3.10.2008 | 16:17
Hverjar telja menn líkurnar.....
Á því að ef að það væru komin ný göng undir Siglufjarðarskarð að það væri verið að bora frá Ólafsfirði til Siglufjarðar um Héðinsfjörð??
Þær líkur væru næsta litlar.
Ég er meðal annars þeirrar skoðunar af sömu ástæðu, ásamt fleirum að það sé óheillavænlegra fyrir framgang Samganga að leita til Héraðs fyrst, frekar en suður um Mjóafjörð og til Norfjarðar.
Um þetta var meðal annars karpað á síðasta SSA þingi sem var haldið á Djúpavogi um síðustu helgi. Eins og svo oft áður voru mestu átökin um samgöngumálin, því allir vilja betri vegi ekki satt? En nú varð reyndar ein breyting á, Samgöngunefnd SSA var falið það mikilvæga hlutverk fram að næsta þingi SSA, að setja niður framtíðarsýn um samgöngur á Austurlandi, með 3 lykilpunkta í forgrunni. Þessir 3 lykilstaðir eru, Mjóeyrarhöfn við Reyðarfjörð, Ferjuhöfnin á Seyðisfirði og flugvöllurinn á Egilsstöðum.
Þessi tillaga kom frá bæjarstjórn Fjarðabyggðar og var hún að sjálfsögðu samþykkt samhljóða, því að það er hverjum manni ljóst sem sótt hefur þing SSA að togstreitan og lætin yfir því hvar skal fyrst leggja veg hefur á köflum verið yfirgengileg og allt sem þar hefur verið samþykkt hafa verið málamiðlanir, og þær ekki verið allar mjög gáfulegar í gegnum tíðina.
En þetta er það sem að sveitarstjórnarmenn á Austurlandi áttu að gera í aðdraganda þeirra framkvæmda sem nú eru að mestu um garð gegnar, sjá fyrir sér hvaða samgöngur þyrfti til að nýta hana sem best. Aðeins tvær framkvæmdir síðustu 5 ár hafa stuðlað að þessu, Fáskrúðsfjarðargöng og vegurinn sem nú er verið að leggja um Hólmaháls.
Aðrar framkvæmdir sem hefðu þurft að koma til til að nýta þau tækifæri sem hér hafa skapast eru t.d. Berufjarðargöng, Samgöng, (öll líka tengingin til Héraðs) göng milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar og Vopnafjarðargöng. Ég nefni Vopnafjarðargöng síðast því að þrátt fyrir að farið yrði undir Hellisheiði Eystri, þá eru yfir 100km á Reyðarfjörð, og því varla hægt að segja að með göngum sé búið að draga Vopnafjörð inn á aðalatvinnusvæði Austurlands.
Ef farið yrði í þessar framkvæmdir yrði hægt að tala um Austurlandið allt sem eitt atvinnusvæði, eða í það minnsta eitt þjónustusvæði.
Við þurfum að horfa út fyrir fjallahringinn til að sjá Austurlandið allt þegar kemur að samgöngumálum, og hætta að vera bara í hlaðvarpinu heima.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:24 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Eiður!
Hjartanlega sammála síðustu setningunni! Því segi ég enn og aftur að menn voru búnir að fá yfirdrifið nógu langan tíma til að setja í almennilegan baráttugír með Seyðfirðingum og Samgöngum en tókst varla að komast í þann fyrsta. Aldrei skapaðist sú samstaða og sá drifkraftur og baráttuandi sem þarf að vera til staðar fyrir eins stórt verkefni og Samgöng. Hversu lengi áttu Seyðfirðingar að bíða eftir því? Bæjarbúar voru löngu farnir að þrýsta á aðgerðir og fannst málið hafa verið svæft. Ég lít þannig á að þessi framkvæmd geti vel verið 2. hluti af aðgerð í að tengja samgöng og finnst leiðinlegt að þessu sé stillt þannig upp að það sé til höfuðs þeirri tengingu. Eða ætla menn sér kannski ekki að fara Norfjörð-Mjóafjörð??? Ég frétti að á kynningu í álverinu um daginn hafi leiðin Eskifjörður-Hérað verið nefnd????? Einn helsti jarðganga sérfræðingur norðmanna hefur sagt að farin yrði leiðin frá Héraði í gegnum Fjarðarheiði vegna þess hvernig jarðlög liggja. Er þetta ekki spurning um hvað við ætlum að fara fram á við stjórnvöld og hvaða skilaboð við sendum til yfirvalda? Það er nú þegar hópur fólks af Austurlandi að tala þetta út af borðinu með því að lýsa því yfir að þessi samgöng verði aldrei að veruleika. Við verðum að hugsa þetta stórt til framtíðar og Íslendingar verða að hugsa jargangagerð upp á nýtt ekki í einhverjum smá skömmtun. Við hljótum að geta fundið leiðir og notað aðferðir sem aðrar þjóðir eru að nota. Ég sit nú með þér í samgöngunefnd næsta árið og við eigum eflaust eftir að gera góða hluti í þeirri nefnd og ég hlakka mikið til! Það verur örugglega líka tekist á. Og þetta með að hætta að vera bara í hlaðvarpanum heima er jú mjög góður punktur Eiður!!!
Ég þarf vonandi ekki að taka fram að hér er ég að setja fram mínar skoðanir!!!
Kv. Katrín Reynisdóttir.
Katrín Reynisdóttir (IP-tala skráð) 4.10.2008 kl. 13:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.