101.339.-

Heimsóknir á fimm árum.. en það eru fimm ár í dag frá því að ég fór að tjá mig hér á þessum vettvangi...

Í fyrstu átti þetta að snúast fyrst og fremst um pólitík, vangaveltur af minni hálfu um málefni þess vattvangs, en fljótlega var þetta frekar útrás fyrir mínar skoðanir á málefnum líðandi stundar. 

Yfirleitt hefur mér tekist (að eigin mati) að vera nokkuð málefnalegur í mínum skrifum hér inni, oftast hefur mér tekist að vera ekki með sleggjudóma eða skítakast, þó að stundum hafi nú ekki verið mikill afgangur í skrifunum og eflaust hef ég einhvern tímann vegið að einhverjum eða í það minnsta nær  en ég hefði átt að gera.

En hvað um það, ég reyni þó í það minnsta að setja mig í spor þeirra sem ég hef hér fjallað um, og reynt að sjá málin frá fleiri en einni hlið og sjálfsagt hefur það gengið misvel og misjafnt er augað sem les eins og allir vita.  Ég hef ekki legið á mínum skoðunum og stundum hlotið bágt fyrir, en hvernig má það vera öðruvísi?? Við getum aldrei öll orðið sammála um alla hluti.

Reyndar hefur þessi vettvangur vikið að hluta til fyrir hinni alræmdu fésbók, en sumir nota þennan vettvang meira í dag til ítarlegri vangaveltna en bókin þá, svona meira innihald en magn og aðeins meiri vinna sett í það sem pistlast hér inn..  Í það minnsta er það þróunin hjá mér og mér hefur sýnst að það sé þróunin hjá flestum öðrum einnig.

Mér hefur reyndar fundist halla verulega undan fæti á netmiðlum landans undanfarin misseri.  Mjög auðvelt og aðgengilegt er í dag að setja inn athugasemdir við fréttaflutning vefmiðla, það varð auðvelt með tilkomu bloggsins, en ennþá auðveldar er það orðið nú með tengingu við alla samskiptamiðlana sem of mikið mál er að tala um hér.

En það réttlætir ekki þá leið þróun sem orðið hefur á munnsöfnuði (ef það er hægt að tala um munnsöfnuð þegar netið og lyklaborð er notað) netverja undanfarin misseri.

Orð eins og asni, vitleysingur, fábjáni og eitthvað í svipuðum dúr eru nánast orðin hrósyrði í dag miðað við margt það sem maður les í athugasemdum við fréttir netmiðlana þessa daga.  Mun verri og öfgafyllri munnsöfnuður er viðhafður um fólk sem er í skotlínu og þá má einu gilda hvort að um sé að ræða pólitíkusa eða Jón og Gunnu á götunni, ef þú ert í fréttum á einhvern hátt þá er einfaldlega drullað yfir þig af mannvitsbrekkum veraldarvefsins.  Ég leyfi mér að segja "drullað" því að það er það lýsingarorð sem kemst næst því að lýsa hvernig orðaskakið og skeytin eru orðin.

Síðast í gær fannst einum einstakling það sjálfsagt mál að kallað yrði eftir Breivikum Íslands, til að hreinsa til og taka til hendinni.  Ég veit ekki hvað viðkomandi aðila gekk til að kalla eftir því að einhver ógæfumaður með geðraskanir tæki það upp með sér að ganga berserksgang af Norskri fyrirmynd hér hjá okkur..

Er bara í lagi að segja hvað sem er í skjóli nettengingar og lyklaborðs??

Fólk sem á sér einskins ills von er skotið niður af sjálfskipuðum dómurum netsins, málefni skipta engu máli lengur, það eina sem gildir er að skjóta nógu fast á valda einstaklinga og þá telur viðkomandi sig vera að fara með faglegt og gott mál..

Hýðum þennan kjöldrögum hinn, megi þessi týnast út í hafsauga og svo framvegis eru algengari setningar en góðu hófi gegnir og manni finnst nóg um.

Ég sagði hér í mínum inngangi að ég hefði reynt að feta þann stíg að tala um málefni en ekki menn og í langflestum tilvikum hefur það tekist.  Þegar það hefur ekki tekist þá hef ég alltaf séð eftir skrifunum en ég hef ekki fjarægt neitt sem hér hefur farið inn því að ég vil að þeir fáu sem leggja leið sína hingað inn sjá hlutina eins og þeir eru. 

En hvað um það.. það er fallegur vordagur hér hjá okkur Reyðfirðingum, mætti vera aðeins hlýrra en góðir hlutir gerast hægt og áður en varir kemur sumar.

Ég óska þeim sem hingað inn nefi stinga hvort sem þeir deila mínum skoðunum eður ei, góðs sumars og vona að komandi mánuðir og ár færi þeim gæfu og gleði. 

Og að lokum vil ég minna á að aðgát skal höfð í nærveru sálar, bætum umræðuna um málefni og menn og reynum að vera málefnaleg og kurteis..

Góðar stundir...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband