2.10.2010 | 15:38
Ég velti því fyrir mér...
Hver tilhneigingin er hjá fólki með að setja alla undir sama hatt.... Flest fólk fellur í þessa gryfju þegar það talar um "þá þessa vitleysinga" eða "þessir glæpamenn" eða bara um alla hópa fólks almennt.
Stjórnmálamenn eru allir eins, lögreglumenn eru allir eins, mótmælendur eru allir eins, bændur eru allir eins, verkamenn, útgerðarmenn eru allir eins og svona mætti lengi telja.
Það fer reyndar aðeins eftir því hver skrifar eða talar hvort að þessir hópar manna eru "góðir" eða "vondir"
Við eigum að vita betur, það eru misjafnir sauðir í öllu fé, og því á ekki að alhæfa um hópa fólks, innan raða flestra stétta og þjóðfélagshópa eru bæði "vont" og "gott" fólk.
Önnur tilhneiging sem er af svipuðum toga er það sem stundum hefur verið kallað "evil empire syndrome" en það er þegar eitthver eða eitthvað verður það stórt og áberandi að allir vilja beina skotpónum að því.
Þetta er sérstaklega algengt um stórfyrirtæki, og það er helst að skilja að fólk álíti að stórfyrirtæki af þessu tagi hafi sjálfstætt líf og sjálfstæðan vilja, en við vitum vel að það er ekki svo. Fyrirtæki hvort sem þau eru stór eða smá eru ekkert meira eða minna en fólkið sem í þeim starfar, fyrirtæki taka ekki slæmar eða vondar ákvarðanir, það er fólkið sem í þeim vinnur sem gerir það, fyrirtæki eru ekki "vond" eða "góð" það er hinsvegar fólkið sem í þeim vinnur.
Ég hef oft velt þessu fyrir mér, þegar samkeppnisstofnun er að sekta fyrirtæki vegna samráðs, eða fyrirtæki eru lögsótt vegna vanrækslu í hinum ýmsu málum. Er það rétt?? Á ekki að sækja til saka þá menn og konur sem tóku ákvörðun um að gera hlutina á rangan hátt?? Fyrirtækið getur ekki dregið lærdóm af dómi, en mannfólkið á að geta gert það, séu menn ekki siðblindir eða samviskulausir.
Dæmi eru um það að fyrirtæki greiði himinháar sektir, en þeir sem tóku hina röngu eða ólöglegu ákvörðun, sitja áfram við stjórnvölin hjá viðkomandi aðila eins og ekkert hafi í skorist...
Spáið aðeins í þetta....
Eitt atriði enn af svipuðum toga er tilhneiging að halda því fram að stjórnmálaflokkar séu lífverur með sjálfstæða hugsun. En því er á sama veg háttað þar sem annarsstaðar að það er fólkið í flokknum sem ber ábyrgð á stefnu hans og ákvörðunum ekki "flokkurinn" sem slíkur.
Þessi umræða hefur átt við um alla flokka og fólki á götunni sem og aðrir málsmetandi menn eru oft duglegir við að tala um þessa hluti. Ég hef sjálfur fallið í þessa gryfju, talað um Vistri Græna, Sjálfstæðismenn og alla aðra flokka á þennan hátt, en ég á að vita betur flokkarnir eru ekki sjálfstæðar lífverur, með horn og hala eða englavængi, það er fólkið í þeim sem markar stefnuna og þeir sem í forsvari eru eiga að fylgja þeirri stefnu, stefnu landsþings sem er í öllum tilvikum held ég æðsta vald flokkana.
Því mætti til dæmis tína til, hvaða samþykktir Landsþings Vinstri Grænna Steingrímur er búinn að brjóta, en ef minni mitt svíkur mig ekki var ályktað þar um að EKKI ætti einu sinni að skoða það að sækja um ESB aðild.
Einnig væri fróðlegt að fara yfir það hversu margir ráðherrar og þingmenn hafa í gegnum tíðina brotið gegn samþykktum landsþings síns flokks, og komist upp með það, en það eru fjöldamörg dæmi um það hjá öllum flokkum hygg ég.
Og þá erum við komin að þeim vangaveltum sem urðu kveikjan að þessum pistli, en það er hversu slöpp við höfum verið í gegnum tíðina, við sem höfum lagt það á okkur að eyða frítíma okkar í pólitík, að vera gagnrýnin, og beitt þegar kemur að því að líta um öxl og skoða hvað hefur verið að gerast í starfi viðkomandi flokks og hvort að það stenst skoðun, og láta þá forsvarsmenn sæta ábyrgð...
Ef að gagnrýnin hugsun og þor og dugur við að gagnrýna eigin forustu hefði verið meiri þá værum við mjög líklega ekki jafn illa stödd og raun ber vitni.
Því ætla ég að hvetja alla þá sem eru áhugapólitíkusar eins og ég að lesa nú yfir samþykktir eigin flokksþinga og bera saman orð og gjörðir, áður en kemur að næsta þingi og vera tilbúin til að standa upp og láta í sér heyra almennilega á þeim vettvangi sem marka á stefnu viðkomandi flokks. Taka í stjórnartaumana en ekki lára teyma sig áfram, eins og við höfum verið alltof dugleg við að gera undanfarin ár.
Þetta er að því ég hygg eina raunhæfa leiðin til að breyta þjóðfélaginu, breyta flokkunum breyta vinnubrögðunum, og breyta okkur til hins betra.
Það er alvega sama hvort að flokkurinn heitir Framsókn eða Besti, ef að ekki er unnið uppbyggingarstarf innan frá þá ganga hlutirnir einfaldlega ekki upp til lengdar ef menn temja sér ekki gagnrýna hugsun og beita henni með rökum á vettvangi flokkana.
Það er líka alveg sama hvort að flokkarnir eru 2 eða 4 á þingi ef að vinnubrögðin innan þeirra eru eins og þau hafa verið hjá okkur undanfarin ár.
Það er alveg sama hvort að við erum "hægri" eða "Vinstri" menn og konur, þetta á við um alla sem á annað borð taka þátt í pólitísku starfi.
Gagnrýni = Rýna til gagns.
Góðar stundir..
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er alveg sammála þér.... nema þetta með "vinnstrimenn".... þeir eru allir eins, glataðir.
Gunnar Th. Gunnarsson, 3.10.2010 kl. 11:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.