Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

Ingibjörg Ólafsdóttir

Í dag 10. des. hefði Ingibjörg, eða Imba amma eins og við barnabörn hennar kölluðum hana oft átt 88 ára afmæli.  

Mínar fyrstu minningar um ömmu úr sveitinni á Bragðavöllum, snúast sennilega um kleinur eða pönnukökur, hvort þær minningar myndu standast skoðun er svo óvíst, en einhverra hluta vegna tengi ég alltaf kleinur við Ingibjörgu, og sjaldan standast þær sem ég hef í munni hverju sinni, samanburð við bakkelsi minninganna hjá henni ömmu minni.

En hún gerði meira en að steikja kleinur.  Alltaf var hún okkur barnabörnunum og öðrum fjölskyldumeðlimum innan handar ef við þurftum á því að halda, og ef að það ætti að skilgreina orðið "ömmu" í íslenskri orðabók, þá er ég nú þeirrar skoðunar ljósmynd og lýsing á Ingibjörgu ætti þar vel við.  

Við töluðum oft um það að amma hefði áhyggjur af öllu, en þegar maður eldist og vonandi þroskast, þá verður manni ljóst að þetta eru ekki áhyggjur eins og þær ætti að skilgreina, heldur er þetta umhyggja og viljinn til að passa sitt fólk og sjá til þess að því gangi allt í haginn.  Ég held  að það hafi fátt glatt ömmu meira en þegar hún vissi að okkur börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum hennar, gengi allt í haginn.

Ein hefð í minni fjölskyldu var að hittast hjá ömmu á jóladag, þar komum við öll saman og borðuðum góðan mat, spjölluðum og spiluðum og áttum góðan dag saman.  Í seinni tíð var farið að þrengjast töluvert í stofunni í Sólgerði, en það gerði ekkert til varð einhvernvegin bara notalegra. Alltaf var maturinn og öll umgjörð til fyrirmyndar en yfirleitt talaði amma um það að þetta væru nú allt frekar lítilfjörlegt og jafnvel ómögulegt og allir sem þekktu ömmu þekka setningar eins og "ómögulegar kjötbollur" og "ómögulegar kleinur" því ekki þótti henni tilhlýðilegt að mæra eigin verk í eldhúsinu um of.

Í seinni tíð hefur skapast sú hefð að hittast líka að sumri í Hlöðunni á Bragðavöllum og að 

Ingibjörgsjálfsögðu kom amma þangað líka.  Reyndar hefur sá hópur sem þar hittist stærri skírskotun en við sem hittumst á jóladag, en ég trúi því að ömmu hafi þótt það gaman hvað við vorum samheldin og henni hafi þótt vænt um það að við héldum ástfóstri við heimaslóðirnar sem henni þótti líka mjög vænt um. 

En hann var því með öðru sniði þetta sumarið, Hlöðuhittingur okkar Bragðvellinga, en amma var kvödd með því að við ættingjar hennar vinir og afkomendur hittumst, fylgdum henni til grafar og söfnuðumst svo saman í hlöðunni á Bragðavöllum. En það einkennilega við þetta var að í fyrsta skipti í sögu Hlöðuhittings var ekki rigning, heldur blíðskaparveður og vil ég trúa því að amma hafi séð til þess að fólkið hennar fengi þau veðurskilyrði sem þau ættu skilið til að koma saman og hittast, þó svo að tilefnið og aðstæður væru aðrar en áætlað hafði verið.

Hvíl í friði Ingibjörg við söknum þín öll.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband