þú setur á prent hérna vinur.

Knús til þín :*

Dísa (IP-tala skráð) 21.10.2011 kl. 22:35

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Samúðarkveðja. Þetta var svartur dagur á Austurlandi

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.10.2011 kl. 23:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband