26.5.2010 | 11:12
Í aðdraganda kosninga.
Hjá mér bærast blendnar tilfinningar varðandi ný afstaðna skoðanakönnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins, mér finnst hlutur okkar Frammara heldur rýr, get ekki sagt annað.
En hvað á maður að segja, komandi ár verða rýr í framkvæmdum, og það má jafnvel búast við (og reyndar nokkuð öruggt) að það þurfi á einhvern hátt hagræða og spara og draga saman í rekstri, og því alveg ljóst að næsta bæjarstjórn stendur ekki beinlínis með pálmann í höndunum, heldur erfið og krefjandi verkefni næstu árin.
Skuldir eru miklar og halli á rekstri sveitarfélagsins, og því verður að taka á.
Ef maður les það sem frá listunum hefur komið (og reynir að horfa á það hlutlaust) er þetta allt á svipuðum nótum, lítið um loforð um framkvæmdir, kröfur eru gerðar á ríkið um ákveðnar samgöngubætur og allir vilja verja grunnþjónustu sveitarfélagsins.
Þannig að ekki geta þessar kosningar snúist um áherslurnar, þær eru þær sömu heilt yfir. Um hvað snýst þetta þá??
Snýst þetta þá ekki um að velja fólk, fólk sem tilbúið er til þess að taka á þessum málum, fólk með reynslu til að mæta þessu verkefni??
Allir listar hafa frambærilegt fólk með ýmiskonar bakgrunn, en ef horft er á 3 efstu sæti þá vil ég nú meina að reynslan sé mest hjá okkur, næstir koma Sjálfstæðismenn, og lestina rekur Fjarðalistinn. Reynsla er reyndar ekki allt, en hún vigtar þeim mun meira eftir því sem verkefnin eru meira krefjandi og það eru þau svo sannarlega.
Ég er í það minnsta tilbúinn fyrir mitt leyti til að takast á við þetta umfangsmikla og erfiða verkefni, ég er ekki feiminn við að tala um hlutina eins og þeir eru ég vil frekar að menn hafi opin og hreinskilin samskipti innan bæjarstjórnar og utan og að okkar fólk (íbúar Fjarðabyggðar) veiti okkur allt það aðhald sem þeim finnst þurfa.
Það er líka nauðsynlegt fyrir þá sem gegna því hlutverki að vera í forsvari fyrir bæjarfélag að þeir séu sannsöglir og að þeir geti unnið úr sínum ágreiningi innan bæjarstjórnar og utan án þess að draga inn í það persónur viðkomandi Bæjarfulltrúa, starfsmann eða bæjarbúa. Ef rétt er haldið á málum á það ekki að vera vandamál að aðskilja málefnin frá mönnunum og það er mjög mikilvægt, að persónuárásir og rangfærslur séu ekki viðhafðar þegar slegnar eru pólitískar keilur.
Þessi ágæta könnun sem birtist núna í morgun er vísbending en ekki neinn stóri dómur í þessu máli, en verði þetta niðurstaðan þá gefur það augaleið að ekki verð ég sáttur. Ég hefði talið að okkar hlutur ætti að vera stærri eða sem næmi um 34% hið minnsta, miðað við reynsluna og fólkið sem stendur á bakvið listann.
Ég hef núna í aðdraganda kosninga stundum sagt að mitt höfuð sé að veði, að ég muni hætta að skipta mér af bæjarmálum nái ég ekki kjöri og þá ekki til að trekkja að fleiri atkvæði því eflaust eru einhverjir sem vilja gjarnan sjá mig hverfa úr þessum geira. Allar opinberar persónur eru umdeildar, og þar er ég örugglega ekki undanskilinn. Menn verða einfaldlega að þekkja sinn vitjunartíma og þar sem ég er búinn að vera í þessu í 12 ár hér í Fjarðabyggð, má segja að það sé jafnvel orðið gott, þó svo að ég hafi látið eitthvað gott af mér leiða. Kosningar eiga nefnilega ekki síður að snúast um 2, 3 og 4 sæti, en um 1. sætið, oddvitarnir eru jú ekki einir í framboði.
Við verðum að bíða og sjá, ég hef reyndar trú á því að við náum 3 mönnum inn og eigum stutt í þann 4 en ef þetta fer svona verður maður að sjálfsögðu að hugsa sinn gang og reyna að átta sig á því hvaða skilaboð er verið senda.
En að lokum, vil ég að sjálfsögðu hvetja alla til að styðja Framsókn og ég ætla að bæta við, þó svo að það sé ekki hefðbundið, að frekar en að kjósa ekki þá skili menn auðu eða setji sitt atkvæði við einn af þeim þremur listum sem í boði eru, en á kjörstað eiga menn skilyrðislaust að mæta.
Góðar stundir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ágætis skrif hjá þér Eiður. Tek undir það að það eru ekki bara efstu menn listans sem skipta máli, það er listinn allur og allt það fólk sem gefur kost á sér til ólaunaðra starfa fyrir sveitarfélagið. Mér þykir miður að ekki fleri konur gefa kosta á sér til starfa fyrir Framsókn og Sjálfstæðisflokkinn, það hlýtur að vera krafa allra hugsandi manna og kvenna að staða kynjana sé sem jöfnust. Ég vil samt segja að mér finnst kynið ekki skipta mestu máli, það eru hæfileikar, vilji og þekking sem skiptir máli.
Hulda Elma Guðmundsdóttir, 27.5.2010 kl. 13:06
Takk fyrir það Elma.
Ég er á því að allir sem gefa kost á sér í þetta eigi hrós skilið (ekki af því að ég geri það sjálfur) því að það er leitunn að vanþakklátara starfi. Einnig eru laun lítil sem engin og því vandséð hvað það er sem fær fólk til að fara útí svonalagað.
Fyrir mína parta þá snýst þetta um að reyna að láta gott af sér leiða, það tekst að sjálfsögðu misvel og öll mannana verk orka tvímælis þá unnin eru og oft er gagnrýni sú sem sveitarstjórnarmenn fá á sig bæði óréttmæt og rætinn sem og að hrós fyrir það sem vel er gert er ákaflega sjaldgæft.
Það er alveg ljóst að fólk í þessari stöðu verður alltaf umdeilt, allir hafa skoðanir á því hvernig á að gera ýmsa hluti og oft eru menn ekki sammála um leiðir eða aðgerðir og detta því í þann gír að draga fyrir dómstóla götunar fólk, sem er einungis að vinna eftir sinni bestu samvisku verk sem þarf að vinna, mis vinsæl.
Mín verk sem og annara hafa eflaust verið gagnýnd og þannig mun það alltaf vera og þau eiga að vera það, engin er hafin yfir gagnsýni, en mín reynsla er sú að maður á einfaldlega að tala um hlutina eins og þeir eru ekki reyna að segja það sem fólk vill heyra, heldur bara það sem þú ert sannfærður um að sé rétt. Það er farsællegast til lengri tíma og ef horft er í söguna eru það slíkir stjórnmálamenn sem standa uppúr, sumar ákvarðanir þeirra eru ekki endilegar vinsælar og eru gagnrýndar en það er þó á hreinu hvar menn standa.
Síðan leggja menn verkin í dóm á 4 ára fresti og uppskera misjafnlega, en ef að allir hefðu þetta að leiðarljósi þá væri uppskeran yfirleitt eftir efnum.
Ég benti á það að í framboði nú væri markskonar fólk með markonar reynslu og það er engin ein menntun eða reynsla sem hentar til þessarar vinnu og því er nauðsynlegt að hópurinn sem sest í bæjarstjórn sé fjölbreyttur, samansettur af konum jafnt sem körlum, með menntun af ýmsu tagi og reynslu af ýmsu tagi. Það er hinsvegar rétt hjá þér að það er í raun áhyggjuefni hversu erfitt það er að fá konur til að taka þetta að sér, og hversu stutt margar þeirra staldra við. Hvað við getum gert til að breyta því veit ég ekki, en það þarf að reyna það á einhvern hátt.
En miðað við skoðanakönnunina sem kynnt var á Stöð 2 verður hlutur kvenna viðunandi, 3 konur með ýmiskonar reynslu og bakgrunn setjast þá í Bæjarstjórn. Sama hlutfall helst þó að niðurstaðan verði 3 menn á hvern lista og því vona ég að við framsóknarmenn fáum aðeins meira í okkar hlut.
Góðar stundir.
Eiður Ragnarsson, 28.5.2010 kl. 01:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.