Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2015
20.8.2015 | 22:49
Það er nú meiri blíðan..
Eitt algengasta umræðuefni okkar Íslendinga í okkar daglega amstri er veðrið, gott efni til að brjóta ísinn þegar við ræðum við fólk á förnum vegi, gott efni til að fylla upp í vandræðalegar þagnir í samtölum okkar á milli og einhvernvegin alltaf sígilt og nothæft við öll tækifæri.
Þessi umræða á sér djúpar rætur í þjóðarsálinni, sennilega vegna þess hversu stór áhrif veðrið hefur haft á lífsafkomu okkar í gegnum tíðina, landbúnaður og sjósókn byggja afkomu sína að miklum hluta á veðri eða réttum veðurskilyrðum og mun meira áður en nú er, því tækniframfarir hafa jú vissulega létt okkur lífið og gert okkur kleyft að takast á við náttúruöflin á yfirvegaðri og auðveldari hátt en áður.
Þessi veðurumræða hefur samt gengið í töluverða endurnýjun lífdaga í gegnum samfélagsmiðlana eins og við þekkjum af umræðu síðustu ára og engin maður með mönnum nema að viðkomandi pósti í það minnsta tveimur til þremur veður stadusum á árstíð hverri, ýmist til að sýna hversu gott veðrið er eða hversu ofsafengið það er þá stundina.
Yfirleitt eru tilvitnanir og deilingar á slíkum stadusum nokkuð algengar og oft keppumst við um að toppa viðkomandi með betri myndum úr sólinni eða enn ýktari myndum af storminum sem geisar þar sem við erum stödd hverju sinni.
Eitt er þó frekar hvimleitt í þessu öllu, en það er hversu mikið við reynum að tala veðrið upp eða niður eftir því sem við á í þeirri umleitan okkar við að toppa veðurgæði eða fárviðri næsta manns. Það er nefnilega einu sinni þannig að allstaðar á landinu er stundum gott veður eða vont veður, snjóstormur eða sól, rigning eða þurkur og svo þar fram eftir götunum. Á hverjum stað er verðrið best eða verst eða í það minnsta ef maður tekur mark á öllum þeim stöðuuppfærslum sem maður les frá degi til dags á hinum ýmsu netmiðlum sett þar fram af hinu ýmsu persónum.
En hvað um það, þetta er ekki aðalmálið, aðalmálið er að það er ekki til neitt sem heitir vont veður, bara rangur klæðnaður og rangur búnaður.. Ef heitt er í veðri er ullarpeysan góða klárlega ekki rétta dressið, rétt eins og stuttbuxur flokkast seint sem nothæf flík í vetrarstormi.
Það gildir líka með veðrið eins og svo margt annað, að best er að hafa það sem hendi er næst og hugsa ekki um það sem ekki fæst og láta hverjum degi nægja sína þjáningu í veðurfarslegu tilliti rétt eins og öðru, því að þegar á öllu er á botnin hvolft þá koma góðir dagar og það koma slæmir dagar og það er akkúrat ekkert sem við gerum gert í því annað en að njóta líðandi stundar eins vel og mögulegt er.
Og annað er alveg víst.. það er alltaf.. veður..
Góðar stundir.