Eru músarklikk verðmætari en góð blaðamennska.. ??

Fyrir rétt um ári síðan var mikið fjallað um flúormengun í Reyðarfirði frá álveri Alcoa Fjarðaáls enda gáfu mælingar í grasi tilefni til þess, en stakar mælingar voru þá yfir þeim meðaltalsmörkum sem sett höfðu verið vegna starfsemi álversins.

Ég og fleiri sem vorum í forsvari fyrir sveitarfélagið Fjarðabyggð fannst umfjöllun um þetta mál í fjölmiðlum einkennast af rangfærslum og rangtúlkunum og spanst um þetta mál allt mikill fjölmiðlafarsi sem ekki sá fyrir endan á á þeim tímapunkti. Sendi Eigna.- Skipulags og Umhverfisnefnd Fjarðabyggðar frá sér bókun þar sem bent var á að ítrekað hefði komið fram á heimasíðu MAST og Umhverfisstofnunar að fólki og dýrum stafaði ekki hætta af flúormengun þeirri sem um ræddi því að í þessum fræðum væru einstakar mælingar ekki lagðar til grundvallar heldur meðaltöl yfir langan tíma rétt eins og í starfsleyfi umrædds álframleiðanda.

Eitthvað fór bókun okkar fyrir brjóstið á ýmsu fólki og jafnvel spruttu upp af þessu leiðarar í blöðum þar sem málið var yfirfarið á ákaflega "vandaðan" og yfirvegaðan hátt og við pólitíkusarnir málaðir svörtum litum og ýmislegt misjafnt gefið í skyn um okkar innræti og persónugerð. Sneri þetta þó mest að mér persónulega og var látið í veðri vaka að ég væri bæði illa innrættur og auðkeyptur, hinum illa auðhring Alcoa til stuðnings.

Fannst mér leiðari þessi skrifaður í DV af Inga Frey Vilhjálmssyni, vega að mér og minni persónu og hafði ég hugsað mér á einhverjum tímapunkti að ég yrði að svara þessu rakalausa bulli sem þessi ágæti maður lét frá sér um þetta mál, en ákvað í ljósi þess að ekki var vilji til að fara yfir þessi mál á málefnalegan hátt, að bíða með það um sinn frekar en að skvetta olíu á eld rangfærslna og aðdróttana.
Ef þessu hefði verið svarað strax er eins víst að frekari óstaðfestar og órökstuddar athugasemdir hefðu birst í fjölmiðlum og engin von til þess að ég venjulegur maðurinn gæti keppt við atvinnupennana í því að svara því sem þar hefði verið sett fram enda ekki í launaðri vinnu við að smíða samsærinskenningar og níða skó af saklausu fólki.

Hér að neðan fylgir leiðari sem birtist í DV þann 19 Ágúst 2014 þar sem þetta mál er skoðað frá sjónarhóli þessa ágæta blaðamanns. Rétt er að geta þess að viðkomandi blaðamaður sá ástæðu til þess að biðja bændur á Sléttu í Reyðarfirði afsökunar á orðum sínum í þessum leiðara í stuttri grein sem birtist í DV þann 22. Ágúst 2014.

Einning er rétt að það komi fram að flúormengun í Reyðarfirði sumarið 2014 var, þegar öllum mælingum var lokið það sumar, undir þeim mörkum sem umhverfisstofnun og MAST setja vegna þeirrar starfsemi sem þar er rekin.

Leiðarinn er feitletraður en mín svör eru það ekki, ég hef akveðið að birta þetta óbreytt frá því sem það var skrifað í ágúst í fyrra, ég gæti auðvitað lagað orðalag eitthvað og fíniserað þetta en þetta sýnir kanski hvernig manni er innanbrjósts þegar manni finnst að sér vegið og staðlausir stafir settir fram með þessum hætti.
Maður veltir því ósjálfrátt fyrir sér hvað það þarf til að teljast góður blaðamaður á Íslandi ef svona vinnubrögð eru viðhöfð við vinnslu frétta af málefnum líðandi stundar.

Hér að neðan má einnig finna link á þennan leiðara og afsökunarbeiðni sama blaðamanns til bænda á Sléttu skömmu síðar.

http://www.dv.is/leidari/2014/8/19/eitrudum-slodum-austurlandi/

http://www.dv.is/frettir/2014/8/22/aretting-um-fed-slettu/

__________________________________________________________________________________________

Álfyrirtækið Alcoa Fjarðaál og eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd í sveitarfélaginu Fjarðabyggð eru sammála um að minnsta kosti eitt: Almenningi stafar ekki hætta af flúorlosun frá álverinu á Reyðarfirði. Í síðustu viku sá nefndin ástæðu til þess að senda frá sér sérstaka bókun þess efnis í kjölfar umræðu um aukna flúormengun frá álverinu í sumar. Í bókuninni sagði: "Nefndin telur ljóst, miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja, að almenningi stafar ekki hætta af flúorlosun frá Alcoa Fjarðaáli í Reyðarfirði. Stefnt er á íbúafund á Reyðarfirði um miðjan september."

Samkvæmt því sem starfsmenn eftirlitsstofnana sögðu á fundi sem haldin var með nefndinni, þá er engin hætta á ferðum.. Ég hef enga ástæðu til að rengja það ágæta fólk sem þarna mætti okkur á fundi, en leiðarahöfundur er greinilega á öðru máli.

Flúor í of miklum mæli getur verið stórskaðlegt bæði dýrum og mönnum. Komi til flúoreitrunar sér hennar fyrst stað á glerungi manna og dýra og í kjölfarið geta tennur skemmst. Langtíma flúoreitrun hjá mönnum getur svo leitt til fylgikvilla eins og höfuðverkja, ógleði og með tíð og tíma jafnvel til vansköpunar. Inntaka flúors í of miklum mæli leiðir því af sér eitrun sem er heilsuspillandi.

Rétt hjá leiðarahöfundi.. Flúor í of miklu mæli er eitur og skaðlegt heilsu manna og dýra.. Hann hefur hinsvera ekki kynnt sér hvar mörkin liggja enda er það algjört aukaatriði í þessari umræðu að hans mati. Ég vona að hann drekki ekki te að staðaldri.. Ein bolli af te inniheldur nefnilega meira flúor en eitt nokkur kíló af krækiberjum (óskoluðum) týndum í Reyðarfirði.

Í byrjun júlí var greint frá því að samkvæmt fyrstu mælingum væri flúormagn yfir viðmiðunarmörkum í grasi í Reyðarfirði. Þessi niðurstaða þarf ekki að koma á óvart þar sem flúormengun hefur síðastliðin ár mælst of mikil í firðinum. Síðasta haust mældist flúorinnihald til dæmis vera of hátt í sláturfé í bæjunum Þernunesi og Sléttu. Í skýrslu um málið frá Tilraunastöð landbúnaðarins sagði meðal annars: "hætta er á flúorskemmdum í fé frá Sléttu."

Líka rétt, þ.e. að flúor sé yfir viðmiðunarmörkum. Þrjú ár í röð hefur mengun í mælingum á ákveðnum stöðum farið yfir viðmiðunarmörk. Sem er óásættanlegt. Bókun nefndarinnar dró ekki á neinn hátt yfir það og var það líka áréttað í samtali mínu við Austurfrétt að það væri ekki verið að gefa Alcoa slaka heldur þvert á móti, veita þeim aðhald. Hinsvegar var það mat nefndarinnar, byggt á orðum sérfræðinga Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar að flúormagn í andrúmslofti og gróðri (þrátt fyrir að vera yfir viðmiðunarmörkum) sé ekki hættulegt íbúum Fjarðabyggðar, bæði ferfættum og tvífættum.

Síðasta haust mældust hærri gildi í sláturfé frá Sléttu og Þernunesi, en sláturfé frá viðmiðunarsvæðum. Hinsvegar er orðalagið "of hátt" er villandi og gefur ekki rétta mynd af því sem kom fram í sláturfé. Hin hækkuðu gildi voru samt langt innan eitrunarmarka.

Þrátt fyrir fréttir um þessar flúorskemmdir þá sendi upplýsingafulltrúi Fjarðaáls tilkynningu til DV fyrir helgi þar sem hann sagði að skepnur þurfi "að lifa á flúorríku fóðri mjög lengi til að einhverra áhrifa fari að gæta á bein". Ef marka má fréttirnar um féð á Sléttu, og sé gengið út frá því að orð Dagmarar séu rétt, þá hefur féð á þeim lifað á "flúorríku fóðri mjög lengi". Ætli beinin í fénu á Sléttu séu ekkert skaðleg þeim mönnum sem sjóða þau niður í kjetsúpu, með meintu ómenguðu kjötinu, brúka þau sem kraft í langeldaðri kássu úr framparti þar sem mjúkt sauðarholdið hreinlega lekur af beinunum eða éta úr þeim merginn?

Hér er fyrsta rangfærsla ágæts blaðamanns. Ekki hafa komið fram skemdir í fé, en það er vissulega hætta á þeim ef féð lifir á flúorríku fæði (eins og Dagmar bendir á ) yfir langt tímabil. Hækkandi gildi, of há gildi og skemmdir eru ekki einn og sami hluturinn og rangfærslur ágæts leiðarahöfundar eru hér því nokkuð margar.. Enda eðlilegt þar sem einungis vitnað í lítin hluta þess sem farið er yfir á heimasíðu Umhverfisstofnunar, sennilega í trausti þess að lesendur hafi ekki áhuga á að kynna sér það sjálfir og þiggi vafasama matreiðslu ágæts blaðamanns.

Gæti rétt eins týnt til það sem hentar orðrétt af heimasíðu UST td. þessa tilvitnun:  "Athuganir á grasbýtum í Reyðarfirði benda ekki til eitrunaráhrifa vegna flúormengunar" Orðrétt af síðu UST..
Önnur tilvitnun: "Mælingar sýndu að gildi fóru ekki yfir viðmiðunarmörk varðandi heilfóður fyrir grasbíta"

Er ekki rétt að fara með allan sannleikan en ekki bara þá hlið hans sem hentar.? Hvet þá sem þetta augum berja að fara inn á síðu UST og lesa þetta sjálft. Hann veltir því líka fyrir sér hversu skaðleg bein skepna frá Sléttu séu í kjötsúpu og hægeldaðan frampart til manneldis, en samkvæmt því sem sérfræðingar MAST og UST segja þá er hættan engin..

Þá hefur Matvælastofnun sent frá sér erindi þess efnis að fólk eigi að skola vel matjurtir úr Reyðarfirði, til dæmis ber og salat, þar sem flúorið geti safnast á yfirborði þeirra. Miðað við þessi tilmæli þá getur almenningi sannarlega stafað hætta af flúorlosuninni fyrst flúorið safnast saman á matjurtir.

Rétt er að MAST hefur ráðlagt að grænmeti skuli skolað, og það er vel, hver skolar ekki það grænmeti sem hann lætur inn fyrir sínar varir hvort sem það er týnt í bakgarði á Reyðarfirði eða keypt í Hagkaup í Kringlunni.. Hinsvegar sögðu fulltrúar MAST á fundi með Eigna.- skipulags og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar, að flúor á grænmeti og berjum í Reyðarfirði væri langt undir þeim mörkum sem talin eru hættuleg og bentu reyndar á að á Íslandi væri ekki til nein viðmiðunarmörk fyrir hámark á flúori í grænmeti og berjum. Munur hér og annarsstaðar á landinu er varla merkjanlegur.

Hinsvegar sögðu þau líka að flúor sæti á laufblöðum og grösum og því væri rétt að skola slíkt, það væri eðlilegt ferli þegar grænmeti (keypt eða týnt) væri meðhöndlað.

Stjórnendur álversins hafa lýst flúormenguninni sem "ráðgátu" þar sem þeir hafi reynt að draga úr losun flúors í starfseminni og hafa lofað að kalla til sérráðna, erlenda sérfræðinga til að rannsaka málið.

Um yfirlýsingar stjórnenda Alcoa hef ég ekkert að segja, það er þeirra mál að verja eða skýra það frekar.

Nú hafa bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð tekið undir málflutning Alcoa Fjarðaáls um að flúormengunin hafi ekki áhrif á menn. Sveitarfélagið lætur þess ekki einu sinni getið í tilkynningu sinni að flúormengunin hafi haft mælanleg áhrif á sauðfé í firðinum. Þess í stað segir í henni að "fréttaflutningur af flúormælingum í Reyðarfirði hefur ítrekað og að nauðsynjalausu vakið áhyggjur hjá íbúum í Fjarðabyggð af heilsufarslegu öryggi, beinir ESU því til bæjarstjórnar að hlutlægar upplýsingar verði gerðar aðgengilegar íbúum á vef sveitarfélagsins"

Það voru klárlega mistök af okkar hálfu að minnast ekki á búfénað, og það er miður. Miðað við þær upplýsingar sem við fengum á umræddum fundi voru öll gildi í búfénaði og gróðri langt undir þeim mörkum sem talist geta hættuleg, og svo styður þessi ágæta grein og umfjöllunin öll okkara mál, að það þurfi að miðla upplýsingum á gagnsæan og hlutlægan hátt og best er ef þessar upplýsingar koma frá stofnunum eins og Umhverfistofnun og Matvælastofnun.

Til áréttingar má bæta við að "flúormengun hafi ekki áhrif á menn" er í besta falli villandi setning. Flúor í ómældu og miklu magni hefur eitrunaráhrif, það er öllum ljóst. Hinsvegar hefur flúor í því magni sem hann finnst í Reyðarfirði ekki eitrunaráhrif og er langt frá því að ná einhverjum þeim gildum sem geta talist hættuleg og það er það sem umrædd nefnd og undirritaður vildu benda á en varð ágætum ritstjóra efni í leiðara þann sem hér er verið að fara yfir.

Athygli vekur að formaður nefndarinnar, sem sendi yfirlýsinguna frá sér, Eiður Ragnarsson úr Framsóknarflokknum, er starfsmaður fyrirtækisins Brammer Fjarðaáls á Reyðarfirði sem er einn helsti birgir Alcoa Fjarðaáls. Þá starfaði Eiður um sex ára skeið hjá Alcoa. Ekki er ofsögum sagt að í tilkynningunni á vef sveitarfélagsins sé eins lítið gert úr flúormengun frá álverinu og áhrifum þess á gróðurfar og dýr, og eins hugsanlegum áhrifum á menn, og hugsast getur. Þegar þessi tilkynning er lesin koma upp í hugann þau fleygu orð að stundum geti "eitraðir þræðir stjórnmála og stórauðvalds" vafist svo mjúklega saman. "Nauðsynjalausar" áhyggjur af flúormengun frá álverinu Alcoa skulu kveðnar í kútinn jafnvel þótt rannsóknir sýni skýrlega fram á slæmar afleiðingar hennar á líf- og dýraríki í firðinum.

Athygli vekur.. Er oft upphafið á samsæriskenningum sem hafa engan rökstuðning við raunveruleikan, og hér er hálfkveðin vísa látin vera stóri sannleikurinn í þessu máli. Hér finnst mér verulega vegið að minni persónu og jafnvel æru með aðdróttunum og hálfkveðnum vísum.

Ég vann rúm 6 ár hjá Alcoa það er rétt, og vinn núna hjá Brammer uk ltd sem er stærsti byrgi Alcoa. En gerir það mig sjálfkrafa að handbendi viðkomandi fyrirtækis.. ?? Tja sumum finnst það að minnsta kosti.

Sú staðreynd að ég skuli vera Framsóknarmaður sannar auðvitað að ég er illa innrættur og spilltur að mati leiðarahöfundar, það þarf ekki frekari sannana við.. Hann gleymdi að geta þess að ég vann í 5 ár hjá Vífilfelli hf sem framleiðir fyrir hið gjörspilta fyrirtæki Coca Cola, drykki og vörur og selur á öllu Íslandi.

Einnig vann ég hjá og fyrir Samskip í nokkur ár, sem gerir mig sennilega nátengdan útrásarvíkingum og eykur það væntanlega enn á óheiðarleika minn og illt innræti.. Og þar áður vann ég við sjávarútveg sem gerir mig sennilega að aldarvini allra illra sægreifa á Íslandi.. Já og ekki gleyma því að ég er alinn upp í sveit og það er á allra vitorði að úr sveitum landsins getur ekkert gott komið..

Það má líka minnast á það að í þessari ágætu nefnd sitja fleiri en ég, og sennilega mun vandaðra fólk, þar sem það er ekki fulltrúar Framsóknarflokksins og það vinnur heldur ekki hjá Alcoa eða undirverktökum þess fyrirtækis. Máttur minn er greinilega mér hulin þar sem að öll nefndin stendur samhljóða á bakvið umrædda bókun og hingað til hef ég ekki komist upp með það að leggja þessu ágæta fólki orð í munn.

Svona málflutningur dæmir sig sjálfur að mínu mati og er eiginlega það eina við þessa grein sem er verulega athugavert í mínum huga, aðdróttanir án sanninda og nokkrus rökstuðnings og jaðrar við ærumeiðingar að mínu mati.

Þeir bæjarbúar sem vilja viðhalda þessari umræðu eru líklega "fjandmenn fólksins" á Reyðarfirði eða að minnsta kosti einhverra íbúa, svo vitnað sé til þekkts leikrits eftir Henrik Ibsen. Í leikritinu bendir læknirinn Tómas Stokkmann á að heilsulindir bæjarins sem hann býr í geti einmitt haft slæmar afleiðingar á heilsu fólks. Bæjarbúar vilja hins vegar hafa heilsulindirnar áfram sem tekjulind sína og því þarf að kveða gagnrýni Stokkmanns í kútinn. Fjárhagslegir hagsmunir bæjarins og hluta bæjarbúa verða með öðrum orðum ofan á í bænum og sannleikanum er mætt með andstöðu úr mörgum áttum. Í verkinu sýndi sannleikur Stokkmanns á endanum fram á "eitraða þræði" stjórnmála og auðvalds sem í því tilfelli hafa leitt af sér spillingu.

Það vill nú svo heppilega til að ég er einn af bæjarbúum Reyðarfjarðar, bý í á Heiðarvegi sem er ofarlega í bænum og einn af umræddum mælipunktum í vöktunaráætluninni er því sem næst í mínum bakgarði. Hvaða hag hef ég af því að ljúga að nágrönnum mínum og vinum.. ??

Ef að mengunin er slík sem leiðarahöfundur vill láta í veðri vaka og er í mínum bakgarði, hvurslags ófreskja og ómenni er ég að ganga um og telja mínum nágrönnum og vinum trú um að allt sé í stakasta lagi. Senda mín börn og börn vina minna út á lóð að leika sér í þessu mengunarskýi sem ég fæ væntanlega greitt fyrir að ljúga um, feitar fúlgur fjár og mér er slétt sama um börn mín og annara.....

Og varðandi að viðhalda umræðunni, þá er nú rétt að benda leiðarahöfundi á að það erum við (forsvarsmenn sveitarfélagsins) sem erum að viðhalda umræðunni.

Þessi grein leiðarahöfundar hefði ekki litið dagsins ljós nema vegna okkar umfjöllunar. Við hefum getað tekið þann kost að sitja bara og þegja og láta málið sigla sinn sjó, sennilega hefði það verið auðvelda leiðin og málið hefði sofnað mun fyrr en ella. En það er ekki okkar hlutverk að fara auðveldu leiðina. Okkar hlutverk er að upplýsa og fjalla um mál sem varða okkar sveitarfélag og íbúa, það er okkar hlutverk að standa vörð um velferð íbúa og hag þeirra, með upplýstri og vandaðri umræðu, óháð því hvort að við gætum orðið skotspónn leiðaraskrifa misgóðra blaðamanna um land allt.

Er nokkur von til þess að fólk fáist til þessara verka sem fylgja því að sitja í sveitastjórnum eða nefndum og ráðum þegar umfjöllun af þessu tagi á sér stað þegar umdeild mál koma upp.. ??

Ég hef ágætan skráp en mér finnst aðdróttanir þessa ágæta blaðamanns jaðra við ærumeiðingar en hann kann þá list ágætlega að segja ekki berum orðum það sem hann lætur í veðri vaka að ég sé bæði spilltur og illa innrættur.

Ég vil taka það fram þó svo að ég telji það ekki endilega nauðsynlegt að alltaf hef ég í mínum störfum fyrir okkar ágæta sveitarfélag unnið af heilindum og drengskap og ávalt valið að fara þá leið í öllum málum sem ég tel að gagnist okkur vel. Auðvitað eru ekki alltaf allir sammála um leiðir og aðferðir, en það er eðlilegt þegar ákvarðinir eru teknar um málefni sem snerta marga, en aldrei hafa ákvarðanir verið teknar af minni hálfu með annað en hagsmuni íbúa að leiðarljósi.

Góðar stundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband