Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014

Hvar skal lenda..??

Mikil og tilfinningaþrungin umræða hefur átt sér stað á vefmiðlum og víðar um Stóra flugvallarmálið og sitt sýnist hverjum. Núverandi yfirvöld í Höfuðborg okkar róa að því með öllum tiltækum ráðum að koma vellinum fyrir kattarnef, hann er fyrir og skal víkja.

Það hefur verið rætt að taka skipulagsvaldið af Höfuðborginni hvað varðarflugvallarsvæðið til að tryggja að þessi bráðnauðsynlega þjónusta verði áfram til staðar. Ég get vel skilið rök þeirra sem leggja það til að svo verði gert, það eru mörg rök sem mæla með því að í tilvikum sem þessum sé skipulagsvaldið, að minnsta kosti að hluta hjá ríki en ekki borg.

Ég get líka skilið borgarfulltrúa í víkinni við sundin að þeim finnist þetta arfavitlaust og vanhugsað og séu algerlega á öndverðum meiði við þessa hugmynd. En hvað á að gera.. ?? Það er ljóst í mínum huga að það verður ekki gerður annar flugvöllur í nágrenni Reykjavíkur, það kostar einfaldlega meiri fjármuni en við eigum til að eyða í slíka framkvæmd. Það er ljóst að verði ekki flogið til Reykjavíkur þá verður einungis einn valkostur uppi á borðum og það er Keflavíkurflugvöllur með sínum kostum og göllum.

Því hefur t.d verið kastað fram að það auki kostnað við millilandaflug til Íslands að fjarlægja Vatnsmýrarvöll, því að þá séu varaflugvellir í meiri fjarlægð.. Hefur það verið skoðað.. ??

Því fylgja ákveðnir kostir að hafa allt flug á einum stað (Keflavík) með tilliti til tenginga innanlands og flæði ferðamanna um ástkæra Ísafold.. Hefur það verið metið.?

Það er líka ljóst að staðsetning flugvallararins á þeim stað sem nú er hefur jákvæða kosti varðandi sjúkraflug og flutning á sjúkum til Höfuðborgarinnar. Fjölmörg störf eru í dag á flugvellinum sjálfum og hjá fyrirtækjum sem eru tengd fluginu og þau munu væntanlega færast og jafnvel tapast vegna samlegðaráhrifa sem eru væntanlega einhver við svona flutning, hefur það verið skoðað.?

Er ekki nauðsynlegt að kippa þessari umræðu upp úr skotgröfum og meta kosti og galla beggja valmöguleika?

Mér finnst í það minnsta nauðsynlegt áður en eitthvað annað kemur í Vatnsmýrina, þurfi að komast niðurstaða í málið, því að ekki er hægt að búa við það að flugvellinum sé bara smátt og smátt lokað áður en nokkuð hefur verið ákveðið um framhaldið.. Það er ekki ásættanlegt og það eru ekki fagleg vinnubrögð og eru núverandi borgaryfirvöldum til mikils vansa.

Ég er því fylgjandi að völlurinn verði áfram þar sem hann er því að það tel ég vera sú niðurstaða sem er best öryggis og samgöngulega séð fyrir okkur sem notum þennan flugvöll, og þá þjónustu sem að honum tengist, reglulega.

Verði hinsvegar á einhverjum tímapunkti ákveðið að hann skuli víkja þá er það algjör lágmarkskrafa að það sé ljóst hvað skal í staðinn koma, en ekki bara óljósar vangaveltur um möguleg flugvallarstæði hér og þar, ásamt þeim möguleika á því að allt fari þetta á heiðar Reykjanesskagans með millilandafluginu okkar.

Góðar stundir


Ys og þys........

Rauður stóll með brúnni sessu, einhver snillingur hefur víxlað sessum til að brjóta upp hefðbundið form sófa og stóla..

Gömul kona með staf stekkur áfram á hraða snigilsins með ávísuð lyf úr apótekinu í þeirri hönd sem stafnum veldur en með óávísuð "lyf" í plastpoka úr síðustu einokunarverslun Íslendinga í hinn,i sest á brúnu sessuna í rauða stólnum til að taka sér hlé á göngunni. Tvær ungar stúlkur með ís í boxiog Body Shop poka á armi rölta hjá og stinga saman nefjum.. Máski eru þær að velta sínum ófarna veg fyrir sér og hvort öng.- og breiðstræti lífsins muni leiða þær að ávísuðum eða óávísuðum lyfjum í poka og mislitt sæti á förnum vegi eða eru þær að tala um ungan hávaxinn mann með konu sér við hlið og kornabarn í kerru... hann hefur klárlega ekki efni á rakvélarblöðum eða er hann kannski bara svona "lömbersex"?... Það er nú móðins þessa dagana, ekkert að því..

Brunaliðið er spilað í útvarpinu "mangó íste og súkkulaði með rjóma!!!" hrópar kaffiþjónninn og kveikir á háværu tæki sem væntanlega býr til eitthvað sem ljúflega rennur niður með dagsgömlum og snjáðum mogganum sem hefur greinilega farið í gegnum fjölmargar mislúnar hendur kaffiþyrstra kaffihúsagesta.

Blaðið er eins og maður sem á sín bestu ár að baki fullir af fróðleik liðinna ára en á kannski síður tækifæri á því að standa jafnfætis við baklýsta unga drengi með örgjörva, nettengingu og stútfullir af fróðleik sem gerist í núinu og hefur líka möguleikann á því að fletta uppí fortíðinni.

Fyrir utan fellur jólasnjórinn á sinni fyrstu og einu för milli fæðingarstaðar síns og malbiksins, sem hann hylur og gleður eina örskotsstund börnin sem ganga með mæðrum og feðrum sínum á leið sinni í útrýmingarbúðir jólagjafalista, áður en hann verður að gráu, köldu krapi undir togleðurshringjum reiðhjóla og bifreiða og hverfur að lokum niður í undirheima holræsakerfis borgarinnar, í fljótandi formi, dragandi með sér sót og hálfreykta stubba og laufblöð sem féllu til jarðar þegar vetur konungur gekk í garð og blés burt blautu sumrinu sem engin saknaði..


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband