Holir fjallgarðar..

Af samgöngum.

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarin misseri um samgöngur á landi hér Austanlands.  Og reyndar ekki bara misseri, heldur áratugi og oft hafa menn togast á um forgangröðun á vegafé, svo ekki sé meira sagt. 

Þessi umræða er einnig mikil í dag og munu sjálfsagt verða áfram um ókomin ár því að þetta mál er eitt af þeim sem allir hafa skoðanir á, eða flestir.

Ég tók því saman til fróðleiks atriði úr skýrslu sem að Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri vann fyrir sveitarfélög hér Austanlands árið 2005, en skýrsla þessi var kynnt á fundi SSA á Reyðarfirði það sama ár.

 Skemmst er frá að segja að þessi ágæta skýrsla hefur einungis safnað ryki og lítið verið notuð til að leggja mat á möguleg jarðgöng hér Austanlands en skýrsluna má nálgast í heild sinni hér:  http://www.rha.is/static/files/Rannsoknir/2005/Austurland-vefutgafan.pdf

En ég tók saman helstu upplýsingar um jarðgöng milli Norðfjarðar (Fannardals) og Seyðisfjarðar um Mjóafjörð.  Upplýsingarnar eru úr skýrslunni með örlitlum styttingum og orðalagsbreytingum.

 

Göng frá Norðfirði til Mjóafjarðar: Gangamunni að sunnan yrði í

120 m.y.s, en gangamunni að norðan í 70 m.y.s. Lengd ganga

yrði 6,35 km, þar af lengd skála 200 m.

 

Göng frá Mjóafirði til Seyðisfjarðar: Gangamunni að sunnan í 30

m.y.s, gangamunni að norðan í 240 m y s. Lengd ganga 5,1 km.

Þar af lengd skála 200 m.

Lengd vega yrði samtals 8,8 km  Stytting leiða miðað við gefnar forsendur vegna jarðganga milli Eskifjarðar og Seyðisfjarðar í gegnum Fannardal og Mjóafjörð með nýjum Norðfjarðargöngum.

 

Seyðisfjörður - Neskaupstaður                   67 km

Seyðisfjörður - Eskifjörður                         48 km

Seyðisfjörður - Reyðarfjörður                     20 km

Seyðisfjörður-vegamót í Reyðarfirði             16 km

Seyðisfjörður- Breiðdalsvík                         7km

Eskifjörður-Egilsstaðir                                3km

Mjóifjörður - Seyðisfjörður                         47km

Mjóifjörður - Norðfjörður                            63km

Mjóifjörður - Eskifjörður                             31 km

Mjóifjörður - Reyðarfjörður                        18 km

Frá Norðfirði er 4 km styttra, en er í dag, um ný göng en um Oddskarð til allra staða sunnan ganga.

Af þessu má sjá að áhrif ganganna eru gífurleg, Seyðisfjörður kemst nær öllum bæjunum sem eru fyrir sunnan hann allt að Breiðdalsvík.  Næsti bær við Seyðisfjörð verður Eskifjörður. Það er athyglisvert, ekki síst í ljósi þess að á báðum stöðunum sitja sýslumenn fyrir sitt hvort umdæmið. Neskaupstaður færist nær Egilsstöðum og Eskifjörður einnig þó lengri tíma taki að fara styttri leiðina.

 Þarna yrði um að ræða gríðarlega breytingu á samskiptamöguleikum Seyðfirðinga og íbúa á fjörðunum þar fyrir sunnan, jafnframt því sem vetrareinangrun Mjóafjarðar og Seyðisfjarðar væri rofin. Vegalengdin milli Seyðisfjarðar og Neskaupstaðar úr 97 km í 30 km og þar með væru þessi byggðarlög á sama atvinnusvæði. Þetta skiptir ekki aðeins máli vegna styttingar á vegalengdum, heldur einnig vegna aukins öryggis í ferðum, t.d. vegna flugs frá Egilsstöðum til útlanda og siglinga ferjunnar Norrænu, eins og áður hefur verið nefnt. Í heildina talið er um að ræða stórkostlega breytingu á möguleikum til samskipta.

 Arðsemi af þessum jarðgöngum yrði einnig umtalsverð miðað við marga aðra kosti sem skoðaðir hafa verið á Austurlandi, eða um 2.3% (reiknað 2005) En í skýrslu RHA frá  er reiknað með að arðsemi Norðfjarðarganga sé um 1.75%  Stofnkostnaður (árið 2005) var reiknaður um 6,7 milljarðar en gæti verið um 13 milljarðar framreiknað, það er þó mest mín ágiskun, þar sem Norðfjarðargöng voru reiknuð í rúmum 4 milljörðum árið 2005, en í dag er reiknað með að þau kosti um 10 milljarða.

Ég hvet alla sem áhuga hafa á samgöngumálum og jarðgöngum að kynna sér þessa skýrslu, í henni er mikill fróðleikur um mögulega kosti í jarðgöngum hér Austanlands og velt fram þeirra kostum og göllum og mögulegum áhrifum á íbúa og byggðaþróun.

 Góðar stundir..     


Afhverju og hversvegna..?

Hvað fær þig til þess að standa í þessu..?

Var ég eitt sinn spurður af félaga mínun um það áhugamál mitt sem kallast sveitarstjórnarpólitík...

Það varð eitthvað lítið um svör.. Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að svara þessu.. Ekki eru það launin þau eru ekki þess virði að eltast við þetta, ekki er það þakklæti samfélagsins, maður fær venjulega bara að heyra það þegar eitthvað mælist illa fyrir, annars ekkert.  Ekki eru það völd eða áhrif, því að þó vissulega fylgi þessu hlutverki eitthvað slíkt þà er það ekki þess eðlis að um raunveruleg völd sé að ræða, en vissulega einhver áhrif...


Erum við kanski kominn þar að kjarna málsins..? Eru það áhrifin sem ég get haft á okkar samfélag sem er málið..? Hvernig það mótast og breytist, hvernig það lítur ùt..?

Ég get í það minnsta haft meiri áhrif á fundi í nefnd eða bæjarstjórn en á fundi í eldhùskróknum heima, er það ekki? Ég get gefið af mér til þess samfélags sem ég bý í, ekki bara verið "eldhùsgagnrýnir" og þiggjandi og reynt að leggja mitt af mörkum til að móta okkar samfélag til framtíðar og betri vegar.


Nù hljómar þetta kanski óttarlega hrokafullt, "eldhùsgagnrýnir" og allt það, en vonandi verður mér það fyrirgefið.  En það er oft einmitt tilfellið að það er lítið mál að gagnrýna öll mannana verk og öll orka þau tvímælis þá framkvæmd eru, en ef að menn taka ekki þátt þá verður litlu áorkað.


Að taka þátt er lykilatriði og að vera virkur í sínu samfélagi, rýna til gagns og reyna að láta gott af sér leiða.


Stundum gengur það vel, stundum finnst fólki illa að verki staðið, stundum liggur allt ljóst fyrir og málin eru einföld og blátt áfram en stundum eru þau flóknari og kalla á málamiðlanir og samninga, en alltaf eru þau unnin af góðum hug og með það að leiðarljósi að ná sem bestri niðurstöðu fyrir sem flesta.


Nù taka ég bara fyrir mig en þetta er sennilega það sem fær mann til að gefa kost á sér aftur og aftur til þeirra trùnaðarstarfa sem sveitarstjórnarmálin eru..


Góðar stundir


Á því herrans ári 2013...

Janúar 

Þegar árið 2013 gekk í garð var heimilisfaðirinn að Heiðarveginum að vinna sínar síðustu mínútur og klukkustundir fyrir Alcoa Fjarðaál en síðasti vinnudagurinn á því heimili var 4. jan. Teknir voru nokkrir dagar í frí milli fyrirtækja en sá fyrsti hjá nýjum vinnuveitanda, Brammer; var 16. janúar.

Eitt fertugsafmæli og eitt sextugsafmæli í þessum fyrsta mánuði ársins, til hamingju með það Jón Björn og Gummi Bjarna. I lok janúar var síðan breska heimsveldið heimsótt, en skottast var til UK og höfuðstöðvar hins nýja fyrirtækis barðar augum, ásamt því að reynt var að troða í mann ýmiskonar vitneskju um fyrirtækið og verkferla þar innanhúss.  Reyndar var sú ferð eftirminnileg á þann hátt að ég týndi veskinu mínu á Heathrow flugvelli, en viti menn, ég gat gengið að því vísu á heimleiðinni, með öllu innihaldi óhreyfðu.. Góð sparnaðarráðstöfun ekki satt...

Febrúar.

Fyrsta fimleikamót ársins hjá örverpinu, ekki minnkar áhuginn hjá henni og stendur hún sig stórvel.  Skottast var á Landsþing Framsóknar sem var nokkuð vel heppnað, nema hvað uppgrip lögreglu höfuðborgarsvæðisins varð fréttamatur mikill, vegna þess hve frjálslega var lagt við þingstað vegna skorts á bílastæðum.. Ábyggilega gert grín að því í Spaugstofunni.. Voru hjónakornin að Heiðarveginum ein ef þeim sem sktarboð fengu, en málið var látið niður falla þar sem ljósmyndir af vettvangi sönnuðu sakleysi þessara sveitarmanna.

Mosi var teiknaður upp, Ingi Ragnarsson sá um það,  en það er fyrsta skrefið í því að fá húsið samþykkt af byggingarfulltrúa en stöðuleyfi það sem við höfðum á sveitarsæluhúsinu okkar fæst ekki endurnýjað og því þarf að spýta í lófa og klára það sem klára þarf. 

Frumburðurinn flutti út, en Þórarinn tók ásamt félaga sínum íbúð á leigu "inni í blokk" eins og við köllum það, hér í Réttarholtinu á Reyðarfirði.

Fjölskyldan eignaðist jeppa loks aftur, en við höfum nefnt hann Ryðfirðinginn þar sem hann er dulítið mölétin og lasburða, en það er bara gott verkefni að koma honum í nothæft stand.  Um er að ræða Fjórhlaupara af kyni Toyota árgerð 1993 ekin vel á fjórða hundraðið en gangverkið er gott þrátt fyrir mikla loftun í yfirbyggingu...

Mars

Hófst á því að við bræðurnir  mokuðum parketi útúr "mjólkurbúð" Reyðfirðinga, en okkur hafði borist það til eyrna að það ætti að lenda á haugunum og því var stokkið til og þessu eðalplastparketi smellt í kerru og brunað með það í Mosa.. (en ekki hvað) og nú skal sveitahöllin lögð "vínvið" af bestu gerð...  

Mosi fékk töluverða yfirhalningu í þessum mánuði, en stofa og svefnherbergi voru máluð loftaefni sett í svefnherbergi ásamt því að "vínviðurinn" var lagður á alla sveitahöllina nema bað.. Þvílíkur munur að sjá og bara frábært að komast yfir svona eðalhluti til að nýta..

Þessi mánuður endaði síðan á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, en fimleikadrottningin veiktist heiftarlega af einkyrningssótt svo illa að ekki var talið annað þorandi en að leggja hana á sjúkrahús en síðustu dögum fyrir páska ásamt skírdegi var eytt þar nyrðra, en héldum heim á föstudaginn langa í blíðskaparveðri.  Ekki var þó stúlkan orðin hress en nógu hress til að læknar treystu henni til að vera heima í stað þess að dvelja á sjúkrahúsi. 

Apríl

Hófst með jepparúnt á slóðir hreindýra í Egilssel við Víðidal en bræðurnir frá Bragðavöllum (Ingi og Eiður) fóru þangað ásamt nokkrum öðrum austfirskum jeppamönnum í helgarrúnt.  Fínn rúntur í ágætis veðri og endað var á því  að keyra niður Fossárdal og eins og lög gera ráð fyrir í kaffi á Lindarbrekku.

Kosningaundirbúningur tók slatta af  tíma heimilsföðursins í þessum mánuði, ásamt því að landshlutafundur SL var haldin á Egilsstöðum og var stjórnarmeðlimum Slysavarnarfélagsins boðið að bragða hreindýr á Heiðarveginum og mæltist það bara nokkuð vel fyrir.

Borgfirðingar sóttir heim en Björgunarsveitin Sveinungi fagnaði þeim áfanga að taka í notkun nýtt og glæsilegt hús á Borgarfirði. 

Maí

Var tíðindalítill að mestu, nema hvað Landsþing Slysavarnafélagsins var haldið á Akureyri og náði Heimilsfaðirinn kjöri til stjórnar á nýjan leik ásamt öðru góðu fólki. Einnig var stór söfnunarþáttur haldin fyrir SL í lok mánaðar og tókst hann með afbrigðum vel.

Júní

Hófst á ferðarlagi til Skotlands, en  hjónin á Heiðarveginum ásamt Bergey, Ragnari, Þórunnborgu og Jóni skottuðumst þangað í sumarfrí.  TIl stóð að dvelja þar í 10 daga og meðal annars að heimsækja gamlan vin, Antony Young sem þar á sumarhús í hálöndunum.  ekki fór þó betur en svo að Tony veiktist stuttu áður veið lögðum í hann og því var heimsóknin bæði endasleppt og dapurleg, en við náðum þó að hitta hann í stutta stund á spítala í Inverness og þó að hann hafi verið mjög veikur viljum við trúa því að hann hafi þekkt okkur og vonandi náðum við að gleðja hann lítið eitt með komu okkar.

Á haustmánuðum fengum við síðan þær dapurlegu fréttir að þessi gamli vinur okkar hafi kvatt þennan heim, hann náði sé aldrei á strik eftir veikindi þau sem voru að hrjá hann þegar við vorum ytra. Blessuð sé minning hans.

Ferðalagið var að öðru leyti yndislegt, veðurblíða eins og best verður á kosið og margt að skoða, eitthvað bar þó á taugaveiklun farþega í bílaleigubílum þeim sem leigðir voru.. feðgarnir Eiður og Ragnar  eru ekki alvanir því að sitja með stýri öfugmegin í bíl og að keyra á vitlausum vegarhelmingi, en allt tókst þetta nú áfallalaust. 

Í lok júni var síðan Landsmót unglingadeilda SL haldið með stæl á Norðfirði, en nú sáu Björgunarsveitirnar í Fjarðabyggð um herlegheitin.  Þótti mótið takast prýðisvel, rúmlega 300 krakkar komu þar saman og höfðu mikið gaman af en örverpið og heimilisfaðirinn voru virkir þátttakendur í þeim gjörningi.

Júlí.

Var mánuður andstæðna gleði og sorgar.  

Hlöðuhittingur var planaður þann 13. og hafði sú dagsetning verið ákveðin af heimilisföðurnum  og Særúnu frænku í febrúar.  

Húni heimsótti okkur Reyðfirðinga heim og komu rúmlega 1100 manns saman á bryggjunni og tók heimilisfaðirinn virkan þátt í þeim merka viðburði.  Gleðin fékk þó skjótan enda þar sem okkur var tilkynnt að morgni þess 6. að Ingibjörg Ólafsdóttir, amma, tengda amma og langamma  hefði kvatt þessa jarðvist eftir skammvinn veikindi.

Hlöðuhittingur Bragðvellinga var því með öðru sniði en áætlað hafði verið, því byrjað var á því að fylgja Ingibjörgu hina hinstu för og að því loknu komu menn og konur saman í hlöðunni að Bragðavöllum til að minnast hennar.

Heimilisfaðirinn rifjaði upp gamla takta og sló heimatúnin að Bragðavöllum fyrir þá feðga á Lindarbrekku Eið og Val og þótti honum það ekki leiðinlegt.

Ágúst.

Heimilisfrúin fjárfesti í draghýsi í byrjun mánaðar, og heilum 4 klst seinna var skottast í útilegu í Þakgil með fjölskyldunni í Reynihlið og heiðurshjónunum að Bragðavöllum, var verslunarmannahelginni eytt þar í blíðviðri í húsbíl, fellihýsi og tjaldvagni Heiðarvegsfjölskyldunnar.

Skottast var síðan til borgarinnar við sundin og tjaldsvæðið í Laugardal nýtt til gistingar og þaðan norður um land og heim..

Unnið var eitthvað í Sveitarsæluhúsinu í þessum mánuði, málað utandyra og byrjað á rennum og þakskeggjum sem var m.a. einn af þeim hlutum sem þarf að laga til að fullnægja kröfum byggingarfulltrúa Djúpavogshrepps...

September

Var til þess að gera tíðindalítill, þó var dvalið í Mosa eina helgi og að þessu sinni ekki til neins annars en að njóta sveitasælunnar, týnd ber, veiddur, fiskur og rúntað um Hamarsdalinn (himnaríki á jörð) og bara í allsherjar slökun og afslöppun..

Alma fékk sér nýja vinnu, hætti hjá Olís og fór að vinna á leikskólanum hér á Reyðarfirði.. 

Eitthvað var unnið í fjórhlauparanum en þó að hann hfai verið keyptur á vormánuðum, þá eru handtök nokkur eftir í honum til að gera hann að nothæfum fjallafara fyrir heiðarvegsfjölskylduna. Í lok þessa merka mánaðar náðist sá stórmerki áfangi að koma þessum flekkótta bíl á númer og hérumbil í gegnum skoðun, smávægilegar athugasemdir skoðunarmanns tryggðu honum aðeins grænan miða.

Í lok mánaðarinns lagði heimilisfaðirinn land undir fót og heimsótti ásamt öðru stjórnarfóki í Slysavarnarfélaginu Landsbjörg björgunarsveitir á norðurlandi vestanverðu frá Sigló til Blöndóss.. Magnað að sjá hvað allar þessar frábæru sveitir eru bara.. ja.. bara magnaðar...

Október

Var rólegur en þó ekki.. Heimilsfaðirinn skottaðist um allar koppagrundir á vegum SL ásamt því að fjórhlauparinn fékk loka yfirhalningu fyrir enduskoðunn sem hann rann að sjálfsögðu í gegnum, en ekki hvað...  Fyrstu helgi í rjúpu var eytt í Mosa sem lög gera ráð fyrir, en eitthvað var veiði heimilsföðursins rýr eða engin rjúpa.. en þó tókst honum að sigra eitt stykki tind meðan Veiðiflugustjórinn Björgvin Pálsson gekk af rjúpnastofni Hamarsdals dauðum, og kálaði þremur rjúpum... ekki slæm veiði það....

Nóvember

Byrjaði með ferðalagi Heimilisföðursins norður á Strandir með öðrum stjórnarmeðlimum Landsbjargar enn á ný...  Nýjar slóðir fyrir hann og mikil upplifun.

Annar veiðidagur í rjúpu, skilaði ekki neinu.. en rjúpnastofn Hamarsdals nýtur góðs af því hversu misskotviss Heiðarvegsbóndinn er...

Fimleikadrottningin er að ná sér á strik efitr veikindi um páska nýliðna, en eiitthvað var bratt á þeirri braut en nú er allt að lagast.. svo vel að hún var valin í hóp afreksstúlkna hjá Hetti og send íá æfingar í Garðabænum í nokkra daga, en þar er fimleikaaðstaða með því besta sem gerist á landinu.

Heimilsfólkinu fækkaði um einn í lok mánaðar, þar sem Ragnar tók hatt sinn og staf og kvaddi okkur og vinnufélaga sína hjá Alcoa, en hann náði þiem merka áfanga að verða 68 ára þann 26.

Frumburðurinn flutti aftur heim, fékk nóg af piparsveinalífinu í bili, enda hvergi betra að vera, en á hótel mömmu.

Rotþróarskipti voru framkvæmd í Mosa og nú er hægt að "gera nr.2" löglega í Mosanum og við einu skrefi nær því að klára það frábæra afdrep. 

Desember.

Tvenn jólahlaðborð, forsetakaffi, fjallaferð og fótabað á Ryðfirðingnum og annað hefðbundið desember stúss.   

Semsagt ósköp hefðbundið ár ekki neinar stórar fréttir eða breytingar..

Áramótakveðja frá okkur hér af Heiðarvegi 35 

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir.. 


Ingibjörg Ólafsdóttir

Í dag 10. des. hefði Ingibjörg, eða Imba amma eins og við barnabörn hennar kölluðum hana oft átt 88 ára afmæli.  

Mínar fyrstu minningar um ömmu úr sveitinni á Bragðavöllum, snúast sennilega um kleinur eða pönnukökur, hvort þær minningar myndu standast skoðun er svo óvíst, en einhverra hluta vegna tengi ég alltaf kleinur við Ingibjörgu, og sjaldan standast þær sem ég hef í munni hverju sinni, samanburð við bakkelsi minninganna hjá henni ömmu minni.

En hún gerði meira en að steikja kleinur.  Alltaf var hún okkur barnabörnunum og öðrum fjölskyldumeðlimum innan handar ef við þurftum á því að halda, og ef að það ætti að skilgreina orðið "ömmu" í íslenskri orðabók, þá er ég nú þeirrar skoðunar ljósmynd og lýsing á Ingibjörgu ætti þar vel við.  

Við töluðum oft um það að amma hefði áhyggjur af öllu, en þegar maður eldist og vonandi þroskast, þá verður manni ljóst að þetta eru ekki áhyggjur eins og þær ætti að skilgreina, heldur er þetta umhyggja og viljinn til að passa sitt fólk og sjá til þess að því gangi allt í haginn.  Ég held  að það hafi fátt glatt ömmu meira en þegar hún vissi að okkur börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum hennar, gengi allt í haginn.

Ein hefð í minni fjölskyldu var að hittast hjá ömmu á jóladag, þar komum við öll saman og borðuðum góðan mat, spjölluðum og spiluðum og áttum góðan dag saman.  Í seinni tíð var farið að þrengjast töluvert í stofunni í Sólgerði, en það gerði ekkert til varð einhvernvegin bara notalegra. Alltaf var maturinn og öll umgjörð til fyrirmyndar en yfirleitt talaði amma um það að þetta væru nú allt frekar lítilfjörlegt og jafnvel ómögulegt og allir sem þekktu ömmu þekka setningar eins og "ómögulegar kjötbollur" og "ómögulegar kleinur" því ekki þótti henni tilhlýðilegt að mæra eigin verk í eldhúsinu um of.

Í seinni tíð hefur skapast sú hefð að hittast líka að sumri í Hlöðunni á Bragðavöllum og að 

Ingibjörgsjálfsögðu kom amma þangað líka.  Reyndar hefur sá hópur sem þar hittist stærri skírskotun en við sem hittumst á jóladag, en ég trúi því að ömmu hafi þótt það gaman hvað við vorum samheldin og henni hafi þótt vænt um það að við héldum ástfóstri við heimaslóðirnar sem henni þótti líka mjög vænt um. 

En hann var því með öðru sniði þetta sumarið, Hlöðuhittingur okkar Bragðvellinga, en amma var kvödd með því að við ættingjar hennar vinir og afkomendur hittumst, fylgdum henni til grafar og söfnuðumst svo saman í hlöðunni á Bragðavöllum. En það einkennilega við þetta var að í fyrsta skipti í sögu Hlöðuhittings var ekki rigning, heldur blíðskaparveður og vil ég trúa því að amma hafi séð til þess að fólkið hennar fengi þau veðurskilyrði sem þau ættu skilið til að koma saman og hittast, þó svo að tilefnið og aðstæður væru aðrar en áætlað hafði verið.

Hvíl í friði Ingibjörg við söknum þín öll.

 


Aðgát skal höfð í nærveru sálar...

Unanfarin ár hefur átt sér stað bylting í viðmóti samfélagsmiðla á þann veg að lítið mál ef fyrir okkur sem það kjósum að tileinka okkur þessa miðla og nóta þá.  Margt jákvætt fylgir þessu, en því miður töluvert neikvætt líka.  Borið hefur á því að börn hafi nýtt sér þetta nýja form samskipta til eineltis, og við sem eldri erum höfum fallið í þá gryfju einnig svo vel er eftir takandi.

 

Það virðist nefnilega vera orðið að þjóðaríþrótt að tala illa um náungan, og mesta athyglina fær sá er verst velur orðin..  Mér finnst á köflum það vera með ólíkindum hvernig þessir annars mögnuðu miðlar  eru orðnir að gróðratstíu öfga þegar kemur að orðræðu um málefni og menn.  Við sem notum þessa miðla okkur og vonandi öðurm til einhvers gagns og ánægju fengum örlitla vakningu um ein áramót, þegar áramótaskaup sjónvarpsins var að hluta tileinkað því nýnæmi á opinberum vettvangi að mega athugasemdalaust uppnefna og kalla náungan öllum þeim verstu nöfnum sem okkur detta í hug hverju sinni af hvaða tilefni sem er.

 

Og þó svo að tilefni sé til staðar til að finna að hegðun, orðum eða gjörðum  einstaklinga af hinum ýmsu stigum þjóðfélagsins, þá virðast aðfinnslur netverja miða að því einu að særa, hneyksla eða ganga sem mest fram af þeim sem letrið berja augum, lítið fer fyrir málefnalegri umræðu eða gagnrýni, gagnrýni sem miðar að því að rýna til gagns og hugsanlega leggja nýja sýn inn í umræðuna og jafnvel bæta það sem rætt er um hverju sinni.

 

Einn angi af þessu er hversu mikill dilkadráttur er tengdur þessu og yfirleitt er lægsti mögulegi samnefnarinn notaður yfir hóp fólks og allir settir undir sama hatt.  Við sjáum þetta í ýmiskonar umræðu t.d. um ýmsa þjóðfélagshópa og starfsstéttir, jafnvel mjög fjölmenna hópa og það gefur augaleið að ekki eru allir eins þó svo að þeir stundi sama atvinnuveg eða deili skoðunum á málefnum líðandi stundar.  Hóparnir eru  dæmdir einsleitir þó svo að sannleikurinn sé langt frá því að vera á þá lund sem gefið er í skyn.

 

Misjafn sauður er í mörgu fé er orðatiltæki sem hér á ágætlega við, það er nefnilega svo að fólk er jafn misjafnt  í orðum og gjörðum og fjöldi þeirra gefur tilefni til hverju sinni og því ætti ekki að velja eins og áður sagði, lægsta mögulega samnefnarann til viðmiðunnar heldur að horfa til þess sem hver einstaklingur hefur til málana að leggja.

 

Því verð ég að enda þennan stutta pistil á því að hrósa þeim sem ekki hafa tamið sér þann leiða sið að uppnefna, stuða og hneyksla á þessum vettvangi,  heldur eru að reyna að byggja upp gagnlega og vitræna umræðu okkur öllum til hagsbóta.  Vandin er hinsvegar sá að einhverra hluta vegna fær það ekki sömu athygli fjöldans að vera „dannaður“  eða málefnalegur í málflutningi en það má samt ekki að stöðva þá sem vilja í því að velja þann veg.

 

Það er hverjum manni hollt að fá gagnrýni á sínar gjörðir og verk, en það er líka hverjum manni hollt að byggja sína gagnrýni á málefnalegum grunni og við vitum það vel aðgagnýni sem sett er fram á málefnalegan hátt er miklu vænlegri til þess að hafa áhrif á skoðanir annara og niðurstöðu mála en sú aðverðar fræði að uppnefna, dæma og formæla í gríð og erg án þess að málefnið fá í raun nokkurt innlegg sem til gagns má teljast.

 

Góðar stundir


"Lífið er það sem gerist þegar þú ert upptekin við að gera aðrar áætlanir"

Þetta textabrot lauslega þýtt af undirrituðum kemur fyrir í lagi eftir John Lennon þar sem hann syngur til sonar síns Sean í laginu Beutyful Boy af plötu sem heitir Double Fantasy sem kom út 1980

Before you cross the street take my hand.
Life is what happens to you while you’re busy making other plans.

Ekki var þó bítillinn fyrrverandi sá sem varpaði þessu spakmæli fram fyrstur heldur er til tilvitnun í teiknimyndapersónu að nafni Steve Roper í blaðinu Reader´s Digest frá því í janúar 1957.  Höfundur þessarar teiknimyndapersónu hét  Allan Saunders átti hann þarna ágæta kollgátu um lífið og tilveruna sett saman í eina hnitmiðaða setningu..

En umfjöllum um orðatiltækið var nú ekki aðalvangavelta dagsins heldur um intak þess.. Við gerum allskonar plön og áætlanir um æfina en hversu mikið af þeim nær fram að ganga??  Ég hef persónulega alltaf dáðst að fólki sem getur gert langtímaplön um sitt líf.. Aldrei hef ég getað það kanski fyrir viku í senn, eða fram að mánaðarmótum.. Segir kanski meira um það hversu skipulagður ég er eða öllu haldur ekki skipulagður..

En hvað um það.. hef s.s. ekki verið neitt að sýta það þó að þau litlu plön sem gerð hafa verið séu með þá tilhneigingu að ganga ekki upp.. held að skipulag sé ekki endilega lykillinn að lífsfyllingu frekar tel ég að uppskriftin sé sú að njóta augnabliksins og upplifa það með sínum kostum og göllum.. Takast á við vandamál með stóískri ró og yfirvegun og muna að alveg sama hversu svartur dagurinn í dag er, þá kemur annar á morgun og annar þar á eftir og fjölmargir eftir það og bróðurpartur þeirra verður framúrskarandi góður eða í það minnsta bærilegir..

Það hefur reynst mér vel að velta mér ekki uppúr neikvæðni og svartsýni, jákvæðni og bjartsýni hefur skilað miklu meiru og ekki bara fyrir mig heldur fyrir okkur öll.. Sjáið t.d. fyrir ykkur vísindamann sem er á barmi þess að uppgvötva nýja hluti eða finna þá upp.. Hversu langt nær hann ef við kvæðið erþetta er ekki hægt eða þetta er ómögulegt.. ? Hann stoppar hann kemst ekki lengra og það verður stöðnun... Ef hann á hinnveginn segir  þetta er hægt eða þetta er mögulegt þá eru honum lítil sem engin takmörk sett.

En megin inntakið átti að vera þetta: Njótum þess góða sem dagurinn í dag hefur uppá að bjóða það er fjölmargt ef vel er að gáð og oft leynist það í hversdaglegum hlutum sem okkur yfirsést vegna þess að við erum upptekin af því að gera plön þegar við ættum að vera upptekin af því að lifa lífinu sem áfram líður, óháð skipulagi eða óreyðu.

Góðar stundir..



Um málefni líðandi stundar....

Ég hef verið þungt hugsi yfir ýmsu undanfarna daga og vikur... Gott gengi  Framsóknarmann er eitt og sýnist mér að það kalli fram hin ólíklegustu viðbrögð hina ýmsu einstaklinga eða það er s.s. ekkert nýtt, það hefur löngum verið í tísku að tala niður til Framsóknarmanna ... En ég hafði ekki ætlað að tjá mig um Framsóknarflokkinn sérstaklega heldur annað sem tengist inn í hina pólitísku umræðu  þessa dagana...

Það er ein spurning sem ég þarf að kasta fram til glöggvunar á því hvert ég er að fara, en hún er: Hvað er stjórnmálaflokkur... ??

Já hvað er nú það... ??

Stjórnmálaflokkur sama hvaða nafni hann nefnist er ekkert annað en fólkið sem í honum er.. Hann er ekki verri eða betri eftir því hversu gamall hann er eða hvaða nafn hann ber, heldur stjórnast hans tilvist og veruleiki einvörðungu af því fólki sem gefur af sínum tíma, langflest í sjálfboðavinnu, til að móta stefnur og strauma og stefna þá leið sem það telur vera heillavænlegasta fyrir land og þjóð..

Flestir eru þarna af einskærum áhuga á málefninu og eru tilbúnir til að gefa sína vinnu til að fylgja hugsjón, sameiginlegu markmiði og eru sammála um leiðina að því markmiði...

Um þetta fólk (og rétt að taka fram að ég er einn af þeim) ættu menn að tala af virðingu þó svo að ekki séu menn samála áherslum, það ætti að tala af virðingu um fótgönguliða  „flokksins"  hvort sem hann er glænýr eða eldgamall, hvort sem hann er stór eða lítill, hvort sem hann er vinstri eða hægri..

Það er nefnilega einu sinni svo að það er þetta fólk sem mótar stefnuna, það er þetta fólk sem þingmennirnir eru að vinna  í umboði fyrir og þeir eiga að framfylgja stefnu sem sett er á landsþingum og öðrum samkomum flokkana af þessu fólki.

Það að halda því fram að það sé nóg að flokkurinn sé nýr til að um hann blási ferskir vindar er auðvitað óttalegur misskilningur, því að mig grunar að það séu nú frekar fáir eftir af upprunalegum stofnfélögum elstu flokkanna, sennilega líka hjá þeim yngri, nema kannski hjá framboðum sem stofnuð eru á síðustu metrum kjörtímabilsins.

Sú bábilja að nefna endalaust fjórflokkinn, sem eitthvað skrímsli með horn og hala, sjálfstæðan vilja og illa tilveru,  er ekki fólki, sem vill málefnalega upplýsta og uppbyggandi umræðu, ekki til  framdráttar og það að halda þessu sífellt á lofti sýnir einungis að viðkomandi einstaklingar eru ekki tilbúnir í málefnalega umræðu.

 Það mætti rétt eins tala um öll nýju framboðin af sömu fyrirlitningu og segja að þau séu öll full af tækifærissinnum, með ekkert bakland og þeirra eina hugsun sé að skara eld að eigin köku... En það myndi einmitt sýna sömu málefnaþurrð og vera málefnum lítið til framdráttar...

Við getum nefnilega haft áhrif í hvaða flokki sem við viljum, algjörlega án tillits til þess hvað hann heitir, bara ef við nennum að leggja tíma okkar og vinnu í það og hér á það sama við og í öllu öðru, það verður engu komið í verk nema menn vilji leggja á sig vinnu og sé tilbúið til að fylgja henni eftir. Langstærsta  vandamálið í íslenskri pólitík er nefnilega, almennt áhuga- og þátttökuleysi almennings..

Það hefur reyndar komið fyrir að sterkir leiðtogar taka völdin og grasrótin hefur lítið um það að segja hvað gert er og sú hætta er allstaðar til staðar þar sem hópur velur sér forustu, sama hvort að það eru pólitísk samtök eða golfklúbbur, en til þess að lágmarka hættuna á því eru til lög og reglur, settar af viðkomandi félagi og samfélaginu, sem okkur ber að fara eftir og þess vegna er forustan valin með reglulegu millibili.

En það sem ég er að reyna að segja er einungis eitt..

Reynum að hefja okkur yfir þann skotgrafahernað sem tíðkast hefur mikið undanfarin misseri þegar kemur að pólitík. (svo sem ekki bara undanfarin misseri)  Hvetjum til fordómalausrar og málefnalegrar umræðu því  annars náum við engum árangri og ég held að allir ættu að geta verið sammála um það að gagnkvæm virðing fyrir málefnum og áherslum framboða er nauðsynleg til að endurvekja það traust sem sýnilega hefur skort á stjórnvöldum og Alþingi.  Að málefnaleg umræða um sömu áherslur og málefni er það eina sem getur rétt kúrsinn og komið okkur á þann stað sem við viljum vera.

Og að lokum

Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann.
Þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann.
En láttu svona í veðrinu vaka,
þú vitir að hann hafi unnið til saka

En biðji þig einhver að sanna þá sök,
þá segðu að til séu nægileg rök.
En að náungans bresti þú helst viljir hylja,
það hljóti hver sannkristinn maður að skilja.

Og gakktu nú svona frá manni til manns,
uns mannorð er drepið og virðingin hans,
og hann er lyginar helgreipar seldur
og hrakinn og vinalaus í ógæfu felldur.
(Páll J. Árdal)

Gæti átt við um hóp fólks rétt eins vel er það ekki....???

Góðar stundir...


Af almenningssamgöngum..

     Undanfarnar vikur hefur margt verið skrafað og skeggrætt um almenningssamgöngur á Austurlandi þó aðallega í Fjarðabyggð undanfarnar vikur.

Þessi umræða hefur átt sé stað í kjölfar ákvarðana um breytingu á gjaldskrá þar sem bæði uppbygging og aðferðarfræði við gjaldheimtu hefur verið endurskoðuð.

Bæjar og nefndarfulltrúar Fjarðalistans hafa þó mest haft sig í frammi varðandi þetta mál og gagnrýnt það mög harkalega fyrst og fremst á þeirri forsendu að allir íbúar Fjarðabyggðar eigi að sitja við sama borð  þegar kemur að gjaldtöku fyrir almenningssamgöngur, þ.e. að greiða sama gjald óháð því hvaðan er komið eða hvert er verið að fara innan sveitarfélagsins.

En um hvað snýst málið í raun  ??  Hverjar eru hinar bláköldu staðreyndir málsins.??

Farin var sú leið við endurskoðun á gjaldskrá að nota svipað kerfi og strætó hefur tileinkað sér í akstri um hinar dreifðari byggðir, en hún fellst í því að svæðum er skipt í niður í þrep og fyrir hvert þrep er ákveðin krónutala.  Síðan ferðast farþeginn 1, 2 eða fleiri þrep (eða gjaldsvæði) og borgar eftir því.  Með þessu kerfi er nokkuð auðvelt að setja upp gjaldskrá sem er gegnsæ og einföld og í raun borga allir sama verð, sama hvar þeir eru í sveit settir fyrir hvert gjaldsvæði.

Verð á stökum ferðum breytist mest, en það má færa fyrir því sterk rök að núverandi gjaldskrá sé mjög ósanngjörn, og hvetji menn og konur ekki til að nota þennan ferðamáta, til að mynda þá kostar samkvæmt núverandi gjaldskrá litlar 3000 krónur fyrir svo stuttan legg sem Eskifjörður - Reyðarfjörður og litlar líkur á því að einhver nýti sér það nema í neyð þegar þessi stutti spotti er þannig verðlagður, það er margfalt ódýrara og þægilegra að nota einkabílinn sé hann til staðar.

Stakar ferðir milli Stöðvarfjarðar og Reyðarfjarðar lækka líka og því hefur einmitt verið haldið á lofti að þetta bitni mest á „jaðarbyggðum sem þurfi að sækja þjónustu inn að miðjunni",  en þegar málið er skoðað í þaula má sjá að uppbygging gjaldskrárinnar er mun markvissar og sanngjarnari eftir breytingu en fyrir.

Í meðfylgjandi töflum (með fyrirvara um villur) má sjá hver áhrifin eru lið fyrir lið, og það má benda á það til viðbótar að nú fá þeir sem kaupa kort til lengri tíma einnig meiri aflsátt, eða allt að 30% fyrir 12 mánaða kort og möguleiki að fá greiðslum dreift á mánuði.  Hvorki auka aflsáttur né dreifing greiðslna var í boði áður.

Það má einnig benda á að nú er eitt gjald fyrir eldri borgara og öryrkja, sama hvaðan þeir koma og hvert þeir eru að fara og það gjald er lágt.  Unglingar ferðast frítt fram að 16 ára aldri og íþróttaaksturinn verður eftir sem áður niðurgreiddur og gjaldi fyrir framhaldsskólanema er stillt í hóf.

Gagnrýni á þessar breytingar hafa verið eins og segir í upphafi nokkuð miklar og hefur snúist um að allir greiði sama gjald hvaðan og hvert sem er.  Það er í sjálfu fallegt og göfugt markmið og má vel vera að það sér hægt á einhverjum tímapunkti að uppfylla þá sýn, en núna er það ekki hægt nema tilkomi meiri framlög úr sjóðum sveitarfélagsins eða annara sem leggja fé í kerfið . Lítið bar hinsvegar  á hugmyndum eða vangaveltum af  hálfu gagnrýnenda, heldur var mikið  talað um hversu ómögulegar og ósanngjarnar breytingarnar væru og að þetta ætti að gera einhvernvegin  öðruvísi og í mínum huga á gagnrýni að felast í öðru og meira en bara slíku, það á að rýna til gagns.

 Einnig má velta því fyrir sér hversu sanngjarnt það sé að sama gjald sé fyrir ferð frá Neskaupsstað til Stöðvarfjarðar eða milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar svo að við berum saman lengsta og styðstu legginn í þessum samgöngum en annar þeirra er 85km á meðan hinn er 15km.  Hvað er sanngjarnt við sama gjald fyrir þessa tvo leggi.. ??

Kerfi sem þessi eiga að vera í stöðugri endurskoðun, bæði vegna gjaldtöku og einnig vegna ferða og fjölda þeirra.  Það hlýtur að vera markmið okkar allra að byggja hér upp kerfi sem veitir góða þjónustu á hófstilltu verði, en það er ekki gert á einni nóttu né án breytinga með reglulegu millibili.  Að lokum vil ég hvetja alla til að kynna sér tímatöflur og möguleikana sem þetta kerfi býður uppá  og nýta sér það til ferðalaga innan sem utan sveitarfélagsins.

Góðar stundir 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Árið 2012 í stuttu máli....

 Eða kanski löngu.. þetta er allt spurning um viðmið....Wink

Janúar....
Árið byrjaði með byltu  uppi á Svínadal, en  skroppið var á sleða á nýársdag sem endaði með útkall björgunarsveitar og sjúkrabíls en áverkarnir voru minni en áhorfðist, tognun á öxl sem ætti að bæta sig af sjálfsdáðum á einhverjum vikum..  Að öðru leyti var janúar tíðindalítill nema hvað tvö blót voru sótt (eitt á Reyðó og eitt á Kongó) og voru þau bæði frábær hvort á sinn hátt og auðvitað var gist í Mosa þegar Djúpvogingar voru sóttir heim.

 

Febrúar...
Í byrjun Febrúar var hafist handa við að vinna í Mosa eldhúsinnrétting eitthvað snikkuð til og ferð klár fyrir uppsetningu en sú innrétting átti áður heima í Túngötunni á Reyðarfirði hjá þeim heiðurshjónum Björgvin og Sigrúnu... Eitthvað var skottast um koppagrundir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar slatti af stjórnarfundum og öðrum fundum sem fylgja því að vera í forsvari fyrir þetta eitt magnaðasta félag sjálfboðaliða á Íslandi...  Haldið var uppá fertugsafmæli  í kyrrþey inn í Kverkfjöllum en þangað skutluðum við bræður  (3/4 af Bragðavallabræðrunum, vantaði bara Jón) á Þorrablót Austurlandsdeildar 4x4 klúbbsins þann 26 feb. Einhverjar klippur má sjá á jútúb... http://www.youtube.com/watch?v=MHvziQLG1IQ  og http://www.youtube.com/watch?v=4YH3MQpYjw0
Frumburðurinn flutti aftur heim eftir nokkurra mánaða reynslu á leigumarkaði.. það er hvergi betra að vera vera en á hótel mömmu, en á millitíðinni ákvað Þórarinn að skreppa á „snúruna"  á Vog og Staðarfelli og er hann miklu kátari með lífið og tilveruna eftir að þeirri dvöl lauk..

Mars...
Mikið um að vera í vinnunni.. Allt að  verða klárt í nýrri Kerfóðrunarverksmiðju hjá Alcoa, nýtt hús risið og allt á fullu... Einnig var eitthvað brasað í skúrum .. og má sjá afraksturinn hér á tjúppanum.. http://www.youtube.com/watch?v=rmeZ2FL_nI4

Elsta dóttirin fjárfesti í sjálfrennireið af Volkswagen gerð og hefur hann fengið nafni Borat... En þetta staðgreiddi daman með sínu eigin reiðufé..  Ýmislegt annað á döfinni en ekkert sem þarf að nefna sérstaklega...

Apríl...
Markverðast var sennilega ferming heimasæturnar að Lindarbrekku 1 og þátttaka heimilisfólks hér í undirbúningi og framkvæmd þeirrar veislu en kjöt var kryddlagt og grillað með aðstoð næstelsta heimilismanns að Heiðarvegi 35 og lukkaðist briljant þó ég segi sjálfur frá.. Einnig skrapp sá hin sami á fjórhjóli bróður síns inn á Svínadal.. og ekki fór betur en svo að eitt stykki fjórhjól valt yfir kauða með tilheyrandi meiðslum en þó ekki alvarleg, drengurinn skreið saman á mettíma eins og oft áður þrátt fyrir brákuð rif og axlarmeiðsl..  Undirbúningur fermingar örverpisins hófst með látum með því að stofan var máluð...

Maí...
Undirbúningur fyrir fermingu Bergeyjar hélt áfram.. læri  úrbeinuð og kjúlli keyptur ásamt ýmsu öðru.... Fundarhöld hjá hinum ýmsu aðilum tímafrek, Slysó, Bæó, Esó, og sitthvað fleira..hvenær lærir maður að fara að slaka á..... ??.. Þann 27. Var stúlkan hún Bergey fermd  í mikilli vorblíðu í Hofskirkju og veisla haldin að Heiðarvegi 35 en þar mættu um 80 manns til að samfagna með fermingarbarninu og fjölskyldu...

Júní...
í byrjun mánaðarins var Kersmiðja  Alcoa Fjarðaáls  vígð með mikilli viðhöfn og fjölmargir merkilegir gestir á svæðinu..  Heimilisfrúin skellti sér til Kanada með Grunnskóla Reyðarfjarðar og var þá haldin fiskivikan mikla hér á Heiðarveginum en vegna ofnæmis frúarinnar þá er fiskur sjaldan á matseðli hér... Undirbúningur fyrir frekari vinnu í Mosa var í gangi og svo fór veiðimaður heimilisins í skotpróf og stóðst það með glans að sjálfsögðu.. allt orðið klárt þá fyrir veiðar á Rangifer Tarandus í haust... Byrjað að leggja vatn að og klóak frá Mosa..

Júlí...
Yngsti Bragðavallabróðirinn skírði son sinn Þórhall og hlotnaðist mér sá heiður að vera skírnarvottur við þá athöfn.... Að öðru leiti fór þessi ágæti mánuður í það að mestu að grafa og moka yfir og grafa meira við bústaðin Mosa, en gengið var frá vatni, og frárennsli ásamt ýmsum umhverfisbótum við þennan frábæra stað sem verður sælureitur þeirra þriggja fjölskyldna sem hann eiga þegar fram líða stundir... Í lok mánaðar var svo hið árlega hlöðupartý haldið með pompi og prakt.. en auðvitað rigndi eins og engin væri morgundagurinn.. en fram undir hlöðupartý hafði ekki rignt síðan í Maí.. Spurning um að gera þetta að einhverskonar viðskiptatækifæri.. að selja regn...  Endaði mánuðurinn á því að kíkt var í hina mætu byggð Borgarfjörð Eystri, og Bræðslan barin eyrum og fjöldi gamalla og nýrra kunningja barnir augum...Myndir má sjá hér..

Ágúst..
Byrjaði með brjálaðri blíðu og hátt í 30° hita hér á Reyðarfirði.. og auðvitað voru nánast allir komnir í vinnu þegar þetta brast á... Fyrsti í hreindýri fór fram í þoku.. og því ekkert farið.. nema í girðingarvinnu á Bragðavöllum... en það er líka ágætt...  í lok mánaðarins var skottast í Laxárdal og viðhaldi sinnt á sumarhúsi Nesjahjónanna.. En þar safnaðist öll fjölskyldan saman og skipti um járn á þaki Ás í Laxárdals... gekk það nokkuð áfallalaust.. merkilegt nokk hratt fyrir sig.. http://www.youtube.com/watch?v=fUUMwThFSZs
Í lok mánaðar var aðeins visiterað með nýjum framkvæmdarstjóra SL á Vopnafirði og víðar um austurland....

September...
Auðvitað fór einhver tími í veiði á hreindýrum og gæs..  tæpur tugur gæsa lá í valnum en eitt stykki hreindýr en það er víst ekki leyfilegt að veiða meira á eitt leyfi.. Myndir úr gæsaferð...Þó var þetta stysta veiðiferð sem sögur fara af.. farið frá Bragðavöllum um hádegi og komið með bráðina á palli Hilux bifreiðar Eiðs á Lindarbrekku rétt tímanlega til að heimta kaffi af Þórunnborgu húfreyju á Bragðavöllum..  Einnig var „rúntað" aðeins á landshlutafund á vesturlandi og vestfjörðum.. en um 1700 km lagðir að baki frá fimmtudegi til sunnudags.. eða fram á mánudagsmorgun.. sama mánudagsmorgun og stórhríð gekk yfir norðurland og færði bústofn margra bænda í kaf... Skotist í afmæli á Höfn (takk fyrir okkur Ingólfur og Kristín) og unnið aðeins í girðingum á Bragðavöllum...

Október...
Byrjaði með látum.. brunað var einn góðan dag eftir vinnu á Sauðárkrók til að sækja heitan pott sem Björgvin bróðir konunnar hafði fjárfest í.. tók þessi skreppur um 14 klst og komið var heim að morgni næsta dags og auð vitað brunað nánast beint í vinnu... Alveg merkilegir þessir „skreppir"... Skottast var á Björgun (Björgunarráðstefnu Slysavarnafélagsins) sem var mjög vegleg og metmæting en hana sóttu fjölmargir gestir og fyrirlesarar víða að úr heiminum

Nóvember....
Heilsaði með stórhríð og mikilli ofankomu hér á Reyðarfirði í það minnsta.... Ófært var hér innanbæjar og milli staða og björgunarsveitin fengin til að aðstoða við að koma fólki í vinnu út í álver...  Skottast var til Færeyja á vegum SL þar sem skrifað var undir viljayfirlýsingu varðandi samstarf björgunarsamtaka í Færeyjum og Slysavarnarfélagsins varðandi þjálfun of kennslu Færeyskra björgunarmanna... Góð ferð þar sem tekin var slatti af myndum... Þá var einnig haldið uppá það að heimilisfasti afinn hann Ragnar náði þeim merka áfanga að verða löggilt gamalmenni en hann varð 67 ára þann 26....

Desember...
Byrjað var á því á fullveldisdaginn að velja á lista Framsóknarmanna í kjördæminu og skunduðu 350 Framsóknarmenn á Mývatn og röðuðu á listann eftir kúnstarinnar reglum.. Við hjónakornin héldum loks upp á 20 ára brúðkaupsafmæli, en við giftum okkur þann 7.nóv 1992... merkilegt hvað konan er búin að þoli mig lengi... Tók ég að mér eitt stykki skötuveislu í verktöku og mættu 40 manns í bílskúrinn og borðuðu mismikið af skötu, sumir heilmikið aðrir lítið sem ekki neitt... En þetta er skötuveislan hans Björgvins og við treystum því að á næsta ári verði hún á sínum hefðbundna stað að mánagötu 11...  Jólin voru svo ósköp hefðbundin með áti og rólegheitum, matarboði í Bergholdi á jóladag... Einnig var skottast í Mosa þann 29 og gist þar eftir snilldar minningartónleika tileinkuðum minningu Jóns Ægis á Hótel Framtíð á Djúpavogi..

Margt var brallað meira þessa 12 mánuði sem tilheyrðu árinu 2012 en þetta er þó það helsta.. Það sem stendur uppúr er að Mosi er að verða vel klár til notkunar og Færeyjaferðin í lok árs var einnig mjög góð...

Einnig var tekin ákvörðun á haustmánuðum að hætta hjá Alcoa og fara í aðra vinnu, reyndar var ekki farið langt og áfram verð ég að vinna  inn á lóð Alcoa hjá fyrirtæki sem heitir Brammer.  Það er með blöndnum huga að ég kveð félaga mína og vinnufélaga hjá Alcoa eftir rúm  6 ár þar í vinnu en það var komið að ákveðnum tímamótum þar hjá mér og því komin tími á að breyta til.. Þannig að nýtt ár byrjar með nýrri vinnu og fullt af tækifærum eins og alltaf..

Gleðilegt nýtt ár gott fólk og takk fyrir það gamla... 

 


Óttarlega er þetta nú óréttlátur skattur...

Skattlagning á lántökur til íbúðakaupa ættu ekki að líðast. Að þurfa að byrja á því að rétta ríkisvaldinu 1,5% af nýju láni þegar þú fjárfestir er náttúrulega bara GALIÐ!!!!

Þessi skattur er ekki nýr af nálinni en ósanngjarn er hann með afbrigðum ósanngjarnari en margur annar...

Síðan eru það svokölluð lántökugjöld sem er önnur svívirðan í svona málum.. Þegar tekið er lán til íbúðarkaupa þarf að greiða lántökugjald sem er yfirleitt um 1% af lánsupphæðinni.Sumar lánastofnanir lána ekki fyrir þessu gjaldi sérstaklega og því þarf að fjármagna það með öðrum hætti. Það segir sig svo sjálft að eftir því sem íbúðaverð hækkar hækka einnig lánin og þar með lántökugjöldin.Fá lánastofnanir ekki nægar tekjur af vöxtum og verðbó­­­­tum? Þarf endilega að bæta lántökugjaldi ofan á allt bixið??

Því næst eftir að kaupsamningur hefur verið gerður er honum þinglýst hjá sýslumanni. Við það tækifæri þarf að greiða stimpilgjald sem nemur 0,4% af fasteignamati eignarinnar. Í fljó­­­­tu bragði virðast þetta vera smápeningar en ef um er að ræða eign sem er metin á 25 milljó­­­­nir verða þessi 0,4% að 100 þúsund kró­­­­num sem er upphæð sem svo sannarlega getur sett strik í reikninginn hjá fó­­­­lki sem stendur í íbúðarkaupum.

Ljóta ruglið allt saman.....


mbl.is Framlengja stimpilgjaldaafslátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversvegna....

Eru menn og konur ekki betur meðvituð um það sem það er að tjá sig um í fjölmiðlum.. ?? 

Sannleikurinn er nefnilega sá að hringvegurinn er búinn að vera lokaður meira og minna síðan í nóvemberbyrjun og hefur ekki verið opnaður síðustu 6 vikurnar ef ég man rétt.  Þjóðvegur eitt (Hringvegurinn) liggur nefnilega yfir Breiðdalsheiði, sem er ekki rudd eftir að snjóalög fara að þyngjast að hausti og þar til að þau fara að þynnast að vori..

Þessi ákvörðun um minnkandi ruðning er ein af aðferðum Vegagerðarinnar til að bregðast við minni framlögum, nokkrum vegum sem ekki hafa mikla umferð er kippt út úr snjómokstursáætlunum.

En hvaða vandræðum er þetta að valda??  Svona tilkynning eins og við sjáum hana hér í Morgunblaðinu er til þess fallin að valda misskilningi, margur sem þetta les gerir sér ekki grein fyrir því að Hringvegurinn sé lokaður á einum stað og gæti gengið út frá því sem vísu að yfir Breiðsalsheiði sé fært.  Sá sami keyri síðan sem leið liggur inn Breiðdal og kemst að því aðeins of seint að allt er lokað, jafnvel eftir að hann er lenntur í ógöngum og þarf að leita hjálpar Björgunarsveita.

Björgunarsveitin Eining á Breiðdalsvík hefur síðustu vetur farið í tugi útkalla inn á Breiðdalsheiði til að sækja fólk af öllum þjóðernum á Yarisum og Pólóum sem er að reyna að brjótast eftir þjóðvegi 1 milli Breiðdals og Héraðs án þess að hafa hugmynd um að vegurinn sé lokaður.

Í þessu þarf að vinna, ætli menn ekki að ryðja þennan veg yfir dimmustu vetrarmánuðina,  þá verður að tryggja það með viðeigandi hætti að ferðamenn séu meðvitaðir um mögulegt ástand vegarins í sínum GPS tækjum og í merkingum við veginn, annað er ekki boðlegt.

Annar vinkill er auðvitað á þessu og ég reikna með að menn séu misjafnlega tilbúnir að taka undir með mér, en sá vinkill snýst um að færa þjóðveg eitt af Breiðdalsheiði og um firði, en þar er (í það minnsta enn sem komið er) vetrarþjónusta alla daga ársins nema jóladag og nýársdag ef ég man rétt.

Munur á vegalengdum um heiðina góðu og fjarðaleiðina er óverulegur og fordæmi fyrir því að vegurinn sem landið hringar sé færður með þessum hætti m.a. til að tryggja að sú þjóðleið sem mest er notuð hafi alvöru þjónustu.  Síðan þarf að tryggja að GPS tæki bílaleigufyrirtækja og einstaklinga fá uppfærslu sem sýnir þessa breytingu.

Þetta er lítið mál að framkvæma, nýverið var slíkt framkvæmt á Norðurlandi, hringvegurinn var færður á einni nóttu án þess að nokkur hafi tekið eftir því og  þess vegna á þetta ekki að vera stórmál hér.

Það er ekki nóg að auglýsa Ísland allt árið og tryggja síðan ekki að þeir sem hingað mæta í góðri trú komist leiðar sinnar eða fái upplýsingar um ástand vega eða geti treyst á það að þjóðvegur 1 (Route one) sé besta mögulega leið...

Góðar stundir.. 


mbl.is Hringvegurinn að mestu auður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já nákvæmlega....

Steingrímur.. þetta er akkúrat málið: 

Þá verði að verja miðstéttina og lágstéttina fyrir aðhaldsaðgerðum. Einnig þurfi að viðhalda kaupmætti þessara stétta til þess að neysla þeirra geti hleypt nýju lífi í hagkerfið. „Gjarnan er horft framhjá þessu á alþjóðavettvangi.“

En hvar eru efndirnar..?

"Hátekjuskattur" sem leggst á millistéttina af fullum þunga og jafnvel lágstéttina..  

Vaxandi atvinnuleysi

Minnkandi kaupmáttur launa

Tökum t.d. hin meinta "hátekjuskatt" 

230þ er fyrsta þrep í því kerfi, (22,9% + útsvar) næsta þrep  er að 474þ (25,8% + útsvar) og allt þar fyrir ofan er skattlag sem nemur 31,8% + útsvar... Er hér um hátekjuskatt að ræða.. ?? Ja maður spyr sig... 

Við skulum hafa í huga að samkvæmt tölum velferðarráðaneytis þarf  305þ rúm til að sjá vísitölufjölskyldu fyrir lágmarksþörfum (grunnviðmið velferðarráðaneytisins) og til að ná því þarf nú bara um 430þ á mánuði í laun fyrir skatta.

Og þetta er án húsnæðiskosnaðar...

Eigum við að bæta honum inní.. ?? leiguverð er misjafnt eftir stöðum en við skulum bara gefa okkur að það sé verið að borga um 120þ í leigu (sem er sennilega nokkuð vel sloppið fyrir fjögurra manna fjölskyldu.. og þá þarf að bæta við um 600 þ í laun miðað við að annar einstaklingurinn sjái fyrir tekjum heimilisins, en það kemur í raun í sama stað niður þar sem að persónuafsláttur nýtist alltaf að fullu...  

Og munið þetta eru grunnviðmið.. í grunnviðmiðum getur þín fjölskylda í raun ekki gert nema brot af því sem telst eðlilegt í nútímasamfélagi.. þar er t.d. reiknað með því að það kosti um 30þ krónur að koma sér á milli staða (reka bíl eða kaupa strætókort).. það er nú nokkuð naumt skammtað þykir mér og almenningssamgöngur stopular víðast hvar annarsstaðar en á höfuðborgarsvæðinu...

Meðalviðmið reiknað á sömu síðu er um 500þ án húsnæðiskosnaðar.. og það þarf tæpa eina milljón í tekjur til mæta því með húsnæðiskostnaði... 

Og þá ertu sannarlega farin að borga hátekjskatt...  

Til að gæta sanngirnis þá er rétt að taka það fram að ekki eru vaxta og barnabætur reiknaðar inn í þetta, eflaust breytir það myndinni eitthvað og lækkar væntanlega aðeins þær tekjur sem menn þurfa en það er allt launatengt þannig að ég tel að munurinn sé ekki mikill...  

Hvernig er hægt að verja svona lagað og halda því fram að það sé verið að verja hag milli og lágstéttarinnar með þeim aðgerðum sem hafa verið í gangi.. ?? 

Ég gæti það í það minnsta ekki.... 


mbl.is „Nú ræður hræðslan við Evrópu ríkjum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband