Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014

Bændur og síminn

Þegar Reykvíkingar voru á móti símanum...

"Þegar þið eruð á móti þessu er það eins og þegar sunnlenskir bændur voru á móti símanum." Oft fær fólk þetta framan í sig, þegar því líst ekki á einhverja nýjung, og trúlega er sveitafólki oftar mætt með slíkri athugasemd en öðrum. 

En hverjir voru á móti símanum og hvers konar síma? Jú, þegar þetta er skoðað kemur ýmislegt í ljós.

Að forystu í andstöðunni gegn símanum höfðu Reykvíkingar. Þar má fyrst nefna Björn Jónsson ritstjóra Ísafoldar. Nærri honum stóðu ekki síst þeir, sem hófu á þessum árum togaraútgerð hér á landi(í Reykjavík) með erlendu fjármagni, og þeir, sem voru tengdir Íslandsbanka, sem stofnaður var í Kaupmannahöfn árið 1903 með dönsku og norsku fjármagni.

Varla var hann á móti samskiptum við útlönd og nýrri tækni.

Enn má nefna Einar Benediktsson, sem hafði að vísu fengið Rangárvallasýslu árið áður og fluttist þá úr Reykjavík. Alkunnugt er kapp hans að draga Ísland inn í umsvif umheimsins. Hann var sem sagt á móti símanum, eins og sunnlensku bændurnir, sem riðu til Reykjavíkur um hásláttinn 1905 til mótmæla. Þar voru fjölmennastir rangæingar og fyrir þeim Eyjólfur Landshöfðingi í Hvammi. Hann varð nokkrum árum síðar þekktur fyrir að gangast fyrir sölu virkjunarréttinda í Þjórsá til erlendra stóriðjufyrirtækja.

Varla verður því sagt um Eyjólf, að hann hafi verið á móti greiðu sambandi við önnur lönd.

Í þingnefnd, sem fjallaði um símamálið sumarið 1905, voru 7 með símanum, en 2 á móti. Þessir tveir voru Björn Kristjánsson kaupmaður í Reykjavík og Skúli Thoroddsen ritstjóri, þá búsettur á Bessastöðum. Þeir voru þá líka á móti nútímatækni og samskiptum við umheiminn ásamt öllum þeim Reykvíkingum, sem tóku þátt í mótmælum bændafundarins, eða hvað?

Nei, sannleikurinn er sá, að allir, sem létu frá sér heyra, höfðu áhuga á því, að Ísland kæmist í samband við önnur lönd með fjarskiptatækni.

Magnús Andrésson flutti símamálið inn á Alþingi þetta sumar með þingsályktunartillögu um kosningu nefndar í hraðskeytamálinu. Hann hélt því fram í þingræðu, að ráðagerð landstjórnarinnar um samning við Mikla norræna ritsímafélagið væri áhyggjuefni alþýðu, en stórfé hefði verið veitt á þrennum fjárlögum til að koma á hraðskeytasambandi. Raunar höfðu þeir Skúli Thoroddsen og Valtýr Guðmundsson prófessor í Kaupmannahöfn, sem einnig var á móti símanum 1905, beitt sér fyrir símamálinu á þingi 1901, en þá mælti Hannes Hafstein á móti ritsíma.

Andstæðingar Hannesar Hafstein töldu samninginn við Mikla norræna ritsímafélagið óhagstæðan borið saman við tilboð Marconi-félagsins um loftskeytasamband við útlönd og lagningu síma innanlands. Tveir sagnfræðingar, Lýður Björnsson og Þorsteinn Thorarensen, telja reynsluna hafa sannað, að samningurinn við Marconi-félagið hefði reynst hagstæðari. Þorsteinn telur jafnvel hugsanlegt, að Hannes hafi sjálfur áttað sig á því, að samningsboð Mikla norræna ritsímafélagsins væri óhagstætt, en það bundið afstöðu hans, að hann hafði þá þegar hagnýtt sér atbeina danskra stjórnvalda í málinu. Talsamband við útlönd komst hins vegar fyrst á árið 1935 og þá á öldum ljósvakans.

Hvergi koma fram andmæli við fjarskiptasamband við útlönd. Bændafundurinn var kvaddur saman til að sýna stjórnvöldum í Reykjavík, að það væri ekki aðeins í Reykjavík, sem andstaðan gegn símasamningnum við Mikla norræna ritsímafélagið væri sterk - það hlaut hún að finna - heldur einnig meðal almennings, en þá var þorri manna í sveitum landsins.

Það er því jafnrétt að segja, eins og hér er gert í fyrirsögn, að Reykvíkingar hafi verið á móti símanum, eins og að segja, að sunnlenskir bændur hafi verið á móti símanum, eða öllu heldur hvort tveggja er jafnrangt. Málið var það, að menn voru með eða móti stjórninni (Hannesi Hafstein) og þess vegna með eða móti símasamningi stjórnarinnar, en almennur áhugi var að tengjast umheiminum með fjarskiptum með einhverjum ráðum.

Góðar stundir. 



Hvað ætlar þú...

Aðverða þegar þú verður stór.. ??

Þessi spurning er eitthvað sem allir hafa einhverntíman fengið.. Oft snemma á ævinni þegar heimsmyndin er einföld og allt er svart og hvítt.

 

Svörin er mörg og margvísleg..

Flugmaður, læknir, bóndi, kennari og svo mætti áfram telja..

Ég er ekki með í mínum kolli marga sem urðu það sem þeir sögðust ætla að verða.. man þó eftir einum sem fann sína hillu þegar við vorum saman í hinni merku menntastofnun Alþýðuskólanum á Eiðum.. Sennilega voru þar fleiri en einn sem voru með áttavitan rétt stiltann og vissu hvað þeir ætluðusér að verða en einn skólabróðir minn tollir í mínu minni einhverra hluta vegna.

 

Ég ætlaði mér að verða bóndi.. en það varð ekkert úr því, taldi það fjárhaglega óhagkvæmt... Síðan ætlaði ég að verða Íþróttakennari, en það varð eitthvað lítið úr því líka.. tengdist kanski því að á þeim tímapunkti í minni tilveru sem hefði átt að vera frátekin fyrir skólagöngu, þá leitaði hugurinn annað.. Á  góðri íslensku þá nennti ég ekki að vera á skólabekk..

 

Þannig að ég varð bara ekki neitt..

Eða hvað.. ??

 

Fór að velta þessu fyrir mér um daginn þegar gamall vinur var kvaddur sinni hinstu kveðju.. var hann ekkert.. ??  Hann hafði ekki starfstitil sem slíkan, gekk lítið í skóla og hafði sinnt ýmsum störfum um ævina.. mætti sennilega færa rök fyrir því að hann hafi verið.. „ekkert“.. miðað við ymis viðmið samfélagsins.

 

En hann var vænsti drengur, vann sína vinnu, lifði sínu lífi og skilaði sínu til samfélagsins, var með öðrum orðum góður og nýtur samfélagsþegn, þó svo að hann væri „ekkert“

Og þá vaknaði sú spurning hjá mér..

Hvers vegna spyrjum við börnin okkar hvað þau ætli að verða og fyllumst stolti þegar þau nefna hinar ýmsu starfsgreinar svo sem læknir, flugmaður,  lögfræðingur eða eitthvað álíka metnaðarfullt.

Við myndum síður vilja heyra, götusópari, verkamaður, ræstitæknir eða eitthvað í þeim dúr..

En skiptir það í sjálfu sér einhverju máli.. ??

 

Væri ekki best að heyra þau segja eitthvað ótengt starfsstétt.. ?

 

Góður faðir, fyrirmyndar móðir, traustur vinur, virkur þáttakandi í samfélaginu, heiðarleg og góð persóna..

Ekki misskilja mig.. Auðvitað er gott að það sé metnaður fyrir námi og því að mennta sig til starfa á hinum ýmsu sviðum og allir eiga að sjálfsögðu að hvetja sína félaga og börn til dáða í þeim efnum..  En það á ekki að vera eina mælistikan á hver við erum.

 

Ég er ekki neitt...

Og er bara nokkuð ánægður með það...

 



Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband