Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

Af holum fjallgörðum..

Jarðgöng.. Nauðsyn eða tískubylgja…??

Mikið hefur verið skrafað og skeggrætt um jarðgöng og jarðganaframkvæmdir meðal landans undanfarin misseri og ár. Sýnist sitt hverjum um hvar og hvenær og jafnvel hvernig eigi að gata fjallshryggi af ýmsum stærðum og gerðum.

Sennilega hafa augu manna hér opnast fyrir því að eftir að jarðgöng undir Hvalfjörð og Vestfjarðagöngin voru opnuð að jarðgöng væru alvöru samgöngubót, en ekki litlar og illfærar holur sem væru lítið minna hættulegar en fjallvegurinn sem þau leystu af hólmi.

Margar lærðar skýrslur hafa verið lagðar fram um málið af hinum ýmsum aðilum og gjarnan er tekist á um staðsetningu og forgangsröðun, enda vill hver fá í sinn bakgarð jarðgöng af nýjustu sort, til að stytta akstursleiðir og bæta samgöngur milli staða árið um kring.

Sennilega hefur sú umræða hvergi verið meiri en hér fyrir austan, sérstaklega í kúlulánasamfélaginu fyrir hrun, en þá uxu peningar á birkitrjám og smjörið fossaði af öllum stráum og því lítið mál að breyta íslenskum fjallgörðum í konsertflautandi gatasikti með tilheyrandi styttingu vegalengda og bættum samgöngum.

En svo komi hrunið, birkivaxnir peningar og stráarsmjörið var sjónhverfing ein og því ljóst að ekki væru fullir vasar fjár til slíkra framkvæmda. Því þarf að vanda til verka og velja af kostgæfni þá kosti sem fara fyrstir í framkvæmd þegar fjármagn er af skornum skammti, en engu að síður nauðsynlegt að halda áfram uppbyggingu vegakerfis okkar Íslendinga.

Norðfjarðargöng ber oft á góma ásamt göngum undir Fjarðarheiði, en sennilega eru það þeir kostir hér fyrir austan sem oftast eru nefndir ásamt göngum undir Hellisheiði eystri.

Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hér í þessum pistil hver á að koma fyrstur og hver síðastur, en vil nefna nokkra kosti sem skoðaðir hafa verið undanfarin ár svona til fróðleiks og gamans, heimildir eru af heimasíðu Vegagerðarinnar, þar sem allir þessir kostir eru túndaðir í nokkrum skýrslum. Við hefjum leikinn nyrst við Hellisheiði eystri og endum suður í Lóni.

Hellisheiði eystri 7km. (Hérað – Vopnafjörður)  Þessi göngu myndu tengja saman norðurbyggðirnar og miðausturland. Heilsársvegalengd milli Vopnafjarðar og Egilsstaða yrði innan við 90 km í stað 140 (að mig minnir) Austurland myndi í raun stækka til norðurs við þessa framkvæmd en Vopnafjörður og byggðirnar þar norðan af hafa ekki haft mikla tengingu austur eftir vegna skorts á samgöngum.

Ókostir eru varla nokkrir, þó gæti jarðfræði á svæðinu verið snúinn, en um er að ræða forna eldstöð og jarðfræðingar hafa bent á möguleg vandkvæði á því að bora í gegnum eldstöð, en það má sjálfsagt leysa með góðum vilja og nútíma tæknilausnum og svo leiða nánari rannsóknir jafnvel í ljós að þetta er ekkert vandamál.

Seyðisfjarðargöng 12-14km (Seyðisfjörður – Hérað undir Fjarðarheiði)  Tenging okkar við Evrópu liggur yfir Fjarðarheiði eins og staðan er í dag og sennilega er þetta snjóþyngsti fjallvegur hér Austanlands með tilheyrandi ófærð og dýrri vetrarþjónustu. Frá Seyðisfirði sækja margir vinnu yfir Fjarðarheiði niður á firði og til Héraðs.

Helsti ókostur þessara ganga er lengd þeirra en reikna má með að göngin verði ekki undir 12km en það er vissulega nokkrir kostir þar í stöðunni og möguleiki á styttri göngum.

Mjóafjarðargöng 12-14km. (Norfjörður – Mjóifjörður – Seyðisfjörður)  Myndi leysa af hólmi Fjarðarheiðna í það minnsta að hluta, myndi tryggja að þjóðbraut Íslendinga til Evrópu væri í lagi, að því gefnu að Norfjarðargöng væru einnig til staðar. Seyðisfjörður og Norfjörður væru með hringtengingu í alfararleið, með þeim fjölmörgu möguleikum sem því fylgja. Mjóifjörður væri orðin góður búsetukostur í stað hnignandi byggðar með litlar sem engar samöngur yfir vetrarmánuðina.

Ókostir eru sennilega helst vegalengdir, en gera má ráð fyrir því að þessi göng yrðu um 2x 7km.

Norfjarðargöng 7km. (Eskifjörður – Norfjörður)  Engin efast um nauðsyn þessara ganga, gömlu göngin eru í liðlega 600 metra hæð yfir sjó, einbreið og orðin ákaflega léleg með tilheyrandi grjóthruni. Fjórðungssjúkrahús Austfirðinga er á Norfirði, sem og Verkmenntaskóli Austurlands. Fjöldi manns, sennilega á annað hundrað, sækir vinnu yfir Oddskarð á degi hverjum bæði til og frá Norfirði og Oddskarðið er snjóþungt með mikilli og dýrri vetrarþjónustu. Göngin yrðu svipuð framkvæmd og Fáskrúðsfjarðargöng um 7 km löng. Fullrannsökuð og í raun tilbúinn í útboð.

Ókosti get ég ekki fundið og flestir eru þeirrar skoðunar að þetta sé ein brýnasta samgöngubót hér Austanlands.

Héraðsgöng 6-8km. (milli Fjarða og Héraðs staðsetning óviss.)  Þessi göng myndu leysa Fagradal af hólmi í það minnsta að hluta. Nokkrir staðir hafa verið nefndir, t.d. undir Eskifjarðarheiði og undir Mjóafjarðarheiði.

Nokkuð ljóst má vera að þessi jarðgöng og Fjarðaheiðargöng verða seint bæði að veruleika, þarna þyrftu menn að velja á milli þeirra tveggja kosta. Lengd þessara ganga yrði á bilinu 5-7 km. eftir staðsetningu.

 Stöðvarfjarðargöng 4,8km. (Fáskrúðsfjörður – Stöðvarfjörður)  Þessi göng myndu stytta þjóðveginn um firði um 15 kílómetra, auk þess sem að vegur um sunnanverðan Fáskrúðsfjörð myndi leggjast af sem aðalleið, en hann er nú í dag kominn að fótum fram og þarfnast úrbóta. Stytting fyrir Stöðfirðinga yrði hér ekki eins mikil, en þar sem göngin koma innar en núverandi vegur yrðu afleggjari út á Stöðvarfjörð og stytting fyrir þá norður úr yrði um 7 km.

Ekki verður séð að þessum göngum fylgi miklir ókostir, nema þá helst að taka byggðarkjarna úr alfaraleið er oft álitinn ókostur.

 Kambanesgöng 4km. (Stöðvarfjörður – Breiðdalsvík.)   Hér er um að ræða göng sem myndu leysa af hólmi Kambanessriður (Kambaskriður) og stytta vegalengd milli Breiðdalsvíkur og Reyðarfjarðar um 8km. Vegur sem er um Kambaskriður myndi leggjast af nema sem útsýnisleið, en um er að ræða brattar skriður, sem þó hafa nýuppbyggðan og góðan veg.

Ókostir eru helst lítil stytting með miklum tilkostnaði, og nýbúið er að byggja upp vegin um skriðurnar, milli staðanna.

Berufjörður 6-7km.   Þessi kostur er ekki oft nefndur, en hann er vænlegur fyrir margra hluta sakir. Stytting er umtalsverð eða allt að 37 km yrði ysta mögulega leið fyrir valinu. Aðalflutningsleið til og frá Austurlandi liggur um firði, nokkuð margir sækja vinnu frá Djúpavogi austur á firði, og þessi göngu myndu á sama hátt og Hellisheiðargöng draga austfirðinga nær hvor öðrum.

Ókostir eru þeir helstir að þennan kost er ekkert búið að rannsaka og neðansjávargöng eru yfirleitt um 30-50% dýrari en göng í gegnum fjallgarða ofansjávar.

Öxi 8-10km.   Göng undir Öxi hefði í för með sér ótvíræða kosti. Umdeildur fjallvegur myndi leggjast af en vegalegngdir myndu ekki styttast mikið frá því sem nú er en ferðatími myndi styttast og öryggi yrði umtalsvert miklu meira.

Hér er það svipað uppi á teningnum og með Fjarðaheiðargöng, en gera má því skóna að ekki yrði borað styttra hér en um 10 km, nema með því að fara með gangamunan í töluverða hæð.

 Berufjarðarskarð 3-4km (Berufjörður-Breiðdalur) Grundvöllur þessara ganga yrði væntanlega áframhald og að önnur göng kæmu til undir Breiðdalsheiði. Með þeim tveimur framkvæmdum næðist töluverð stytting á milli Djúpavogs og Héraðs en áhrifin austur um firði yrðu hverfandi í kílómetrum talið. Þarna má búast við því að menn standi frammi fyrir svipuðum valmöguleikum og norðar á Austfjörðum, en göng undir Öxi og þessi göngu yrðu sennilega aldrei bæði að veruleika, það sama á við um göng undir Berufjörð. Það má því segja að án tilliti til kostnaðar en einungis með því að velta möguleikum fyrir sér þá séu valkostir við Berufjörð ansi margir.

Breiðdalsheiði 2-3km (Skriðdalur-Breiðdalur) Farið yfir þessa kosti hér í næstu göngum á undan (Berufjörður Skriðdalur) Stytting milli Djúpavogs og Héraðs yrði svipuð og ef um veg yfir Öxi væri að ræða, fer þó töluvert eftir staðsetningu. Það má reikna með því að þessi tvennu göng yrðu ein framkvæmd ef af yrði.

Lónsheiði. 6-7km (Álftafjörður – Lón) Stytting yrði um 15km. á vegalengd milli Hafnar og Djúpavogs, vegur um Þvottár og Hvalnesskriður myndi leggjast af sem heilsársvegur en í mínum huga yrði ákfalega mikilvægt að hann fengi áfram að njóta sín sem túristaleið, þar sem útsýni úr skriðunum er stórfenglegt.

Ekki er séð að á þessu yrðu neinir ókostir, stytting og mun betri og tryggari samgöngur. Þó hafa menn velt upp spurningum um hugsanlega hæð á gangamunna, sérstaklega Álftafjarðarmegin, en það er í það minnsta ekkert fast í hendi með það.

Aðrar styttingar án gangaframkvæmda. Hér hefur verið skautað yfir flesta þá kosti sem hafa einhverntímann verið nefndir til sögunnar í umræðunni um samgöngumál í okkar ágæta fjórðungi, en oft hafa átök verið umtalsverð í þeim málaflokki hér fyrir austan.

Aðrar styttingar eru að sjálfsögðu mögulegar, en þá ber helst að nefna Hamarsfjörð og Álftafjörð, nokkrar leiðir yfir þessa firði ættu að vera mögulegar því báðir eru þeir grunnir og því ekki ómögulegt að fara yfir þá bæði innarlega á leirum og utar með meiri mannvirkjum.

Brú yfir Berufjörð hefur einnig verið nefnd og lítið mál er að ná þó nokkurri styttingu yfir þann fjörð bæði á leirum innst í firðinum, sem og utar ef vilji stendur til þess.

Einnig eru hæg heimatökin í því að stytta veginn um Lón um eina 15 kílómetra með því að færa hann utar í sveitina. Við allar þessar styttingar um firði og Lón, sem hér eru nefndar myndu, einar 10 einbreiðar brýr heyra sögunni til og það er mikill plús í því að bæta umferðaröryggi.

Að lokum Fleiri möguleikar til styttinga eru vissulega til en þessir, en þeir eru sumir hverjir frekar fjarstæðukenndir en svona til gamans þá má nefna göngu undir Þórudalsheiði, en þar er möguleiki á því að leiðin milli Reyðarfjarðar og Djúpavogs yrði um 75 kílómetrar um Axargöng eða undir Breiðdalsheiði og Berufjarðarskarð.

Einnig er hægt að nefna þann kost að bora frá Seldal í Reyðarfirði yfir í Norðurdal í Breiðdal, en það yrðu um 8 kílómetra löng göng og síðan bætti bora áfram til suðurs milli Breiðdals og Norðurdals og þaðan undir Berufjarðarskarð með þessu móti yrðu ekki nema 35-55km. frá botni Reyðarfjarðar í Berufjarðarbotn eftir því hvaða leið yrði fyrir valinu.

Það verður þó að teljast að þessir möguleikar séu ákaflega fjarlægir í tíma, ef að þeir eiga þá nokkurn möguleika yfir höfuð, en þeir fá að fljóta hér með svona til gamans.


Nú líst mér á...

Ég held að Hjálmar hafi hitt naglann á höfuðið í þessu máli.. Auðvitað á að sleppa því að mynda meirihluta, enda á það að vera algjörlega óþarft í sjálfu sér.  Sú aðferðarfræði sem tíðkast hefur í íslenskri pólitík og víðar að alltaf þurfi að stjórna í krafti meirihluta er úrelt og komið að því að vinna á öðrum nótum.

Meirihlutaræðið sem við þekkjum auðveldar foringjaræði og eykur líkur á spillingu og gengisfellir oft (ekki alltaf) góð mál sem koma frá "röngum" flokki. (minnihluta)

Hversvegna er bæjarstjórn ekki starfhæf nema með meirihluta.. ?? Er þetta ekki sama fólkið sem situr á stólunum, breytist eitthvað í afstöðu þeirra við það að starfa sem einn hópur frekar en tveir.. ?

Ég get nefnt dæmi um það hvernig meirihlutaræðið getur virkað.

Eitt sinn var ónefndur sveitarstjórnarmaður á tali við sveitunga sinn.  Og voru þeir að ræða um daginn og vegin þegar barst í tal örlítið vandamál sem dóttir sveitungans átti við að glíma, og sveitarfélagið gæti í sjálfu sér leyst með lítilli samþykkt.  Taldi sveitarstjórnarmaðurinn að það væri nú lítið mál og auðfengið enda væri ekki um ólöglegan gjörning að ræða fyrir sveitarfélagið og taldi hann víst þar sem hann væri í sitjadi meirihluta að þetta fengist samþykkt.

Líður nú nokkur tími og mál dóttur sveitungans er tekið fyrir af sveitarstjórn.  Kemur í ljós í ferlinu að málið sé fordæmisgefandi og muni að öllum líkindum verða stærra í fyllingu tímans og fleiri dætur eða synir sveitunga munu sækja svipaðan greiða til sveitastjórnar í fyllingu tímans.

Þrátt fyrir þetta vill sveitarstjórnarmaðurinn sækja það stíft að hans loforð við sveitungan verði uppfyllt, hann vill eðlilega ekki ganga bak gefnu loforði og málið er tekið tvisvar fyrir í sveitarstjórn, en á endanum ákvað sveitarstjórn þverpólitískt að ekki yrði að svo stöddu farin sú leið sem sveitarstjórnamaðurinn vildi.

Þarna treysti viðkomandi því að hans mál yrði samþykkt þó að það væri byggt á veikum grunni og væri í raun íþyngjandi fyrir sveitarfélagið og þar með íbúana.  Í krafti sinnar sannfæringar um málið og trausti þess að meirihlutinn stæði á bakvið hann gat hann lofað hlutum sem ekki voru á hans valdi að lofa.

ég styð Hjálmar í þessari hugmynd hans um samstarfspólitík og er sannfærður um að hér á skerinu væri margt mun betra ef að okkur bæri gæfa til þess að vinna saman en ekki í sundur eins og nú virðist vera í tísku.  Einnig myndum pólitíkusar minka þann leiða vana að gengisfella allar hugmyndir vegna uppruna þeirra og skoða þær í öðru ljósi.

Samvinna er lykilorðið hér.


mbl.is Guðríður yrði bæjarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband