Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Á því herrans ári 2013...

Janúar 

Þegar árið 2013 gekk í garð var heimilisfaðirinn að Heiðarveginum að vinna sínar síðustu mínútur og klukkustundir fyrir Alcoa Fjarðaál en síðasti vinnudagurinn á því heimili var 4. jan. Teknir voru nokkrir dagar í frí milli fyrirtækja en sá fyrsti hjá nýjum vinnuveitanda, Brammer; var 16. janúar.

Eitt fertugsafmæli og eitt sextugsafmæli í þessum fyrsta mánuði ársins, til hamingju með það Jón Björn og Gummi Bjarna. I lok janúar var síðan breska heimsveldið heimsótt, en skottast var til UK og höfuðstöðvar hins nýja fyrirtækis barðar augum, ásamt því að reynt var að troða í mann ýmiskonar vitneskju um fyrirtækið og verkferla þar innanhúss.  Reyndar var sú ferð eftirminnileg á þann hátt að ég týndi veskinu mínu á Heathrow flugvelli, en viti menn, ég gat gengið að því vísu á heimleiðinni, með öllu innihaldi óhreyfðu.. Góð sparnaðarráðstöfun ekki satt...

Febrúar.

Fyrsta fimleikamót ársins hjá örverpinu, ekki minnkar áhuginn hjá henni og stendur hún sig stórvel.  Skottast var á Landsþing Framsóknar sem var nokkuð vel heppnað, nema hvað uppgrip lögreglu höfuðborgarsvæðisins varð fréttamatur mikill, vegna þess hve frjálslega var lagt við þingstað vegna skorts á bílastæðum.. Ábyggilega gert grín að því í Spaugstofunni.. Voru hjónakornin að Heiðarveginum ein ef þeim sem sktarboð fengu, en málið var látið niður falla þar sem ljósmyndir af vettvangi sönnuðu sakleysi þessara sveitarmanna.

Mosi var teiknaður upp, Ingi Ragnarsson sá um það,  en það er fyrsta skrefið í því að fá húsið samþykkt af byggingarfulltrúa en stöðuleyfi það sem við höfðum á sveitarsæluhúsinu okkar fæst ekki endurnýjað og því þarf að spýta í lófa og klára það sem klára þarf. 

Frumburðurinn flutti út, en Þórarinn tók ásamt félaga sínum íbúð á leigu "inni í blokk" eins og við köllum það, hér í Réttarholtinu á Reyðarfirði.

Fjölskyldan eignaðist jeppa loks aftur, en við höfum nefnt hann Ryðfirðinginn þar sem hann er dulítið mölétin og lasburða, en það er bara gott verkefni að koma honum í nothæft stand.  Um er að ræða Fjórhlaupara af kyni Toyota árgerð 1993 ekin vel á fjórða hundraðið en gangverkið er gott þrátt fyrir mikla loftun í yfirbyggingu...

Mars

Hófst á því að við bræðurnir  mokuðum parketi útúr "mjólkurbúð" Reyðfirðinga, en okkur hafði borist það til eyrna að það ætti að lenda á haugunum og því var stokkið til og þessu eðalplastparketi smellt í kerru og brunað með það í Mosa.. (en ekki hvað) og nú skal sveitahöllin lögð "vínvið" af bestu gerð...  

Mosi fékk töluverða yfirhalningu í þessum mánuði, en stofa og svefnherbergi voru máluð loftaefni sett í svefnherbergi ásamt því að "vínviðurinn" var lagður á alla sveitahöllina nema bað.. Þvílíkur munur að sjá og bara frábært að komast yfir svona eðalhluti til að nýta..

Þessi mánuður endaði síðan á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, en fimleikadrottningin veiktist heiftarlega af einkyrningssótt svo illa að ekki var talið annað þorandi en að leggja hana á sjúkrahús en síðustu dögum fyrir páska ásamt skírdegi var eytt þar nyrðra, en héldum heim á föstudaginn langa í blíðskaparveðri.  Ekki var þó stúlkan orðin hress en nógu hress til að læknar treystu henni til að vera heima í stað þess að dvelja á sjúkrahúsi. 

Apríl

Hófst með jepparúnt á slóðir hreindýra í Egilssel við Víðidal en bræðurnir frá Bragðavöllum (Ingi og Eiður) fóru þangað ásamt nokkrum öðrum austfirskum jeppamönnum í helgarrúnt.  Fínn rúntur í ágætis veðri og endað var á því  að keyra niður Fossárdal og eins og lög gera ráð fyrir í kaffi á Lindarbrekku.

Kosningaundirbúningur tók slatta af  tíma heimilsföðursins í þessum mánuði, ásamt því að landshlutafundur SL var haldin á Egilsstöðum og var stjórnarmeðlimum Slysavarnarfélagsins boðið að bragða hreindýr á Heiðarveginum og mæltist það bara nokkuð vel fyrir.

Borgfirðingar sóttir heim en Björgunarsveitin Sveinungi fagnaði þeim áfanga að taka í notkun nýtt og glæsilegt hús á Borgarfirði. 

Maí

Var tíðindalítill að mestu, nema hvað Landsþing Slysavarnafélagsins var haldið á Akureyri og náði Heimilsfaðirinn kjöri til stjórnar á nýjan leik ásamt öðru góðu fólki. Einnig var stór söfnunarþáttur haldin fyrir SL í lok mánaðar og tókst hann með afbrigðum vel.

Júní

Hófst á ferðarlagi til Skotlands, en  hjónin á Heiðarveginum ásamt Bergey, Ragnari, Þórunnborgu og Jóni skottuðumst þangað í sumarfrí.  TIl stóð að dvelja þar í 10 daga og meðal annars að heimsækja gamlan vin, Antony Young sem þar á sumarhús í hálöndunum.  ekki fór þó betur en svo að Tony veiktist stuttu áður veið lögðum í hann og því var heimsóknin bæði endasleppt og dapurleg, en við náðum þó að hitta hann í stutta stund á spítala í Inverness og þó að hann hafi verið mjög veikur viljum við trúa því að hann hafi þekkt okkur og vonandi náðum við að gleðja hann lítið eitt með komu okkar.

Á haustmánuðum fengum við síðan þær dapurlegu fréttir að þessi gamli vinur okkar hafi kvatt þennan heim, hann náði sé aldrei á strik eftir veikindi þau sem voru að hrjá hann þegar við vorum ytra. Blessuð sé minning hans.

Ferðalagið var að öðru leyti yndislegt, veðurblíða eins og best verður á kosið og margt að skoða, eitthvað bar þó á taugaveiklun farþega í bílaleigubílum þeim sem leigðir voru.. feðgarnir Eiður og Ragnar  eru ekki alvanir því að sitja með stýri öfugmegin í bíl og að keyra á vitlausum vegarhelmingi, en allt tókst þetta nú áfallalaust. 

Í lok júni var síðan Landsmót unglingadeilda SL haldið með stæl á Norðfirði, en nú sáu Björgunarsveitirnar í Fjarðabyggð um herlegheitin.  Þótti mótið takast prýðisvel, rúmlega 300 krakkar komu þar saman og höfðu mikið gaman af en örverpið og heimilisfaðirinn voru virkir þátttakendur í þeim gjörningi.

Júlí.

Var mánuður andstæðna gleði og sorgar.  

Hlöðuhittingur var planaður þann 13. og hafði sú dagsetning verið ákveðin af heimilisföðurnum  og Særúnu frænku í febrúar.  

Húni heimsótti okkur Reyðfirðinga heim og komu rúmlega 1100 manns saman á bryggjunni og tók heimilisfaðirinn virkan þátt í þeim merka viðburði.  Gleðin fékk þó skjótan enda þar sem okkur var tilkynnt að morgni þess 6. að Ingibjörg Ólafsdóttir, amma, tengda amma og langamma  hefði kvatt þessa jarðvist eftir skammvinn veikindi.

Hlöðuhittingur Bragðvellinga var því með öðru sniði en áætlað hafði verið, því byrjað var á því að fylgja Ingibjörgu hina hinstu för og að því loknu komu menn og konur saman í hlöðunni að Bragðavöllum til að minnast hennar.

Heimilisfaðirinn rifjaði upp gamla takta og sló heimatúnin að Bragðavöllum fyrir þá feðga á Lindarbrekku Eið og Val og þótti honum það ekki leiðinlegt.

Ágúst.

Heimilisfrúin fjárfesti í draghýsi í byrjun mánaðar, og heilum 4 klst seinna var skottast í útilegu í Þakgil með fjölskyldunni í Reynihlið og heiðurshjónunum að Bragðavöllum, var verslunarmannahelginni eytt þar í blíðviðri í húsbíl, fellihýsi og tjaldvagni Heiðarvegsfjölskyldunnar.

Skottast var síðan til borgarinnar við sundin og tjaldsvæðið í Laugardal nýtt til gistingar og þaðan norður um land og heim..

Unnið var eitthvað í Sveitarsæluhúsinu í þessum mánuði, málað utandyra og byrjað á rennum og þakskeggjum sem var m.a. einn af þeim hlutum sem þarf að laga til að fullnægja kröfum byggingarfulltrúa Djúpavogshrepps...

September

Var til þess að gera tíðindalítill, þó var dvalið í Mosa eina helgi og að þessu sinni ekki til neins annars en að njóta sveitasælunnar, týnd ber, veiddur, fiskur og rúntað um Hamarsdalinn (himnaríki á jörð) og bara í allsherjar slökun og afslöppun..

Alma fékk sér nýja vinnu, hætti hjá Olís og fór að vinna á leikskólanum hér á Reyðarfirði.. 

Eitthvað var unnið í fjórhlauparanum en þó að hann hfai verið keyptur á vormánuðum, þá eru handtök nokkur eftir í honum til að gera hann að nothæfum fjallafara fyrir heiðarvegsfjölskylduna. Í lok þessa merka mánaðar náðist sá stórmerki áfangi að koma þessum flekkótta bíl á númer og hérumbil í gegnum skoðun, smávægilegar athugasemdir skoðunarmanns tryggðu honum aðeins grænan miða.

Í lok mánaðarinns lagði heimilisfaðirinn land undir fót og heimsótti ásamt öðru stjórnarfóki í Slysavarnarfélaginu Landsbjörg björgunarsveitir á norðurlandi vestanverðu frá Sigló til Blöndóss.. Magnað að sjá hvað allar þessar frábæru sveitir eru bara.. ja.. bara magnaðar...

Október

Var rólegur en þó ekki.. Heimilsfaðirinn skottaðist um allar koppagrundir á vegum SL ásamt því að fjórhlauparinn fékk loka yfirhalningu fyrir enduskoðunn sem hann rann að sjálfsögðu í gegnum, en ekki hvað...  Fyrstu helgi í rjúpu var eytt í Mosa sem lög gera ráð fyrir, en eitthvað var veiði heimilsföðursins rýr eða engin rjúpa.. en þó tókst honum að sigra eitt stykki tind meðan Veiðiflugustjórinn Björgvin Pálsson gekk af rjúpnastofni Hamarsdals dauðum, og kálaði þremur rjúpum... ekki slæm veiði það....

Nóvember

Byrjaði með ferðalagi Heimilisföðursins norður á Strandir með öðrum stjórnarmeðlimum Landsbjargar enn á ný...  Nýjar slóðir fyrir hann og mikil upplifun.

Annar veiðidagur í rjúpu, skilaði ekki neinu.. en rjúpnastofn Hamarsdals nýtur góðs af því hversu misskotviss Heiðarvegsbóndinn er...

Fimleikadrottningin er að ná sér á strik efitr veikindi um páska nýliðna, en eiitthvað var bratt á þeirri braut en nú er allt að lagast.. svo vel að hún var valin í hóp afreksstúlkna hjá Hetti og send íá æfingar í Garðabænum í nokkra daga, en þar er fimleikaaðstaða með því besta sem gerist á landinu.

Heimilsfólkinu fækkaði um einn í lok mánaðar, þar sem Ragnar tók hatt sinn og staf og kvaddi okkur og vinnufélaga sína hjá Alcoa, en hann náði þiem merka áfanga að verða 68 ára þann 26.

Frumburðurinn flutti aftur heim, fékk nóg af piparsveinalífinu í bili, enda hvergi betra að vera, en á hótel mömmu.

Rotþróarskipti voru framkvæmd í Mosa og nú er hægt að "gera nr.2" löglega í Mosanum og við einu skrefi nær því að klára það frábæra afdrep. 

Desember.

Tvenn jólahlaðborð, forsetakaffi, fjallaferð og fótabað á Ryðfirðingnum og annað hefðbundið desember stúss.   

Semsagt ósköp hefðbundið ár ekki neinar stórar fréttir eða breytingar..

Áramótakveðja frá okkur hér af Heiðarvegi 35 

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir.. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband