Færsluflokkur: Dægurmál

Ys og þys........

Rauður stóll með brúnni sessu, einhver snillingur hefur víxlað sessum til að brjóta upp hefðbundið form sófa og stóla..

Gömul kona með staf stekkur áfram á hraða snigilsins með ávísuð lyf úr apótekinu í þeirri hönd sem stafnum veldur en með óávísuð "lyf" í plastpoka úr síðustu einokunarverslun Íslendinga í hinn,i sest á brúnu sessuna í rauða stólnum til að taka sér hlé á göngunni. Tvær ungar stúlkur með ís í boxiog Body Shop poka á armi rölta hjá og stinga saman nefjum.. Máski eru þær að velta sínum ófarna veg fyrir sér og hvort öng.- og breiðstræti lífsins muni leiða þær að ávísuðum eða óávísuðum lyfjum í poka og mislitt sæti á förnum vegi eða eru þær að tala um ungan hávaxinn mann með konu sér við hlið og kornabarn í kerru... hann hefur klárlega ekki efni á rakvélarblöðum eða er hann kannski bara svona "lömbersex"?... Það er nú móðins þessa dagana, ekkert að því..

Brunaliðið er spilað í útvarpinu "mangó íste og súkkulaði með rjóma!!!" hrópar kaffiþjónninn og kveikir á háværu tæki sem væntanlega býr til eitthvað sem ljúflega rennur niður með dagsgömlum og snjáðum mogganum sem hefur greinilega farið í gegnum fjölmargar mislúnar hendur kaffiþyrstra kaffihúsagesta.

Blaðið er eins og maður sem á sín bestu ár að baki fullir af fróðleik liðinna ára en á kannski síður tækifæri á því að standa jafnfætis við baklýsta unga drengi með örgjörva, nettengingu og stútfullir af fróðleik sem gerist í núinu og hefur líka möguleikann á því að fletta uppí fortíðinni.

Fyrir utan fellur jólasnjórinn á sinni fyrstu og einu för milli fæðingarstaðar síns og malbiksins, sem hann hylur og gleður eina örskotsstund börnin sem ganga með mæðrum og feðrum sínum á leið sinni í útrýmingarbúðir jólagjafalista, áður en hann verður að gráu, köldu krapi undir togleðurshringjum reiðhjóla og bifreiða og hverfur að lokum niður í undirheima holræsakerfis borgarinnar, í fljótandi formi, dragandi með sér sót og hálfreykta stubba og laufblöð sem féllu til jarðar þegar vetur konungur gekk í garð og blés burt blautu sumrinu sem engin saknaði..


Á því herrans ári 2013...

Janúar 

Þegar árið 2013 gekk í garð var heimilisfaðirinn að Heiðarveginum að vinna sínar síðustu mínútur og klukkustundir fyrir Alcoa Fjarðaál en síðasti vinnudagurinn á því heimili var 4. jan. Teknir voru nokkrir dagar í frí milli fyrirtækja en sá fyrsti hjá nýjum vinnuveitanda, Brammer; var 16. janúar.

Eitt fertugsafmæli og eitt sextugsafmæli í þessum fyrsta mánuði ársins, til hamingju með það Jón Björn og Gummi Bjarna. I lok janúar var síðan breska heimsveldið heimsótt, en skottast var til UK og höfuðstöðvar hins nýja fyrirtækis barðar augum, ásamt því að reynt var að troða í mann ýmiskonar vitneskju um fyrirtækið og verkferla þar innanhúss.  Reyndar var sú ferð eftirminnileg á þann hátt að ég týndi veskinu mínu á Heathrow flugvelli, en viti menn, ég gat gengið að því vísu á heimleiðinni, með öllu innihaldi óhreyfðu.. Góð sparnaðarráðstöfun ekki satt...

Febrúar.

Fyrsta fimleikamót ársins hjá örverpinu, ekki minnkar áhuginn hjá henni og stendur hún sig stórvel.  Skottast var á Landsþing Framsóknar sem var nokkuð vel heppnað, nema hvað uppgrip lögreglu höfuðborgarsvæðisins varð fréttamatur mikill, vegna þess hve frjálslega var lagt við þingstað vegna skorts á bílastæðum.. Ábyggilega gert grín að því í Spaugstofunni.. Voru hjónakornin að Heiðarveginum ein ef þeim sem sktarboð fengu, en málið var látið niður falla þar sem ljósmyndir af vettvangi sönnuðu sakleysi þessara sveitarmanna.

Mosi var teiknaður upp, Ingi Ragnarsson sá um það,  en það er fyrsta skrefið í því að fá húsið samþykkt af byggingarfulltrúa en stöðuleyfi það sem við höfðum á sveitarsæluhúsinu okkar fæst ekki endurnýjað og því þarf að spýta í lófa og klára það sem klára þarf. 

Frumburðurinn flutti út, en Þórarinn tók ásamt félaga sínum íbúð á leigu "inni í blokk" eins og við köllum það, hér í Réttarholtinu á Reyðarfirði.

Fjölskyldan eignaðist jeppa loks aftur, en við höfum nefnt hann Ryðfirðinginn þar sem hann er dulítið mölétin og lasburða, en það er bara gott verkefni að koma honum í nothæft stand.  Um er að ræða Fjórhlaupara af kyni Toyota árgerð 1993 ekin vel á fjórða hundraðið en gangverkið er gott þrátt fyrir mikla loftun í yfirbyggingu...

Mars

Hófst á því að við bræðurnir  mokuðum parketi útúr "mjólkurbúð" Reyðfirðinga, en okkur hafði borist það til eyrna að það ætti að lenda á haugunum og því var stokkið til og þessu eðalplastparketi smellt í kerru og brunað með það í Mosa.. (en ekki hvað) og nú skal sveitahöllin lögð "vínvið" af bestu gerð...  

Mosi fékk töluverða yfirhalningu í þessum mánuði, en stofa og svefnherbergi voru máluð loftaefni sett í svefnherbergi ásamt því að "vínviðurinn" var lagður á alla sveitahöllina nema bað.. Þvílíkur munur að sjá og bara frábært að komast yfir svona eðalhluti til að nýta..

Þessi mánuður endaði síðan á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, en fimleikadrottningin veiktist heiftarlega af einkyrningssótt svo illa að ekki var talið annað þorandi en að leggja hana á sjúkrahús en síðustu dögum fyrir páska ásamt skírdegi var eytt þar nyrðra, en héldum heim á föstudaginn langa í blíðskaparveðri.  Ekki var þó stúlkan orðin hress en nógu hress til að læknar treystu henni til að vera heima í stað þess að dvelja á sjúkrahúsi. 

Apríl

Hófst með jepparúnt á slóðir hreindýra í Egilssel við Víðidal en bræðurnir frá Bragðavöllum (Ingi og Eiður) fóru þangað ásamt nokkrum öðrum austfirskum jeppamönnum í helgarrúnt.  Fínn rúntur í ágætis veðri og endað var á því  að keyra niður Fossárdal og eins og lög gera ráð fyrir í kaffi á Lindarbrekku.

Kosningaundirbúningur tók slatta af  tíma heimilsföðursins í þessum mánuði, ásamt því að landshlutafundur SL var haldin á Egilsstöðum og var stjórnarmeðlimum Slysavarnarfélagsins boðið að bragða hreindýr á Heiðarveginum og mæltist það bara nokkuð vel fyrir.

Borgfirðingar sóttir heim en Björgunarsveitin Sveinungi fagnaði þeim áfanga að taka í notkun nýtt og glæsilegt hús á Borgarfirði. 

Maí

Var tíðindalítill að mestu, nema hvað Landsþing Slysavarnafélagsins var haldið á Akureyri og náði Heimilsfaðirinn kjöri til stjórnar á nýjan leik ásamt öðru góðu fólki. Einnig var stór söfnunarþáttur haldin fyrir SL í lok mánaðar og tókst hann með afbrigðum vel.

Júní

Hófst á ferðarlagi til Skotlands, en  hjónin á Heiðarveginum ásamt Bergey, Ragnari, Þórunnborgu og Jóni skottuðumst þangað í sumarfrí.  TIl stóð að dvelja þar í 10 daga og meðal annars að heimsækja gamlan vin, Antony Young sem þar á sumarhús í hálöndunum.  ekki fór þó betur en svo að Tony veiktist stuttu áður veið lögðum í hann og því var heimsóknin bæði endasleppt og dapurleg, en við náðum þó að hitta hann í stutta stund á spítala í Inverness og þó að hann hafi verið mjög veikur viljum við trúa því að hann hafi þekkt okkur og vonandi náðum við að gleðja hann lítið eitt með komu okkar.

Á haustmánuðum fengum við síðan þær dapurlegu fréttir að þessi gamli vinur okkar hafi kvatt þennan heim, hann náði sé aldrei á strik eftir veikindi þau sem voru að hrjá hann þegar við vorum ytra. Blessuð sé minning hans.

Ferðalagið var að öðru leyti yndislegt, veðurblíða eins og best verður á kosið og margt að skoða, eitthvað bar þó á taugaveiklun farþega í bílaleigubílum þeim sem leigðir voru.. feðgarnir Eiður og Ragnar  eru ekki alvanir því að sitja með stýri öfugmegin í bíl og að keyra á vitlausum vegarhelmingi, en allt tókst þetta nú áfallalaust. 

Í lok júni var síðan Landsmót unglingadeilda SL haldið með stæl á Norðfirði, en nú sáu Björgunarsveitirnar í Fjarðabyggð um herlegheitin.  Þótti mótið takast prýðisvel, rúmlega 300 krakkar komu þar saman og höfðu mikið gaman af en örverpið og heimilisfaðirinn voru virkir þátttakendur í þeim gjörningi.

Júlí.

Var mánuður andstæðna gleði og sorgar.  

Hlöðuhittingur var planaður þann 13. og hafði sú dagsetning verið ákveðin af heimilisföðurnum  og Særúnu frænku í febrúar.  

Húni heimsótti okkur Reyðfirðinga heim og komu rúmlega 1100 manns saman á bryggjunni og tók heimilisfaðirinn virkan þátt í þeim merka viðburði.  Gleðin fékk þó skjótan enda þar sem okkur var tilkynnt að morgni þess 6. að Ingibjörg Ólafsdóttir, amma, tengda amma og langamma  hefði kvatt þessa jarðvist eftir skammvinn veikindi.

Hlöðuhittingur Bragðvellinga var því með öðru sniði en áætlað hafði verið, því byrjað var á því að fylgja Ingibjörgu hina hinstu för og að því loknu komu menn og konur saman í hlöðunni að Bragðavöllum til að minnast hennar.

Heimilisfaðirinn rifjaði upp gamla takta og sló heimatúnin að Bragðavöllum fyrir þá feðga á Lindarbrekku Eið og Val og þótti honum það ekki leiðinlegt.

Ágúst.

Heimilisfrúin fjárfesti í draghýsi í byrjun mánaðar, og heilum 4 klst seinna var skottast í útilegu í Þakgil með fjölskyldunni í Reynihlið og heiðurshjónunum að Bragðavöllum, var verslunarmannahelginni eytt þar í blíðviðri í húsbíl, fellihýsi og tjaldvagni Heiðarvegsfjölskyldunnar.

Skottast var síðan til borgarinnar við sundin og tjaldsvæðið í Laugardal nýtt til gistingar og þaðan norður um land og heim..

Unnið var eitthvað í Sveitarsæluhúsinu í þessum mánuði, málað utandyra og byrjað á rennum og þakskeggjum sem var m.a. einn af þeim hlutum sem þarf að laga til að fullnægja kröfum byggingarfulltrúa Djúpavogshrepps...

September

Var til þess að gera tíðindalítill, þó var dvalið í Mosa eina helgi og að þessu sinni ekki til neins annars en að njóta sveitasælunnar, týnd ber, veiddur, fiskur og rúntað um Hamarsdalinn (himnaríki á jörð) og bara í allsherjar slökun og afslöppun..

Alma fékk sér nýja vinnu, hætti hjá Olís og fór að vinna á leikskólanum hér á Reyðarfirði.. 

Eitthvað var unnið í fjórhlauparanum en þó að hann hfai verið keyptur á vormánuðum, þá eru handtök nokkur eftir í honum til að gera hann að nothæfum fjallafara fyrir heiðarvegsfjölskylduna. Í lok þessa merka mánaðar náðist sá stórmerki áfangi að koma þessum flekkótta bíl á númer og hérumbil í gegnum skoðun, smávægilegar athugasemdir skoðunarmanns tryggðu honum aðeins grænan miða.

Í lok mánaðarinns lagði heimilisfaðirinn land undir fót og heimsótti ásamt öðru stjórnarfóki í Slysavarnarfélaginu Landsbjörg björgunarsveitir á norðurlandi vestanverðu frá Sigló til Blöndóss.. Magnað að sjá hvað allar þessar frábæru sveitir eru bara.. ja.. bara magnaðar...

Október

Var rólegur en þó ekki.. Heimilsfaðirinn skottaðist um allar koppagrundir á vegum SL ásamt því að fjórhlauparinn fékk loka yfirhalningu fyrir enduskoðunn sem hann rann að sjálfsögðu í gegnum, en ekki hvað...  Fyrstu helgi í rjúpu var eytt í Mosa sem lög gera ráð fyrir, en eitthvað var veiði heimilsföðursins rýr eða engin rjúpa.. en þó tókst honum að sigra eitt stykki tind meðan Veiðiflugustjórinn Björgvin Pálsson gekk af rjúpnastofni Hamarsdals dauðum, og kálaði þremur rjúpum... ekki slæm veiði það....

Nóvember

Byrjaði með ferðalagi Heimilisföðursins norður á Strandir með öðrum stjórnarmeðlimum Landsbjargar enn á ný...  Nýjar slóðir fyrir hann og mikil upplifun.

Annar veiðidagur í rjúpu, skilaði ekki neinu.. en rjúpnastofn Hamarsdals nýtur góðs af því hversu misskotviss Heiðarvegsbóndinn er...

Fimleikadrottningin er að ná sér á strik efitr veikindi um páska nýliðna, en eiitthvað var bratt á þeirri braut en nú er allt að lagast.. svo vel að hún var valin í hóp afreksstúlkna hjá Hetti og send íá æfingar í Garðabænum í nokkra daga, en þar er fimleikaaðstaða með því besta sem gerist á landinu.

Heimilsfólkinu fækkaði um einn í lok mánaðar, þar sem Ragnar tók hatt sinn og staf og kvaddi okkur og vinnufélaga sína hjá Alcoa, en hann náði þiem merka áfanga að verða 68 ára þann 26.

Frumburðurinn flutti aftur heim, fékk nóg af piparsveinalífinu í bili, enda hvergi betra að vera, en á hótel mömmu.

Rotþróarskipti voru framkvæmd í Mosa og nú er hægt að "gera nr.2" löglega í Mosanum og við einu skrefi nær því að klára það frábæra afdrep. 

Desember.

Tvenn jólahlaðborð, forsetakaffi, fjallaferð og fótabað á Ryðfirðingnum og annað hefðbundið desember stúss.   

Semsagt ósköp hefðbundið ár ekki neinar stórar fréttir eða breytingar..

Áramótakveðja frá okkur hér af Heiðarvegi 35 

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir.. 


Tíðindarlítið....

Á austurvígstöðvunum, allt mef frekar hefðbundu sniði, nóg að gera í vinnuni og utan hennar eins og vanalega.

Fór niður í Þórðarbúð í kvöld eins og flest mánudagskvöld og sátum þar aðeins yfir bokhaldi og viðgerðum, en eitthvað þarf að klappa Landanum eftir ferð helgarinnar, en það var farið inn í Snæfell með unglingadeildina.

Fór á laugardagin var smá laugadagsrúnt, skrapp til Víkur í Mýrdal til að vera við afmæliskaffi björgunarsveitarinnar þar, og var gaman að sjá að það er gott líf í starfinu þar, þeir á fullu við að endurbyggja og að laga húsið sitt en það verður stórglæsilegt þegar því verður lokið.

Kom við á Höfn hjá tendó og gamla settinu á Bragðavöllum í heimleiðinni, og smíðuðum  ég og foreldrar einhver framtíðarplön í grófum dráttum fyrir fjósið gamla á Bragðavöllum, en það væri hægt að hafa nóg fyrir stafni þarna í sveitinni ef maður hefði meiri tíma.

Stefni á borg óttans um helgina en þar fer fram fulltrúaráðsfundur Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, og þar er að sjálfsögðu skyldumæting fyrir mig.

 

 


Vinna og annað sumarstúss...

Ekki hefur nú verið hamrað hér inn mikið að undanförnu, bæði er blessuð vinnan alltaf að eyðileggja fyrir manni frítíman og svo einnig hefur meður einfaldlega ekki nennt að hamra hér inn eitthvað þegar stund hefur gefist, því að þá vil maður nýta hana í eitthvað annað en að sitja sveittur og reyna að skrifa eitthvað misgáfulegt á veraldarvefin.

Er ryndar búinn að eyða megninu af sumrinu í vinnunni en fór þó eittvað aðeins útfyrir bæjarmörkin með hluta af fjölskyldunni, þar sem að frumburðurinn er víst að verða of gamall til að ferðast með gamla settinu og systkinum sínum.

Farið var í Eyjafjörðin og hann allur skoðaður í krók og kima, en þriðja árið í röð klikkaði ferðin á fiskidaga á Dalvík, en þangað verður farið á næsta ári, það er á hreinu.

Búinn að fara eina hreindýraferð í átthagana en enga tarfa fundum við þannig að ég verð að fara aftur og stefnt er á það næstu helgi, þá verða vonandi mættir einhverjir tarfar á svæðið til að blýfylla.

En s.s. lítið að frétta annars, en nú með haustin mun ég reyna að vera duglegri við hamrið, vonandi einhverjum til ánægju og sem fæstum til leiðinda...

KvER


Vertu.........

Coke megin í lífinu.....W00t


mbl.is Keypti drykki á barnum fyrir 13 milljónir kr.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði ekki trúað því....

Að ég myndi ekki nenna að keyra eitthvað.   Enn þannig hefur málið verið vaxið af minni hálfu í gegnum tíðina að ef eitthvað hefur verið hægt að keyra þá er ég alltaf til. 

En nú bar svo við að ég hreinlega nennti ekki að keyra vestur á Gufuskála til að sinna unglingunum mínum og tók því flug til Reykjavíkur og mun ég keyra þaðan til móts við þennan hóp af frábærum krökkum sem eru framtíð Björgunarsveitarinnar hér á Reyðarfirði.

En það er kannski ekki svo skrítið að maður sé seinþreyttur til aksturs akkúrat núna þar sem ég hef ásamt fleirum félögum í Ársól lagt að baki um 3000 km í hálendisverkefni SL á undanförnum dögum.

Síðustu dagar eru búnir að vera hreint út sagt frábærir, fyrst 5 dagar á fjöllum með félögum mínum úr Ársól, síðan aðrir 5 með fjölskyldu og vinum, fyrst í bústað og svo á tjaldferðarlagi, og þrátt fyrir að allt þetta hafi verið virkilega gaman þá var nú voðalega gott að koma loksins heim eftir þennan mega rúnt.

En nú er stefnan tekin á Gufuskála þar sem að Landsmót unglingadeilda Slysavarnarfélagsins Landabjargar fer fram í ár og mun það eflaust vera mjög gaman að taka þátt í því.  Ársól er þar með 13 krakka sem eru klár í allt sem að fyrir þau verður lagt, og að öðrum ólöstuðum þá held ég að þessi hópur verði algerlega til fyrirmyndar á allan hátt.

En senn fer þessum dögum ferðalaga og sælu að ljúka, því að nú fer að koma að því að maður þarf að fara að mæta til vinnu, en áður en það gerist mun ég fara í Skrúð til veiða á nokkrum lundum með veiðimanni af guðs náð Henning Aðalmundssyni og verður það eflaust grenjandi snilld að venju.

 Sí jú aránd..........


Senn brestur á......

Sumarfríið, en fyrstu vikuna af því ætla ég að halda á fjöll með öðrum meðlimum Björgunarsveitarinnar Ársól á Reyðarfirði, nánar tiltekið á Fjallabak syðra, og vera þar til aðstoðar ferðamönnum ef skyldi þurfa.  Við fórum í fyrra og það var einstaklega gaman, en þá vorum við norðan Vatnajökuls og fórum víða, en nú vildum við breyta til og kanna ókunnar slóðir suðurlandsins.

Annars hefur lítið verið í gangi undanfarið nema vinnan og því er kærkomið að komast aðeins í frí.  Reyndar er nýja vaktakerfið að sanna sig nú þegar, en þó að vinnudagarnir séu lengri  þá á móti býður kerfið uppá það að hægt sé að nota þá parta vaktahringsins sem er hvað lengstur til að horfa eitthvað í kringum sig og fara á fjöll, ýmist akandi eða gangandi.

Hef reyndar aðeins verið að dunda mér við að uppfæra myndasíðuna eilítið, setti inn myndir frá fermingu dóttur minnar og frá opnunarhátíð Alcoa Fjarðaáls sem var núna 9 júní síðastliðinn, en myndirnar eru hvorki margar né merkilegar, þar sem að við í Ársól ásamt fleiri sveitum hér fyrir austan sáum um gæslu á svæðinu.

Einnig var ég að reyna að virkja nýjan og skemmtilegan möguleika í þessu myndaalbúmi, en hann felst í því að þú getur sett inn með myndunum staðsetningu á tökustað og síðan er hægt að fletta því upp á Google earth hvar myndirnar eru teknar.  Bráðsnjallt, sérstaklega þegar um landslagsmyndir og þessháttar er að ræða.

Hilsen.......


Sumarið er tíminn.......

Setti kóngurinn í texta hér um árið, og rataði þar satt orð á munn.

Sumarið er tíminn þegar allt á að gerast, frí með fjölskyldunni, vinna í húsinu og lóðinni, vinna í björgunarsveitinni, ganga á sem flest fjöll veiða lunda og ferfætta grasbíta af kyni klaufdýra og fleira og fleira.

En er íslenska sumarið ekki bara allt of stutt??

Í það minnsta sé ég ekki fram á það að mér takist með góðu móti að framkvæma þetta allt nema með því að koma 32 klst í sólarhringinn og 8 dögum í vikuna, eða vona að sumarið endist fram í nóvenber.

Sumarið er tíminn......


Hef verið......

Með afbrigðum latur við að blogga undanfarnar vikur, líklega er það að mestu tilkomið vegna mikilla anna, en töluvert hefur verið í gangi hér undanfarnar vikur.

Hæst ber ferminguna hennar Ölmu en eins og venja er þá er slegið upp heljarinnar veislu til að fagna þeim tímamótum í lífi ungmennis, og hér voru rúmlega 80 manns í mat á Hvítasunnudag.  Það var þó mikill munur nú miðað við það þegar Þórarinn var fermdur fyrir 3 árum, en eins og þeir vita sem í Ásbyrgi hafa komið (gamla húsið heitir Ásbyrgi) þá eru eldhúsfermetrarnir þar ekki nema um 4, en nú eru þeir nálægt 20.

Sjómannadagurinn var með hefðbundnum hætti hér, við (björgunarsveitin Ársól) var að venju með kaffi í Þórðarbúð, en þetta árið sáu unglingarnir okkar um herlegheitin og eru þau með því að safna sér fyrir ferð á Gufuskála í sumar.  Þar var plássið líka heldur meira en venja er til en við héldum kaffið í nýja húsinu sem nú er búið að loka.

Síðan fór síðasta helgi í fjáröflun fyrir sveitina, en við sáum um gæslu á opnunarhátíðinni sem fram fór síðustu helgi.  Og þvílíkur snilldardagur laugardagurinn var, blankalogn og sól, iðandi mannlíf um allan bæ, og tónleikar uppi í Fjarðabyggðarhöllinni sem jöfnuðust á við það besta sem gert hefur verið hér á skerinu í soundi, allt saman tær snilld.

Og ofan á þetta allt þá er vinnan eins og venjulega að slíta sundur fyrir manni frítíman, og því hefur ekki verið mikið um það að lykli sé slegið niður hér á þessum vettvangi en nú ætla ég að reyna að bæta mig, vonandi einhverjum til ánægju og sem fæstum til leiðinda.

Ég afrekaði það þó um daginn að skella fleiri myndum inn á myndasíðuna mína undir "fleiri myndir" en það voru allt myndir úr starfi björgunarsveitarinnar undanfarin ár.  Ég mun einnig setja inn myndir frá opnunarhátíðinni og úr fermingu Ölmu fljótlega....

KvER


Vinnan göfgar manninn....

Var að rifja upp vinnutímana sem maður lagði að baki þegar maður vann í Tindinum.  Vorum hér á næturvaktinni nokkrir að rifja upp gömlu "góðu" dagana í slorinu.  Mér var það sérstaklega minnisstætt á loðnuvertíð 1993 þegar unnið var allan sólarhringinn og setið líka á meiraprófsnámskeiði til að nema aukin ökuréttindi. 

Það var mætt í vinnuna kl 3 að morgni unnið til kl 7 að kveldi og síðan var farið uppí skóla að nema hin miklu akstursfræði, sem fylgdu meiraprófinu og setið þar til rúmlega 12 og þá var farið heim að sofa í rétta tvo og hálfan tíma áður en mætt var aftur í vinnu.

Svona gekk þetta fyrir sig í heila 10 daga, en þá var maður orðin fullnum í aksturfræðum og þá gat maður farið að hvíla sig á kveldin, nú eða mætt í fótbolta ef svo bar undir.

Einnig rifjaðist það upp að stundum var staðið í vinnu í eina 30 tíma áður en maður fór heim og hvíldi sig í svona 6-8 tíma og þá var mætt aftur og unnið í aðra 30

Það er mér gersamlega fyrirmunað að skilja hvernig í ósköpunum maður fór að þessu, og alveg morgunljóst að þetta myndi ekki ganga í dag, maður hefði bara einfaldlega ekki úthald í svona lagað lengur þá að maður sé nú ekki nema 14 árum eldri.

En árin taka sinn toll, og þó að ég segi að aldur sé einungis hugarástand þá er alveg ljóst að ekki verður maður sprækari með árunum þó að ekki sé nú endilega vilji til staðar til að viðurkenna það.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband