Færsluflokkur: Samgöngur

Af holum fjallgörðum..

Jarðgöng.. Nauðsyn eða tískubylgja…??

Mikið hefur verið skrafað og skeggrætt um jarðgöng og jarðganaframkvæmdir meðal landans undanfarin misseri og ár. Sýnist sitt hverjum um hvar og hvenær og jafnvel hvernig eigi að gata fjallshryggi af ýmsum stærðum og gerðum.

Sennilega hafa augu manna hér opnast fyrir því að eftir að jarðgöng undir Hvalfjörð og Vestfjarðagöngin voru opnuð að jarðgöng væru alvöru samgöngubót, en ekki litlar og illfærar holur sem væru lítið minna hættulegar en fjallvegurinn sem þau leystu af hólmi.

Margar lærðar skýrslur hafa verið lagðar fram um málið af hinum ýmsum aðilum og gjarnan er tekist á um staðsetningu og forgangsröðun, enda vill hver fá í sinn bakgarð jarðgöng af nýjustu sort, til að stytta akstursleiðir og bæta samgöngur milli staða árið um kring.

Sennilega hefur sú umræða hvergi verið meiri en hér fyrir austan, sérstaklega í kúlulánasamfélaginu fyrir hrun, en þá uxu peningar á birkitrjám og smjörið fossaði af öllum stráum og því lítið mál að breyta íslenskum fjallgörðum í konsertflautandi gatasikti með tilheyrandi styttingu vegalengda og bættum samgöngum.

En svo komi hrunið, birkivaxnir peningar og stráarsmjörið var sjónhverfing ein og því ljóst að ekki væru fullir vasar fjár til slíkra framkvæmda. Því þarf að vanda til verka og velja af kostgæfni þá kosti sem fara fyrstir í framkvæmd þegar fjármagn er af skornum skammti, en engu að síður nauðsynlegt að halda áfram uppbyggingu vegakerfis okkar Íslendinga.

Norðfjarðargöng ber oft á góma ásamt göngum undir Fjarðarheiði, en sennilega eru það þeir kostir hér fyrir austan sem oftast eru nefndir ásamt göngum undir Hellisheiði eystri.

Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hér í þessum pistil hver á að koma fyrstur og hver síðastur, en vil nefna nokkra kosti sem skoðaðir hafa verið undanfarin ár svona til fróðleiks og gamans, heimildir eru af heimasíðu Vegagerðarinnar, þar sem allir þessir kostir eru túndaðir í nokkrum skýrslum. Við hefjum leikinn nyrst við Hellisheiði eystri og endum suður í Lóni.

Hellisheiði eystri 7km. (Hérað – Vopnafjörður)  Þessi göngu myndu tengja saman norðurbyggðirnar og miðausturland. Heilsársvegalengd milli Vopnafjarðar og Egilsstaða yrði innan við 90 km í stað 140 (að mig minnir) Austurland myndi í raun stækka til norðurs við þessa framkvæmd en Vopnafjörður og byggðirnar þar norðan af hafa ekki haft mikla tengingu austur eftir vegna skorts á samgöngum.

Ókostir eru varla nokkrir, þó gæti jarðfræði á svæðinu verið snúinn, en um er að ræða forna eldstöð og jarðfræðingar hafa bent á möguleg vandkvæði á því að bora í gegnum eldstöð, en það má sjálfsagt leysa með góðum vilja og nútíma tæknilausnum og svo leiða nánari rannsóknir jafnvel í ljós að þetta er ekkert vandamál.

Seyðisfjarðargöng 12-14km (Seyðisfjörður – Hérað undir Fjarðarheiði)  Tenging okkar við Evrópu liggur yfir Fjarðarheiði eins og staðan er í dag og sennilega er þetta snjóþyngsti fjallvegur hér Austanlands með tilheyrandi ófærð og dýrri vetrarþjónustu. Frá Seyðisfirði sækja margir vinnu yfir Fjarðarheiði niður á firði og til Héraðs.

Helsti ókostur þessara ganga er lengd þeirra en reikna má með að göngin verði ekki undir 12km en það er vissulega nokkrir kostir þar í stöðunni og möguleiki á styttri göngum.

Mjóafjarðargöng 12-14km. (Norfjörður – Mjóifjörður – Seyðisfjörður)  Myndi leysa af hólmi Fjarðarheiðna í það minnsta að hluta, myndi tryggja að þjóðbraut Íslendinga til Evrópu væri í lagi, að því gefnu að Norfjarðargöng væru einnig til staðar. Seyðisfjörður og Norfjörður væru með hringtengingu í alfararleið, með þeim fjölmörgu möguleikum sem því fylgja. Mjóifjörður væri orðin góður búsetukostur í stað hnignandi byggðar með litlar sem engar samöngur yfir vetrarmánuðina.

Ókostir eru sennilega helst vegalengdir, en gera má ráð fyrir því að þessi göng yrðu um 2x 7km.

Norfjarðargöng 7km. (Eskifjörður – Norfjörður)  Engin efast um nauðsyn þessara ganga, gömlu göngin eru í liðlega 600 metra hæð yfir sjó, einbreið og orðin ákaflega léleg með tilheyrandi grjóthruni. Fjórðungssjúkrahús Austfirðinga er á Norfirði, sem og Verkmenntaskóli Austurlands. Fjöldi manns, sennilega á annað hundrað, sækir vinnu yfir Oddskarð á degi hverjum bæði til og frá Norfirði og Oddskarðið er snjóþungt með mikilli og dýrri vetrarþjónustu. Göngin yrðu svipuð framkvæmd og Fáskrúðsfjarðargöng um 7 km löng. Fullrannsökuð og í raun tilbúinn í útboð.

Ókosti get ég ekki fundið og flestir eru þeirrar skoðunar að þetta sé ein brýnasta samgöngubót hér Austanlands.

Héraðsgöng 6-8km. (milli Fjarða og Héraðs staðsetning óviss.)  Þessi göng myndu leysa Fagradal af hólmi í það minnsta að hluta. Nokkrir staðir hafa verið nefndir, t.d. undir Eskifjarðarheiði og undir Mjóafjarðarheiði.

Nokkuð ljóst má vera að þessi jarðgöng og Fjarðaheiðargöng verða seint bæði að veruleika, þarna þyrftu menn að velja á milli þeirra tveggja kosta. Lengd þessara ganga yrði á bilinu 5-7 km. eftir staðsetningu.

 Stöðvarfjarðargöng 4,8km. (Fáskrúðsfjörður – Stöðvarfjörður)  Þessi göng myndu stytta þjóðveginn um firði um 15 kílómetra, auk þess sem að vegur um sunnanverðan Fáskrúðsfjörð myndi leggjast af sem aðalleið, en hann er nú í dag kominn að fótum fram og þarfnast úrbóta. Stytting fyrir Stöðfirðinga yrði hér ekki eins mikil, en þar sem göngin koma innar en núverandi vegur yrðu afleggjari út á Stöðvarfjörð og stytting fyrir þá norður úr yrði um 7 km.

Ekki verður séð að þessum göngum fylgi miklir ókostir, nema þá helst að taka byggðarkjarna úr alfaraleið er oft álitinn ókostur.

 Kambanesgöng 4km. (Stöðvarfjörður – Breiðdalsvík.)   Hér er um að ræða göng sem myndu leysa af hólmi Kambanessriður (Kambaskriður) og stytta vegalengd milli Breiðdalsvíkur og Reyðarfjarðar um 8km. Vegur sem er um Kambaskriður myndi leggjast af nema sem útsýnisleið, en um er að ræða brattar skriður, sem þó hafa nýuppbyggðan og góðan veg.

Ókostir eru helst lítil stytting með miklum tilkostnaði, og nýbúið er að byggja upp vegin um skriðurnar, milli staðanna.

Berufjörður 6-7km.   Þessi kostur er ekki oft nefndur, en hann er vænlegur fyrir margra hluta sakir. Stytting er umtalsverð eða allt að 37 km yrði ysta mögulega leið fyrir valinu. Aðalflutningsleið til og frá Austurlandi liggur um firði, nokkuð margir sækja vinnu frá Djúpavogi austur á firði, og þessi göngu myndu á sama hátt og Hellisheiðargöng draga austfirðinga nær hvor öðrum.

Ókostir eru þeir helstir að þennan kost er ekkert búið að rannsaka og neðansjávargöng eru yfirleitt um 30-50% dýrari en göng í gegnum fjallgarða ofansjávar.

Öxi 8-10km.   Göng undir Öxi hefði í för með sér ótvíræða kosti. Umdeildur fjallvegur myndi leggjast af en vegalegngdir myndu ekki styttast mikið frá því sem nú er en ferðatími myndi styttast og öryggi yrði umtalsvert miklu meira.

Hér er það svipað uppi á teningnum og með Fjarðaheiðargöng, en gera má því skóna að ekki yrði borað styttra hér en um 10 km, nema með því að fara með gangamunan í töluverða hæð.

 Berufjarðarskarð 3-4km (Berufjörður-Breiðdalur) Grundvöllur þessara ganga yrði væntanlega áframhald og að önnur göng kæmu til undir Breiðdalsheiði. Með þeim tveimur framkvæmdum næðist töluverð stytting á milli Djúpavogs og Héraðs en áhrifin austur um firði yrðu hverfandi í kílómetrum talið. Þarna má búast við því að menn standi frammi fyrir svipuðum valmöguleikum og norðar á Austfjörðum, en göng undir Öxi og þessi göngu yrðu sennilega aldrei bæði að veruleika, það sama á við um göng undir Berufjörð. Það má því segja að án tilliti til kostnaðar en einungis með því að velta möguleikum fyrir sér þá séu valkostir við Berufjörð ansi margir.

Breiðdalsheiði 2-3km (Skriðdalur-Breiðdalur) Farið yfir þessa kosti hér í næstu göngum á undan (Berufjörður Skriðdalur) Stytting milli Djúpavogs og Héraðs yrði svipuð og ef um veg yfir Öxi væri að ræða, fer þó töluvert eftir staðsetningu. Það má reikna með því að þessi tvennu göng yrðu ein framkvæmd ef af yrði.

Lónsheiði. 6-7km (Álftafjörður – Lón) Stytting yrði um 15km. á vegalengd milli Hafnar og Djúpavogs, vegur um Þvottár og Hvalnesskriður myndi leggjast af sem heilsársvegur en í mínum huga yrði ákfalega mikilvægt að hann fengi áfram að njóta sín sem túristaleið, þar sem útsýni úr skriðunum er stórfenglegt.

Ekki er séð að á þessu yrðu neinir ókostir, stytting og mun betri og tryggari samgöngur. Þó hafa menn velt upp spurningum um hugsanlega hæð á gangamunna, sérstaklega Álftafjarðarmegin, en það er í það minnsta ekkert fast í hendi með það.

Aðrar styttingar án gangaframkvæmda. Hér hefur verið skautað yfir flesta þá kosti sem hafa einhverntímann verið nefndir til sögunnar í umræðunni um samgöngumál í okkar ágæta fjórðungi, en oft hafa átök verið umtalsverð í þeim málaflokki hér fyrir austan.

Aðrar styttingar eru að sjálfsögðu mögulegar, en þá ber helst að nefna Hamarsfjörð og Álftafjörð, nokkrar leiðir yfir þessa firði ættu að vera mögulegar því báðir eru þeir grunnir og því ekki ómögulegt að fara yfir þá bæði innarlega á leirum og utar með meiri mannvirkjum.

Brú yfir Berufjörð hefur einnig verið nefnd og lítið mál er að ná þó nokkurri styttingu yfir þann fjörð bæði á leirum innst í firðinum, sem og utar ef vilji stendur til þess.

Einnig eru hæg heimatökin í því að stytta veginn um Lón um eina 15 kílómetra með því að færa hann utar í sveitina. Við allar þessar styttingar um firði og Lón, sem hér eru nefndar myndu, einar 10 einbreiðar brýr heyra sögunni til og það er mikill plús í því að bæta umferðaröryggi.

Að lokum Fleiri möguleikar til styttinga eru vissulega til en þessir, en þeir eru sumir hverjir frekar fjarstæðukenndir en svona til gamans þá má nefna göngu undir Þórudalsheiði, en þar er möguleiki á því að leiðin milli Reyðarfjarðar og Djúpavogs yrði um 75 kílómetrar um Axargöng eða undir Breiðdalsheiði og Berufjarðarskarð.

Einnig er hægt að nefna þann kost að bora frá Seldal í Reyðarfirði yfir í Norðurdal í Breiðdal, en það yrðu um 8 kílómetra löng göng og síðan bætti bora áfram til suðurs milli Breiðdals og Norðurdals og þaðan undir Berufjarðarskarð með þessu móti yrðu ekki nema 35-55km. frá botni Reyðarfjarðar í Berufjarðarbotn eftir því hvaða leið yrði fyrir valinu.

Það verður þó að teljast að þessir möguleikar séu ákaflega fjarlægir í tíma, ef að þeir eiga þá nokkurn möguleika yfir höfuð, en þeir fá að fljóta hér með svona til gamans.


Hér mætti...

Mogginn standa sig betur, fréttin er mun ítarlegri á Vísi .is.

Á ekki morgunblaðið fréttaritara í fjórðungnum, mér er spurn??


mbl.is Hringvegurinn lokaður á Möðrudalsöræfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta það sem menn vilja???

Kjalvegur sem heilsársvegur hefur verið töluvert í deiglunni undanfarnar vikur, og sitt hefur hverjum sýnst um ágæti þeirra hugmynda, bæði vegin sem slíkan, og einnig útfærsuna á framkvæmdinni.

Með reglulegu millibili kemur upp umræða um þröskulda í íslenska vegakerfinu og lausnir þeim tengdar, og ætla ég að nefna nokkra sígilda þröskulda svona til glöggvunar á máli mínu og hæð þeirra yfir sjó:

  • Hellisheiði........................................374m
  • Holtavörðuheiði...............................407m
  • Öxnadalsheiði.................................570m
  • Vatnsskarð......................................420m
  • Víkurskarð.......................................325m
  • Möðrudalsöræfi (Háreksstaðarleið)..600m
  • Breiðdalsheiði..................................470m

Þessir kaflar eru oft tíundaðir þegar talað er um kafla á þjóðvegi eitt sem þarf að leytast við að lækka eða krækja framhjá.  Engin þessara kafla er þó eins hátt yfir sjó og Kjalvegur en hann liggur í 672m hæð yfir sjó, og liggur auk þess um svæði sem er einstaklega misviðrasamt og snjóþungt.  Sá kafli hringvegarins sem liggur næst Kili í hæð er Háreksstaðarleið en í Langadal nær sá partur hringvegarins 600m, og þar getur orðið ansi misviðrasamt en það svæði er þó töluvert snjóléttara heldur en Kjölur.

Reglulega er rætt um möguleika á því að taka þessa þröskulda og lækka þá með öllum tiltækum ráðum, þá er talað um að þetta séu hættulegir kaflar, þeir séu dýrir í vetrarþjónustu og oft illfærir vegna ofankomu og veðurs.  En engu að síður vilja menn taka sig til og smíða nýjan veg í meiri hæð en allir þessir kaflar og á svæði þar sem viðvarandi snjóþyngsli og vetrarveður myndu hamla för.

Hvað gengur mönnum eiginlega til??? 

Styttingar eru mikilvægar, það er ekki spurning, en það á ekki að koma niður á öryggi vegfarenda á nokkurn hátt, eins þessi vegur myndi tvímælalaust gera.

Sjáið þið þetta ekki fyrir ykkur, 4 ungmenni á leið í Sjallan á lakkskóm og stuttpilsum, föst í skafli á Búðarhálsi í norðan 25m sek og snjókomu!!! 

Man ekki einhver eftir vandræðunum sem urðu á Hellisheiði og í Þrengslum hér um árið???  Reyndar yrði umferð um þennan Kjalveg ekki nema sýishorn af því sem hún er um Hellisheiði og Þrengsli, en á móti kemur að uppá Hellisheiði er ekki nema steinsnar fyrir björgunarsveitir úr Ölfusinu og af Stór Hafnarfjarðarsvæðinu að fara, en því er ekki svo farið um Kjalveg.  Ef aðstoðar yrði þörf er um ansi langan veg að fara.

Það sem menn ættu nú frekar að reyna að gera til að bæta samgöngur millin landshluta væri að endurbyggja og endurhanna þjóðvegi á láglendi, og setja upp 2+1 kafla sem víðast til að greiða fyrir umferðinni og........ (Það er varla að maður þori að segja það en ég læt vaða)........  Hækka hámarkshraða á völdum köflum.

 Og í lokin þá eru hér 2 myndir sem gætu sýnt viðvarandi vetrarástand á Kjalvegi....Febrúar 07 Þorrablót 270

Febrúar 07 Þorrablót 133


Algjörir snillingar....

Ekki er það orðum aukið hversu miklir snillingar vinna hjá Vegagerðinni okkar.  Þessir ágætu menn sem leggja vegina okkar við misgóðar aðstæður og úr misgóðu efni, með mismunandi árangri, eru stundum ekki í takt við okkur hin sem þó höfum skoðanir á samgöngumálum og vegamálum almennt.

Tökum dæmi: Nú í morgun vaknaði maður upp og sá að það hafði snjóað í fjöll niður undir 700 metrana, og viti menn, Vegagerðin tilkynnir um lokun Oddskarðsganga næstu nótt vegna viðhalds.  Ekki það að ég sé eitthvað á móti viðhaldi á þeirri rottuholu sem þessi blessuðu göng eru, þvert á móti, þeim verður að sjálfsögðu að halda við þar til að við fáum nýju göngin (vonandi ekki seinna en 2010) en að bíða alltaf með lokunina þar til að það fer að snjóa í fjöll það er furðulegt!!!

Ég minnist þess ekki að svona lokanir hafi átt sér stað undanfarin ár nema eftir að það byrjar að snjóa í fjöll, og furða mig á því aðfhverju þetta er ekki gert örlítið fyrr, því að það er ekkert grín að keyra gamla vegin yfir Oddskarð ef það er einhver snjór.

Sjálfsagt má færa rök fyrir því að þetta sé gert vegna túrismans en það er nú á færri stöðum á landinu fallegra útsýni en einmitt af Oddskarði á fallegum degi, og því er það ekki slæmt fyrir ferðamenn að lenda þangað upp, þvert á móti það er ákveðin upplifun, sérstaklega fyrir þá sem þar hafa ekki farið áður.

Nei þetta eru bara snillingar...


Þjóðvegurinn (numero uno)

Ég greip á hlaupum í gær Bændablaðið iná Olís og var síðan að fletta því í morgun.  Það er svo sem ekki í frásögur færandi, en ég rakst á athyglisverða grein um jarðgöng undir Tröllaskaga þar.  Þar voru viðraðir ýmis kostir í þeirri stöðu, eins og gerist og gengur um þegar möguleg göt í fjallgarða eru rædd.  En það var hinsvegar ekki það sem vakti athygi mína í greininni, heldur skoðanakönnun sem Leið ehf lét gera fyrir sig um hálendisveg milli Reykjavíkur og Akureyrar.

Í þeirri skoðannakönnun kom m.a. fram að mikill meirihluti þeirra sem afstöðu tóku vildu að þjóðvegur eitt tengdi saman byggðirnar í stað þess að fara styðstu leið yfir hálendið.  Merkileg skilaboð það, skyldi þetta eiga við um Austfirðinga líka??

Þetta styrkir mig í þeirri vissu að þjóðvegur eitt á að vera um firði hér fyrir austan, og annað á ekki að ræða, svo einfalt er það í mínum huga. Það er sú leið sem skynsamlegust er, með tiliti til öryggis vegfarenda og einnig eru það hagsmunir Austfirðinga að vegur nr 1 tengi sem flestar byggðir saman með öruggum heilsárssamgöngum.

Ef við höfum það eitt að markmiði að stytta hringvegin þá er ég með bæði einfalda og ódýra lausn á því: Við leggjum tvíbreiðan malbikaðan veg í kringum Fjórðungsöldu og málið er dautt!!!!!

this is the road to.......


Af gangamálum

Nú nýlega var haldin fjölmennur fundur í Valhöll á Eskifirði, þar sem rædd voru smgöngumál.  Vel var mætt á þennan fund af frammámönnum okkar í vegamálum og var Sturla Böðvarsson samgönguráðherra einn af þeim.  Því miður gat ég ekki setið þennan fund og fanst mér það miður, en eftir að hafa talað við þá sem þar sátu og fengið fregnir af fundinum hjá þeim, þá skilst mér að ekki hafi ég nú misst af miklu.

Eftir þennan fjölnmenna fund kom engin niðurstaða ráðherra vegamála á íslandi hefur ekki dug eða vilja til að vinna að nauðsynlegum vegabótum í fjórðungnum, hvort sem um er að ræða endurbætur eða nýframkvæmdir.  Ekki gat hann einu sinni lofað því að ónýtur vegur um Hólmaháls yrði lagaður, þrátt fyrir þreföldun á umferð um þann veg.

Nei ég ætlaði að hrósa Sjálfstæðismönnum hér í Fjarðabyggð fyrir þetta framtak sitt (að halda þennan fund) en þegar ekkert kemur útúr slíkum fundi þá finnst mér nú ekki að hrósið geti verið mikið, en geri mér jafnframt grein fyrir því að ekki geta þeir borið ábyrgð á dugleysi ráðherrans.

En eitt kom þó þarna fram "það á að hefja ransóknir á næstunni við Oddskarðsgöng"  Jú auðvitað er það jákvætt en "á næstunni" er frekar loðið og teygjanlegt.

En svona til fróðleiks þá læt ég fylgja með hluta úr skýrslu Vegagerarinnar um Oddskarðsgöng, þar sem tíundað er hvað þarf rannsaka meira, og ekki er það nú ýkja mikið, og ætti því að vera hægt að klára það á næsta sumri:

"5.7 Frekari rannsóknir vegan Norðfjarðarganga.

Nauðsynlegt þykir að bora nokkrar holur ofan við álitlegasta gangamunna og innar á gangaleiðunum eftir því sem aðgengilegt er. Hlíðar Eskifjarðar og Fannardals eru brattar og ekki aðgengilegar til umferðar með þung bortæki án slóðagerðar.  Í Eskifirði væri nærtækast að fara vestur frá vegslóðum er liggja að vatnsbólum á Lambeyrardal ofan þéttbýlisins. Ef mjög erfitt verður með umferð bortækja vestur að jarðgangaleiðum, gæti hugsast að bora hjá Þverá, nokkru innan við gangaleiðina.  Það er þó ekki æskilegasta staða. Rétt þykir einnig að skoða aðeins möguleika á munna fast utan við Bleiksá, austan við kirkjuna.

Í Fannardal þarf að fara yfir Norðfjarðará innarlega á dalnum og í sneiðingum upp suðurhlíðina. Æskilegt væri að bora a.m.k. tvær holur í gegnum setbergslögin til að kanna styrk og breytileika í gerð þeirra.  Samtals yrðu þetta 900-1000 metrar af kjarnaborun."

Skýrsluna má lesa í heild sinni á heimasíðu Vegagerðarinnar hér: http://www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Nordfjardargong_skyrsla/$file/Nordfjardargong_Skyrsla.pdf

Nú ríður á að menn taki höndum saman og krefjist þess að farið verði í þessa vinu í sumar og henni lokið í haust þannig að veturinn geti nýst í undirbúningsvinnu, þannig að hægt sé að hfjast handa strax á næsta ári.  Ríkið verður að klára sinn pakka hvað varðar þessa innviði samfélagsins til að þetta stóra verkefni sem hér er í gangi verði farsælt öllum íbúum svæðisisn til hagsbóta.

Tengjum byggðir borum fjöll.


Færum Þjóðveginn

Það hafa verið miklar vangaveltur um það hér í fjórðungnum, um það hvar þjóðvegi 1 sá best fyrirkomið, og sitt hefur hverjum sýnst um það.  En ég er þeirrar skoðunar að hann eigi að færast niður á firði um Fáskrúðsfjarðargöng.  En af hverju? Spyrja menn og það er auðvelt að svara því.

Hver er tiligangur hringvegarins? Hvaða hlutverki á hann að gegna?  Það er eðlilegt að þessar spurningar komi upp þegar þessi mál eru reifuð, og ég tel að meginhlutverk hringvegarins sé að tengja landsfjórðungana með öruggum og góðum samgöngum.

Er einhver ósammála því?

Nei ég hélt ekki!!

En hvað er þá málið hér hjá okkur á Austurlandinu?

Jú við erum ekki sammála hvað sé gott og öruggt!!!

Góður og öruggur vegur hlýtur að vera, tvíbreiður með bundnu slitlagi og liggja þannig að ekki séu á honum margir hættulegir kaflar, einnig er töluvert öryggi fólgið í því að leggja vegi þar sem snjólétt er og lítið um illviðri og hálku.  Það má líka skilgreina öryggi samganga út frá því hversu öruggt það sé að vegfarendur komist fra A til B eða jafnvel Ö án þess að ófærð tefji eða hamli för.

Þegar allt þetta hefur verið lagt til grundvallar þá er það engin spurning hvar hringvegurinn á að liggja í okkar fjórðungi, þ.e. um firði í gegnum Fáskrúðsfjarðargöng.

Þetta er málið.

En svona til fróðleiks þá fylgir hér með smávegis sem ég fann á samgönguvefnum:

Minnt skal á að samkvæmt könnun á vefnum gluggi.net er mikill meirihluti fyrir því að hringvegurinn, þjóðvegur eitt, liggi um Fáskrúðsfjarðargöng.  Þrír valkostir voru í boði í könnuninni, Fáskrúðsfjarðargöng, Öxi og Breiðdalsheiði.

Talsverðar sveiflur voru í kosningunni og framan af var Öxi með örugga forustu. Þegar á leið skiptust Öxi og Fáskrúðsfjarðargöng á að vera í fyrsta sæti og siðarnefnda leiðin varð síðan hlutskörpust.

Athygli vekur að leiðin um Breiðdalsheiði var aldrei inni í myndinni og lauk keppni með 1%. Um 600 manns tóku þátt í könnuninni.

Niðurstaðan er eftirfarandi:
Um Fáskrúðfjarðargöng 63%
Um Öxi 36%
Um Breiðdalsheiði 1%

Það er þá ljóst að flestir Austfirðingar gera sér grein fyrir því hvað er öruggt og gott, eða 63%, en hinir virðast haldnir þeim misskilningi að vegur sem liggur í yfir 500m hæð yfir sjó og er snarbrattur, mjór og kræklóttur sé öruggur og góður.

Þetta fær mann nú til að hugsa ekki satt!!!!!!


Þau áttu afmæli í gær

Afmælisbarnið

Oddskarðsgöngin ógurlegu áttu afmæli, og aldurinn er 28 ár.

Þau hafa elst illa, þau halda ekki í við nútíman og eru gamaldags og léleg.  Við viljum gefa þeim frí, við viljum sjá arftaka þeirra verða til og við viljum sjá hann verða til hið snarasta, helst viljum við að arftakin verði í burðarliðnum  á þrítugsafmæli núverandi ganga.

Ég stoppaði í göngunum í gær og það er alveg ótrúlegt miðað við hversu mikil samgöngubót þeta var á sínum tíma, hvað þetta er ekki boðlegt nú 28 árum seinna.

Nei þett er ekki ekki ekki ekki þolandi eins og segir í textanum.

kv

Eiður


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband