Ys og þys........

Rauður stóll með brúnni sessu, einhver snillingur hefur víxlað sessum til að brjóta upp hefðbundið form sófa og stóla..

Gömul kona með staf stekkur áfram á hraða snigilsins með ávísuð lyf úr apótekinu í þeirri hönd sem stafnum veldur en með óávísuð "lyf" í plastpoka úr síðustu einokunarverslun Íslendinga í hinn,i sest á brúnu sessuna í rauða stólnum til að taka sér hlé á göngunni. Tvær ungar stúlkur með ís í boxiog Body Shop poka á armi rölta hjá og stinga saman nefjum.. Máski eru þær að velta sínum ófarna veg fyrir sér og hvort öng.- og breiðstræti lífsins muni leiða þær að ávísuðum eða óávísuðum lyfjum í poka og mislitt sæti á förnum vegi eða eru þær að tala um ungan hávaxinn mann með konu sér við hlið og kornabarn í kerru... hann hefur klárlega ekki efni á rakvélarblöðum eða er hann kannski bara svona "lömbersex"?... Það er nú móðins þessa dagana, ekkert að því..

Brunaliðið er spilað í útvarpinu "mangó íste og súkkulaði með rjóma!!!" hrópar kaffiþjónninn og kveikir á háværu tæki sem væntanlega býr til eitthvað sem ljúflega rennur niður með dagsgömlum og snjáðum mogganum sem hefur greinilega farið í gegnum fjölmargar mislúnar hendur kaffiþyrstra kaffihúsagesta.

Blaðið er eins og maður sem á sín bestu ár að baki fullir af fróðleik liðinna ára en á kannski síður tækifæri á því að standa jafnfætis við baklýsta unga drengi með örgjörva, nettengingu og stútfullir af fróðleik sem gerist í núinu og hefur líka möguleikann á því að fletta uppí fortíðinni.

Fyrir utan fellur jólasnjórinn á sinni fyrstu og einu för milli fæðingarstaðar síns og malbiksins, sem hann hylur og gleður eina örskotsstund börnin sem ganga með mæðrum og feðrum sínum á leið sinni í útrýmingarbúðir jólagjafalista, áður en hann verður að gráu, köldu krapi undir togleðurshringjum reiðhjóla og bifreiða og hverfur að lokum niður í undirheima holræsakerfis borgarinnar, í fljótandi formi, dragandi með sér sót og hálfreykta stubba og laufblöð sem féllu til jarðar þegar vetur konungur gekk í garð og blés burt blautu sumrinu sem engin saknaði..


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband