Færsluflokkur: Matur og drykkur

Nætursnarl........

Er nauðsynlegt, sérstaklega þegar maður er á næturvakt.  Var að koma af einni slíkri og er nú komin í langþráð helgarfrí.

En, aftur að nætursnarlinu.  Það rifjaðist upp fyrir mér í nótt, einn réttur sem reglulega var á borðum á mínu æskuheimili,  Bragðavöllum. 

Ég var staddur inni í kaffistofu kerskálans og leit í ísskápinn hjá þeim og fann þar frekar lítið drykkjarkyns.  Tók þó fyrir rest út úr skápnum eitt stk drykkjarjógúrt og dreypti á.  Hugsaði með mér að þetta væru nú þvílíkir snillingar hjá MS að setja svona vatns/mjólkurblandaða drykki á markað í hentugum neytendaumbúðum.

Og mér var hugsað til þess þegar ég bjó í foreldrahúsum í sveitinni góðu og slafraði svipaðan rétt sem var Skyrsúpa, þ.e. skyr þynnt út með mjólk þar til að súpustigi var náð og þetta var borðað með bestu lyst með haug af rúsínum og ávöxtum útí, og þetta var með því besta sem maður fékk.

Kanski eru snillingarnir hjá MS ekki svo miklir snillingar þegar allt kemur til alls, svipaðir réttir hafa verið á borðum landsmanna frá byrjun landnáms, bara ekki í eins hentugum umbúðum.

Skyrsúpan varð eflaust til í árdaga búsetu á Íslandi þegar hagsýnar húsmæður þurftu að láta lítið eitt duga sem lengst, og þynntu út það litla skyr sem til var í búrinu með vatni eða mjólk.

Sjálfsbjargarviðleitnin lætur ekki að sér hæða........


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband