Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Er alveg að verða Kol....

Vitlaus á þessu Kolviðarkjaftæði sem er í gangi þessa dagana.  Kolviður þetta og kolviður hitt.  Það er varla hægt að opna blað eða horfa á fjölmiðil þessa dagana nema rekast á eitthvað sem er kolefnisjafnað, ég er viss um að bændur fara bráðum að auglýsa kolefnisjafnaðar beljur, kýr gefa jú töluvert frá sér af gróðurhúsalofttegundum þó vissulega sé það ekki Co2 nema í litlu mæli.

Bílaumboð auglýsir "græna" bíla og fleira og fleira.  Það eru meira að segja uppi hugmyndir um að kolefnisjafna heilt álver við Húsavík, hvað þarf að leggja mikið landd undir skóg til að það náist og er það búið að fara í umhverfismat??

Ekki misskilja mig, ég tel þetta vera skref í rétta átt, en ég tel það ekki umhverfisvænt ef það á að fylla allar heiðar í nágrenni við Húsavík af lerki, greni eða þessháttar erlendum hríslum, það er í mínum huga ekki vistvænt eða æskilegt.

Ef það á að reyna að binda íslenska mengun, verður að gera það með íslenskum plöntum, ekki eintómum útlendingum.......


Hvernig fóru....

Fuglarnir að áður en mannskeppnan settist hér að á skerinu???

Þessi spurning kviknaði í kolli mínum þegar ég sat á Olís í dag og drakk kaffibolla og át Rommý með, og las bændablaðið.

Þar var grein eftir einhvern eflaust vel þenkjandi mann sem hafði miklar áhyggjur af því hvernig væri fyrir varpi komið á Hornströndum, þar sem allt er víst yfirfullt af tófu. 

Ég fór að velta því fyrir mér hvernig fuglar Íslands fóru að þessi 9.800.- ár sem liðu frá þvi að heimskautarefurinn settist hér að og þar til að skeggjaðir og síðhærðir norðmenn, sem samkvæmt Snorra Sturlusyni komu sunnan frá Tyrklandi og nágrenni, settu sig hér niður á skerinu og hófu hernað gegn ref.....

Kanski að þeir ágætu lundar og fleiri svartfuglar á þessum tíma hafi haft einhver ráð með að verjast ránsferðum lágfótunnar eða að hún hafi ekki sest að á Hornströndum fyrr en eftir landnám og því hafi mannskeppnan séð um að vernda varp þessara ágætu fugla frá skollanum til að eiga greiðan aðgang að eggjum fyrir sig.

Eða kannski að sögnin um það hvernig það bar til að tófan settist að á eyjunni í norðri, sé sönn og að rebbi hafi aldei athafnað sig á landi hér nema með afskiptum mannskepnunar.

Ég veit það ekki, en ég held að náttúran sjái um sig í þessu máli í það minnsta og ef að melrakkinn gengur of nærri bjargfugli þá verði einfaldlega ekki nóg af æti og því verða gotinn minni og honum fækkar.  Ef að tæfan fær ekki æti þá sveltur hún og étur jafnvel undan sér, og ég held að ekki sé þörf á því að missa mikin svefn yfir því þó að ekki megi veiða ref á Hornströndum.


Sumarið er tíminn.......

Setti kóngurinn í texta hér um árið, og rataði þar satt orð á munn.

Sumarið er tíminn þegar allt á að gerast, frí með fjölskyldunni, vinna í húsinu og lóðinni, vinna í björgunarsveitinni, ganga á sem flest fjöll veiða lunda og ferfætta grasbíta af kyni klaufdýra og fleira og fleira.

En er íslenska sumarið ekki bara allt of stutt??

Í það minnsta sé ég ekki fram á það að mér takist með góðu móti að framkvæma þetta allt nema með því að koma 32 klst í sólarhringinn og 8 dögum í vikuna, eða vona að sumarið endist fram í nóvenber.

Sumarið er tíminn......


Hef verið......

Með afbrigðum latur við að blogga undanfarnar vikur, líklega er það að mestu tilkomið vegna mikilla anna, en töluvert hefur verið í gangi hér undanfarnar vikur.

Hæst ber ferminguna hennar Ölmu en eins og venja er þá er slegið upp heljarinnar veislu til að fagna þeim tímamótum í lífi ungmennis, og hér voru rúmlega 80 manns í mat á Hvítasunnudag.  Það var þó mikill munur nú miðað við það þegar Þórarinn var fermdur fyrir 3 árum, en eins og þeir vita sem í Ásbyrgi hafa komið (gamla húsið heitir Ásbyrgi) þá eru eldhúsfermetrarnir þar ekki nema um 4, en nú eru þeir nálægt 20.

Sjómannadagurinn var með hefðbundnum hætti hér, við (björgunarsveitin Ársól) var að venju með kaffi í Þórðarbúð, en þetta árið sáu unglingarnir okkar um herlegheitin og eru þau með því að safna sér fyrir ferð á Gufuskála í sumar.  Þar var plássið líka heldur meira en venja er til en við héldum kaffið í nýja húsinu sem nú er búið að loka.

Síðan fór síðasta helgi í fjáröflun fyrir sveitina, en við sáum um gæslu á opnunarhátíðinni sem fram fór síðustu helgi.  Og þvílíkur snilldardagur laugardagurinn var, blankalogn og sól, iðandi mannlíf um allan bæ, og tónleikar uppi í Fjarðabyggðarhöllinni sem jöfnuðust á við það besta sem gert hefur verið hér á skerinu í soundi, allt saman tær snilld.

Og ofan á þetta allt þá er vinnan eins og venjulega að slíta sundur fyrir manni frítíman, og því hefur ekki verið mikið um það að lykli sé slegið niður hér á þessum vettvangi en nú ætla ég að reyna að bæta mig, vonandi einhverjum til ánægju og sem fæstum til leiðinda.

Ég afrekaði það þó um daginn að skella fleiri myndum inn á myndasíðuna mína undir "fleiri myndir" en það voru allt myndir úr starfi björgunarsveitarinnar undanfarin ár.  Ég mun einnig setja inn myndir frá opnunarhátíðinni og úr fermingu Ölmu fljótlega....

KvER


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband