Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011
27.6.2011 | 10:04
Og þarna er...
Harðbannað að keyra vélsleða eftir 1. maí..!!
Í reglum um Vatnajökulsþjóðgarð er ekki heimilt að ferðast um á sleðum á þessu svæði eftir 1. maí. Er ekki alveg tilefni til að endurskoða það eitthvað, þarna er ennþá núna í dag (27. júní.) prýðis sleðasnjór.
Þetta sýnir svo óumdeild er á hversu miklnum villigötum sumt sem tengist þessum "þjóðgarði" er.
Það er ekki heil brú í þessu ágæta fólki sem þetta hefur planað...
Öskjuferðir hafnar úr Mývatnssveit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.6.2011 | 15:16
Rómantík...??
Eitt af einkennum rómantíkur í íslenskum bókmenntum eru að í stað þess að leita sér fyrirmyndar klassískri fornöld beindu menn sjónum að þjóðsögum og þjóðkvæðum. Í þeim sáu þeir ,,skáldskap þjóðarinnar" því þjóðkvæði og þjóðsögur áttu að hafa orðið til án milligöngu einstaklinga, það var þjóðin sjálf sem orti. Þetta tengist hugsunum um ,,þjóðarsálina" og snertir þjóðernisáhuga manna. Í stað alþjóðahyggju upplýsingarinnar leggja skáldin áherslu á séreinkenni þjóðanna, gerast þjóðernissinnar.
Einstaklingshyggja varð einnig ráðandi með aukinni áherslu á tilfinningarlíf, skynjun einstaklingins á umheimi sínum og sjálfstæði mannsins gagnvart skaparanum var eðlilegt að hugmyndir um mannin tækju ýmsum breytingum. Hetjudýrkun fór vaxandi og fór hún vel saman við áhuga manna á fornbókmenntunum, Íslendingasögunum og Eddukvæðunum.
Einnig vaknaði þrá eftir hinni horfnu paradís, að verða aftur ,,heill", fullkominn.
Þessi upptalning hér að ofan er langt frá því að vera tæmandi og ekki endilega kórrétt, en með því að renna í gegnum nokkrar greinar og ritgerðir um rómantík í íslenskum bókmenntum þá mátti finna m.a. þessar lýsingar. Nú ber svo við að rómantík er ekki eins mikil í bókmenntum landans, heldur er meira gert út á raunsæi í bókum samtímans, en í stað rómantíkur á blaðsíðum landans hefur þessi stefna haldið innreið sína á Alþingi Íslendinga.
Helsta birtingarmyndin þessa dagana eru hinar umdeildu strandveiðar, og má finna ákveðna samsvörun í þeim við það sem hér er sagt að ofan, en það er frelsi einstaklngsins og hetjur hafsins sem þar fá nýja skýrskotun, einstaklingurinn sem berst fyrir brauði sínu með vinnu, erfiðisvinnu og sækir björgina í greipar ægis einn og óstuddur, engum háður og Bjarts í Sumarhúsum heilkennið svífur yfir vötnum eins og dalalæða að morgni..
En hver er hin sanna rómantík í málinu ??? Sjávarbyggðirnar fyllast lífi þegar gamlir sjóhundar og trillukarlar sem vart geta gengið eftir að hafa rúntað um götur bæjarins á bílnum sínum í 20 ár, á bílnum sem þeir keyptu þegar þeir seldu útgerðarfyrirtæki bæjarins kvótan sinn jafnvel oftar en einu sinni. Gamla trillan sem þeir héldu eftir því að hún var verðlaus, er síðan gerð sjóklár með fé sem beðið hefur inn á bók, fé sem fékkst fyrir sölu kvótans og handfærum síðan dýft í sjó til að krækja í þann gula og smella honum á land.
Þær fyllast lífi þegar áhafnarmeðlimir á stærsta skipi byggðarlagsins, sannir hátekjumenn sem kaupa sér trilluhorn til að dunda sér á í frítúrum, er nú notað til að öngla upp þeim gula á handfærinn þegar ekki gefur á aflaskipinu eða einfaldlega þegar frí er og gott veður.
Þær fyllast lífi þegar opinber starfsmaður notar sumarfríið sitt til að róa á gömlum bát sem hann erfði eftir afa sinn, en afinn settist í helgan stein þegar trillukvóti varð seljanlegur og gaf barnabarni sínu bátin svo að hann gæti skotið sér svartfugla og pokaendur í soðið, en nú er sá bátur með öðrum að öngla upp tonnunum sem tryggja eiga nýliðiun í greininni. En starfsmaður hins opinbera leggur ekki vinnunni heldur notar veiðarnar til að hreinsa hugan og slaka á og þegar ekki gefur sinnir hann sinni vinnu sem áður.
Sjávarbyggðirnar fyllast lífi þegar flutningabíllinn kemur að hafnarkantinum til að tína upp fiskana sem veiddir eru, til að keyra þeim á markað í fjarlægu byggðarlagi og þaðan er fiskurinn seldur til vinnslu eða jafnvel sendur ferskur erlendis svo að þær hendur sem á honum snerta eru fáar og handtökin fá.
Vissulega má segja að þessi mynd sem hér er dregin upp sé svört, en hún er ekki jafn svört og sú mynd sem máluð hefur verið af strandveiðunum er hvít.
Vissulega eru nýjir menn að hasla sér völl í skjóli þessara laga og er það vel, en hefur einhver tekið það út hversu mikið af aflanum er landað af fólki eins og hér er lýst að ofan..??
Hefur einhver tekið það út hversu mikið af aflanum er unnið í sjávarbyggðinni sem veiðunum er ætlað styrkja ??
Hefur einhver tekið það út hver arðurinn er af veiðunum hjá þeim sem veiðarnar stunda ??
Hefur þetta kerfi yfir höfuð verið skoðað með gagnrýnum huga og það skoðað hverju það er að skila og hversu nálægt það er þeirri rómantísku mynd sem dregin var upp af þeim í upphafi ??
Mér vitanlega hefur það ekki verið gert, en það er tímabært að velta upp þessum spurningum og rýna til gangs öllum til heilla.
Góðar stundir
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)