Samið hefur verið

Búið er að undirrita samning milli Fjarðaslista og B-lista um meirihluta samstarf í Fjarðabyggð kjörtímabilinu, sg er hann svohljóðandi:

 

Málefnasamningur um meirihlutasamstarf Fjarðalista og B-lista í bæjarstjórn Fjarðabyggðar kjörtímabilið 2006-2010

Fjarðalistinn og B-listinn hafa náð samkomulagi um myndun meirihluta í bæjarstjórn Fjarðabyggðar kjörtímabilið 2006-2010. Samkomulagið felst í eftirfarandi málefnasamningi og einnig stefnuskrám framboðanna fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 27. maí 2006.

Bæjarstjóri
Auglýst verður eftir bæjarstjóra og ráðið í starfið á faglegum forsendum. Ráðinn verði aðstoðarmaður bæjarstjóra sem sinni sameiningarmálum og sérstökum verkefnum

Forseti bæjarstjórnar
Forseti bæjarstjórnar verður af L-lista.

Formaður bæjarráðs
Formaður bæjarráðs verður af B-lista.

Samvirk forysta
Bæjarstjóri, forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs skulu hafa með sér samstarf og skulu þeir m.a. ákveða sameiginlega um samskipti sveitarfélagsins við opinbera aðila og fjölmiðla.

Nefndakjör og formennska í nefndum
Í fastanefndir tilnefnir L-listi tvo fulltrúa í fjórar en B-listi tvo fulltrúa í tvær. L-listi tilnefnir formenn í þrjár nefndir og B-listi í þrjár. Gert er ráð fyrir því að formennska í meginnefndum skiptist þannig á milli listanna:
Skipulags- og umhverfisnefnd: B-listi
Fræðslunefnd: L-listi
Íþrótta og tómstundanefnd:
B-listi Menningarnefnd: B-listi
Hafnarstjórn: L-listi
Félagsmálanefnd: L-listi

-Gert er ráð fyrir að starfshópar verði skipaðir til að fjalla um sérstök afmörkuð málefni eins og t.d. málefni heilugæslu og heilsuverndar og málefni veitna.
-Strax verði skipað í þriggja manna starfshóp til að fjalla um samgöngumál.
-Í aðrar nefndir, ráð og stjórnir á vegum Fjarðabyggðar verður haft samráð á hverjum tíma um skipun fulltrúa.
-Tveir fulltrúar frá meirihluta munu sitja í bæjarráði, annar frá L-lista og hinn B-lista

Tekjustofnar og fjármál
-Tryggt verði að þjónustugjaldskrár stuðli að góðri samkeppnisstöðu sveitarfélagsins.
-Þrýst verði á ríkisvaldið að tryggja sveitarfélögum viðunandi tekjustofna.
-Gert er ráð fyrir að þegar yfirstandandi uppbyggingartímabili lýkur verði hægt á framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins og áhersla lögð á að greiða niður skuldir.
-Metnaður verður lagður í rekstur sveitarfélagsins.

Atvinnumál
-Áhersla verði lögð á að nýta uppbyggingu álvers til að efla sem flesta þætti atvinnulífs og auka fjölbreytni þess.
-Stuðlað verði að eflingu fiskeldis í sveitarfélaginu.
-Áfram verði leitað að heitu vatni í sveitarfélaginu og kappkostað að nýta það sem best.
-Að öðru leyti er vísað í stefnuskrár framboðanna.

Stjórnsýsla
-Markmiðið er að öll stjórnsýsla sveitarfélagsins verði sameinuð á einum stað að sex árum liðnum en fyrr ef samgönguaðstæður breytast.
-Bæjarstjórnarfundir og bæjarráðsfundir verði haldnir á Reyðarfirði nema annað sé sérstaklega ákveðið.
-Nefndir ákveði hvar þær haldi sína fundi.
-Áhersla verði lögð á góð tengsl við íbúana. Það verði m.a. gert með útvarpssendingum frá bæjarstjórnarfundum, viðtalstímum bæjarfulltrúa, kynningarfundum, útsendingu fréttabréfa og öflugri heimasíðu.
-Unnið verði að því að ríkisstofnanir í sveitarfélaginu eflist og stuðlað verði að fjölgun þeirra.

Skólamál
-Grunnskólar starfi í öllum sex byggðarkjörnum sveitarfélagsins og stuðlað verði að markvissu samstarfi þeirra á milli.
-Uppbyggingu skólamiðstöðvar á Fáskrúðsfirði verði haldið áfram.
-Áhersla verði lögð á að leikskólar geti fullnægt eftirspurn.
-Stefnt er að því að framkvæmdir við nýjan leikskóla á Norðfirði geti hafist árið 2007.
-Skoðaðir verða möguleikar á því að koma á móts við foreldra og atvinnulíf vegna sumarlokunar leikskóla.
-Stigin verði skref á kjörtímabilinu í þá átt að leikskóli verði gjaldfrjáls.
-Að öðru leyti er vísað í stefnuskrár framboðanna

Íþrótta- og æskulýðsmál
-Áhersla verði lögð á að móta skýra stefnu um uppbyggingu og nýtingu íþróttamannvirkja, í samráði við íþróttafélögin og aðra hagsmunaaðila.
- Mótuð verði stefna í málefnum íþróttafélaganna með það að markmiði að efla þau og notað verði til þess t.d. hvatakerfi.
-Stefnt verði að því að bæta aðstöðu félagsmiðstöðva unglinga.
-Áfram verði haldið starfsemi ungmennahúss sem ætlað er ungu fólki á aldrinum 16-25 ára.
-Stutt verði við listahátíð ungs fólks í Fjarðabyggð.
-Áhersla verði lögð á að efla forvarnir.

Menningarmál-ferðamál
-Unnið verði að eflingu safna í sveitarfélaginu.
-Stutt verði við bakið á menningarstarfsemi og félögum sem starfa á menningarsviðinu.
-Stutt verði við bakið á staðbundnum hátíðum innan sveitarfélagsins.
-Áhersla verði lögð á upplýsinga- og kynningarmál og sérstök nefnd sinni því verkefni fyrst um sinn.
-Samstarf við Markaðsstofu Austurlands verði eflt, og hún nýtt betur.

Skipulagsmál
-Hafin verði vinna við aðalskipulag sveitarfélagsins hið fyrsta.
-Efla verður umhverfissvið sveitarfélagsins til að gera vinnu þess markvissari og skilvirkari. Einnig verði eftirlit með framkvæmdum hert.
-Tryggt verði að deiliskipulögð svæði séu til staðar bæði fyrir atvinnuhúsnæði og íbúðabyggð.
-Áhersla verði lögð á að kynna skipulagstillögur vel, t.d. með dreifibréfum og á heimasíðu sveitarfélagsins.
-Lögð verður áhersla á samræmingu og þéttingu byggðar og uppkaupalistar verði endurskoðaðir reglulega með það í huga.
-Að öðru leyti er vísað í stefnuskrár framboðanna.

Umhverfismál
-Áhersla verði lögð á frágang opinna svæða og almennar umbætur á umhverfi.
-Sérstök áhersla verði lögð á frágang á aðkomunni að þéttbýliskjörnunum.
-Unnið verði að umbótum hvað varðar starfsemi á sviði sorpmála.
-Skýrar kröfur verði gerðar varðandi meðferð á brotamálmi á brotamálmssvæðinu fyrir botni Reyðarfjarðar, og einnig verði umhverfi svæðisins endurskipulagt, með það að leiðarljósi að takmarka sem mest sjónmengun.
-Í samvinnu við ríkisvaldið verði unnin áætlun um aðgerðir á sviði fráveitumála.

Félags- og heilbrigðismál
-Staðið verði fyrir umræðu með fagaðilum um heilbrigðisþjónustuna í Fjarðabyggð.
-Þrýst verði á um stækkun heilsugæslustöðvar á Reyðarfirði.
-Lokið verði við framkvæmdir við hjúkrunardeild á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað og öll áhersla lögð á að framkvæmdir við nýja Hulduhlíð hefjist hið fyrsta.
-Áhersla verði lögð á að samhæfa heimaþjónustu og heimahjúkrun.
-Áfram verði haldið að selja íbúðir í eigu sveitarfélagsins.
-Mótuð verði fjölmenningarstefna fyrir Fjarðabyggð.
-Skoðaðir verði möguleikar á samþættingu félagþjónustu og fræðslusviðs með stofnun Fjölskylduskrifstofu Fjarðabyggðar í huga.
-Að öðru leyti er vísað í stefnuskrár framboðanna.

Samgöngumál og hafnamál
-Almenningssamgöngum verði komið á.
-Þrýst verði á um að þjóðvegur númer eitt liggi um firði.
-Áhersla verði lögð á að skilgreina hlutverk hafnanna í sveitarfélaginu, að svo miklu leyti sem hægt er.
-Ráðinn verði framkvæmdastjóri hafna Fjarðabyggðar, sem meðal annars ynni að markaðssetningu þeirra.
-Áhersla verði lögð á að ný göng á milli Eskifjarðar og Norðfjarðar verði fremst í forgangasröð jarðganga í nýrri samgönguáætlun.
-Sveitarfélagið standi fyrir stofnun félags sem hafi það hlutverk að flýta jarðgangagerð eins og frekast er kostur.
-Sveitarfélagið taki upp formlegt samstarf við SAMGÖNG.

Staðfest með undirritun í Fjarðabyggð þann 30. maí 2006 Guðmundur R Gíslason Guðmundur Þorgrímsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband