Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Árið 2012 í stuttu máli....

 Eða kanski löngu.. þetta er allt spurning um viðmið....Wink

Janúar....
Árið byrjaði með byltu  uppi á Svínadal, en  skroppið var á sleða á nýársdag sem endaði með útkall björgunarsveitar og sjúkrabíls en áverkarnir voru minni en áhorfðist, tognun á öxl sem ætti að bæta sig af sjálfsdáðum á einhverjum vikum..  Að öðru leyti var janúar tíðindalítill nema hvað tvö blót voru sótt (eitt á Reyðó og eitt á Kongó) og voru þau bæði frábær hvort á sinn hátt og auðvitað var gist í Mosa þegar Djúpvogingar voru sóttir heim.

 

Febrúar...
Í byrjun Febrúar var hafist handa við að vinna í Mosa eldhúsinnrétting eitthvað snikkuð til og ferð klár fyrir uppsetningu en sú innrétting átti áður heima í Túngötunni á Reyðarfirði hjá þeim heiðurshjónum Björgvin og Sigrúnu... Eitthvað var skottast um koppagrundir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar slatti af stjórnarfundum og öðrum fundum sem fylgja því að vera í forsvari fyrir þetta eitt magnaðasta félag sjálfboðaliða á Íslandi...  Haldið var uppá fertugsafmæli  í kyrrþey inn í Kverkfjöllum en þangað skutluðum við bræður  (3/4 af Bragðavallabræðrunum, vantaði bara Jón) á Þorrablót Austurlandsdeildar 4x4 klúbbsins þann 26 feb. Einhverjar klippur má sjá á jútúb... http://www.youtube.com/watch?v=MHvziQLG1IQ  og http://www.youtube.com/watch?v=4YH3MQpYjw0
Frumburðurinn flutti aftur heim eftir nokkurra mánaða reynslu á leigumarkaði.. það er hvergi betra að vera vera en á hótel mömmu, en á millitíðinni ákvað Þórarinn að skreppa á „snúruna"  á Vog og Staðarfelli og er hann miklu kátari með lífið og tilveruna eftir að þeirri dvöl lauk..

Mars...
Mikið um að vera í vinnunni.. Allt að  verða klárt í nýrri Kerfóðrunarverksmiðju hjá Alcoa, nýtt hús risið og allt á fullu... Einnig var eitthvað brasað í skúrum .. og má sjá afraksturinn hér á tjúppanum.. http://www.youtube.com/watch?v=rmeZ2FL_nI4

Elsta dóttirin fjárfesti í sjálfrennireið af Volkswagen gerð og hefur hann fengið nafni Borat... En þetta staðgreiddi daman með sínu eigin reiðufé..  Ýmislegt annað á döfinni en ekkert sem þarf að nefna sérstaklega...

Apríl...
Markverðast var sennilega ferming heimasæturnar að Lindarbrekku 1 og þátttaka heimilisfólks hér í undirbúningi og framkvæmd þeirrar veislu en kjöt var kryddlagt og grillað með aðstoð næstelsta heimilismanns að Heiðarvegi 35 og lukkaðist briljant þó ég segi sjálfur frá.. Einnig skrapp sá hin sami á fjórhjóli bróður síns inn á Svínadal.. og ekki fór betur en svo að eitt stykki fjórhjól valt yfir kauða með tilheyrandi meiðslum en þó ekki alvarleg, drengurinn skreið saman á mettíma eins og oft áður þrátt fyrir brákuð rif og axlarmeiðsl..  Undirbúningur fermingar örverpisins hófst með látum með því að stofan var máluð...

Maí...
Undirbúningur fyrir fermingu Bergeyjar hélt áfram.. læri  úrbeinuð og kjúlli keyptur ásamt ýmsu öðru.... Fundarhöld hjá hinum ýmsu aðilum tímafrek, Slysó, Bæó, Esó, og sitthvað fleira..hvenær lærir maður að fara að slaka á..... ??.. Þann 27. Var stúlkan hún Bergey fermd  í mikilli vorblíðu í Hofskirkju og veisla haldin að Heiðarvegi 35 en þar mættu um 80 manns til að samfagna með fermingarbarninu og fjölskyldu...

Júní...
í byrjun mánaðarins var Kersmiðja  Alcoa Fjarðaáls  vígð með mikilli viðhöfn og fjölmargir merkilegir gestir á svæðinu..  Heimilisfrúin skellti sér til Kanada með Grunnskóla Reyðarfjarðar og var þá haldin fiskivikan mikla hér á Heiðarveginum en vegna ofnæmis frúarinnar þá er fiskur sjaldan á matseðli hér... Undirbúningur fyrir frekari vinnu í Mosa var í gangi og svo fór veiðimaður heimilisins í skotpróf og stóðst það með glans að sjálfsögðu.. allt orðið klárt þá fyrir veiðar á Rangifer Tarandus í haust... Byrjað að leggja vatn að og klóak frá Mosa..

Júlí...
Yngsti Bragðavallabróðirinn skírði son sinn Þórhall og hlotnaðist mér sá heiður að vera skírnarvottur við þá athöfn.... Að öðru leiti fór þessi ágæti mánuður í það að mestu að grafa og moka yfir og grafa meira við bústaðin Mosa, en gengið var frá vatni, og frárennsli ásamt ýmsum umhverfisbótum við þennan frábæra stað sem verður sælureitur þeirra þriggja fjölskyldna sem hann eiga þegar fram líða stundir... Í lok mánaðar var svo hið árlega hlöðupartý haldið með pompi og prakt.. en auðvitað rigndi eins og engin væri morgundagurinn.. en fram undir hlöðupartý hafði ekki rignt síðan í Maí.. Spurning um að gera þetta að einhverskonar viðskiptatækifæri.. að selja regn...  Endaði mánuðurinn á því að kíkt var í hina mætu byggð Borgarfjörð Eystri, og Bræðslan barin eyrum og fjöldi gamalla og nýrra kunningja barnir augum...Myndir má sjá hér..

Ágúst..
Byrjaði með brjálaðri blíðu og hátt í 30° hita hér á Reyðarfirði.. og auðvitað voru nánast allir komnir í vinnu þegar þetta brast á... Fyrsti í hreindýri fór fram í þoku.. og því ekkert farið.. nema í girðingarvinnu á Bragðavöllum... en það er líka ágætt...  í lok mánaðarins var skottast í Laxárdal og viðhaldi sinnt á sumarhúsi Nesjahjónanna.. En þar safnaðist öll fjölskyldan saman og skipti um járn á þaki Ás í Laxárdals... gekk það nokkuð áfallalaust.. merkilegt nokk hratt fyrir sig.. http://www.youtube.com/watch?v=fUUMwThFSZs
Í lok mánaðar var aðeins visiterað með nýjum framkvæmdarstjóra SL á Vopnafirði og víðar um austurland....

September...
Auðvitað fór einhver tími í veiði á hreindýrum og gæs..  tæpur tugur gæsa lá í valnum en eitt stykki hreindýr en það er víst ekki leyfilegt að veiða meira á eitt leyfi.. Myndir úr gæsaferð...Þó var þetta stysta veiðiferð sem sögur fara af.. farið frá Bragðavöllum um hádegi og komið með bráðina á palli Hilux bifreiðar Eiðs á Lindarbrekku rétt tímanlega til að heimta kaffi af Þórunnborgu húfreyju á Bragðavöllum..  Einnig var „rúntað" aðeins á landshlutafund á vesturlandi og vestfjörðum.. en um 1700 km lagðir að baki frá fimmtudegi til sunnudags.. eða fram á mánudagsmorgun.. sama mánudagsmorgun og stórhríð gekk yfir norðurland og færði bústofn margra bænda í kaf... Skotist í afmæli á Höfn (takk fyrir okkur Ingólfur og Kristín) og unnið aðeins í girðingum á Bragðavöllum...

Október...
Byrjaði með látum.. brunað var einn góðan dag eftir vinnu á Sauðárkrók til að sækja heitan pott sem Björgvin bróðir konunnar hafði fjárfest í.. tók þessi skreppur um 14 klst og komið var heim að morgni næsta dags og auð vitað brunað nánast beint í vinnu... Alveg merkilegir þessir „skreppir"... Skottast var á Björgun (Björgunarráðstefnu Slysavarnafélagsins) sem var mjög vegleg og metmæting en hana sóttu fjölmargir gestir og fyrirlesarar víða að úr heiminum

Nóvember....
Heilsaði með stórhríð og mikilli ofankomu hér á Reyðarfirði í það minnsta.... Ófært var hér innanbæjar og milli staða og björgunarsveitin fengin til að aðstoða við að koma fólki í vinnu út í álver...  Skottast var til Færeyja á vegum SL þar sem skrifað var undir viljayfirlýsingu varðandi samstarf björgunarsamtaka í Færeyjum og Slysavarnarfélagsins varðandi þjálfun of kennslu Færeyskra björgunarmanna... Góð ferð þar sem tekin var slatti af myndum... Þá var einnig haldið uppá það að heimilisfasti afinn hann Ragnar náði þeim merka áfanga að verða löggilt gamalmenni en hann varð 67 ára þann 26....

Desember...
Byrjað var á því á fullveldisdaginn að velja á lista Framsóknarmanna í kjördæminu og skunduðu 350 Framsóknarmenn á Mývatn og röðuðu á listann eftir kúnstarinnar reglum.. Við hjónakornin héldum loks upp á 20 ára brúðkaupsafmæli, en við giftum okkur þann 7.nóv 1992... merkilegt hvað konan er búin að þoli mig lengi... Tók ég að mér eitt stykki skötuveislu í verktöku og mættu 40 manns í bílskúrinn og borðuðu mismikið af skötu, sumir heilmikið aðrir lítið sem ekki neitt... En þetta er skötuveislan hans Björgvins og við treystum því að á næsta ári verði hún á sínum hefðbundna stað að mánagötu 11...  Jólin voru svo ósköp hefðbundin með áti og rólegheitum, matarboði í Bergholdi á jóladag... Einnig var skottast í Mosa þann 29 og gist þar eftir snilldar minningartónleika tileinkuðum minningu Jóns Ægis á Hótel Framtíð á Djúpavogi..

Margt var brallað meira þessa 12 mánuði sem tilheyrðu árinu 2012 en þetta er þó það helsta.. Það sem stendur uppúr er að Mosi er að verða vel klár til notkunar og Færeyjaferðin í lok árs var einnig mjög góð...

Einnig var tekin ákvörðun á haustmánuðum að hætta hjá Alcoa og fara í aðra vinnu, reyndar var ekki farið langt og áfram verð ég að vinna  inn á lóð Alcoa hjá fyrirtæki sem heitir Brammer.  Það er með blöndnum huga að ég kveð félaga mína og vinnufélaga hjá Alcoa eftir rúm  6 ár þar í vinnu en það var komið að ákveðnum tímamótum þar hjá mér og því komin tími á að breyta til.. Þannig að nýtt ár byrjar með nýrri vinnu og fullt af tækifærum eins og alltaf..

Gleðilegt nýtt ár gott fólk og takk fyrir það gamla... 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband