Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2016

Hversu áreiðanleg er sagan.. ?

Í barnaskóla var mér kennd Íslandssaga eins og hún hefur verið sögð síðustu áratugina. Einhver kall bjó á Húsavík, annar notaði hrafna til að finna skerið og síðan komu þeir bræður Ingólfur (ekki veðurguð) og Hjörleifur (ekki Guttormsson) og námu land.. Ingólfur skutlaði staurum fyrir borð og leitaði að þeim síðan (eða óviljugir sjálfboðaliðar hans öllu heldur) þar til að sprekin fundust í vík einni sem síðar var nefnd Reykjavík..

Sennilega er einhver fótur fyrir þessum sögum sem settar voru í letur einhverjum árhundruðum eftir að þær áttu að hafa gerst, en Landnáma er talin vera skrifuð fyrri hluta tólftu aldar en upprunalega bókin glataðist og voru því sögurnar endurskrifaðar af ýmsum aðilum í gegnum tíðina.

En var landnámið svona einfalt ? Kom hér bara slatti af óánægðum Normönnum, fann þetta sker og byggði það upp á örskömmum tíma, en samkvæmt þessum sömu heimildum er landið talið fullnumið um árið 930 eða um 60 árum eftir að land var fyrst numið.
Hversu líklegt er að þetta sé rétt, að hægt sé að finna land, nema það og koma upp starfhæfri stjórnskipan á þessum stutta tíma? Grímur nokkur geitskör finnur Þingvelli 930 og bingó, Alþingi verður til og landinu er skipt upp í stjórnsýslueiningar eða fjórðunga. Það kemur reyndar fram í Landnámabók að Þingvellir hafi verið teknir af eiganda sínum þegar hann var fundin sekur um morð og gerðir að almenningslandi og voru Þingvellir teknir undir þing en aðrir partar af þessari jörð nýttir til beitar og viðartekju.

Einhvernvegin finnst mér að þetta geti ekki gengið alveg upp með þessum hætti. Það var jú eitthvað lítið um vegi, internetið var ekki einu sinni hugmynd og ef þú ætlaðir að skrifa bók, þá var eins gott að eiga stórt kúabú..

Hvað ef að hér var fyrir byggð sem einfaldlega var yfirtekin af þessum sömu óánægðu Norðmönnum, er ekki sagt að sagan sé skrifuð af sigurvegurum? Að hér hafi verið fyrir allt sem þurfti til að byggja upp samfélag með innviðum sem lýst er í Landnámu og urðu hér til á mettíma samkvæmt sömu bók.

Það eru víða vísbendingar að finna í bókmenntum fyrri alda um að vitað hafi verið af tilvist eyju í norðurhöfum, t.d. ritaði Heimspekingurinn og ferðalangurinn Pytheas frá Massalia um Thule í sínum bókmenntum sem færðar voru í letur á fjórðu öld fyrir Krist. Hann minnist í bókum sínum á eyju langt í norðri, í sex daga siglingu frá Bretalandi og þar sé nótt sem bjartur dagur yfir sumarsólstöðurnar.

Ef Grískur heimspekingur gat ferðast hingað og skrifað um það, er ekki frekar líklegt að hingað hafi líka slæðst fólk í öðrum erindagjörðum á sama tíma.. ? En það voru fleiri en Pytheas sem minntust á Thule í ritum sínum, Strabo hét annar Grískur spekingur sem skráði frásagnir af eyju einni langt í norðri og minnist á útreikninga annars Grísk fræðimanns, Eratosthenes, og telur að miðað við hans útreikninga á staðsetningu þessarar eyjar (byggðir á frásögnum Pytheasar) sé hún á mörkum hins byggilega heims langt í norðri við frosið haf.

Rómverskur sagnfræðingur að nafni Tacitus lýsir því í bók sinni Agricola að það hafi verið vel vitað að Bretland væri eyja. Hann segir frá rómverskum skipum sem sigldu umhverfis Bretland, uppgvötuðu Orkneyjar og að skipverjar hafi jafnvel náð að berja eyjuna Thule augum en þeir hafi ekki farið í land því að þeir höfðu fyrirskipanir um að þessi lönd ætti ekki að kanna.

Það eru því fjölmarfar frásagnir sem minnast á slíka eyju í norðri, þó að ekki sé endilega víst að um Ísland sé að ræða, í einhverjum tilvikum gæti þetta verið Noregur eða Færeyjar en það er hinsvegar ekki víst heldur, því að þessar frásagnir eru allar frekar óljósar.

Rómverja tengingin er mér sérstaklega hugleikin, þar sem á mínum heimaslóðum hafa fundist rómverskir peningar sem rekja má aftur til ársins 300 eftir Krist. Tveir peningar fundust við Bragðavelli þar sem ég er uppalin, og þriðji bronspeningurinn frá sama tímabili fannst við Hvaldal í Lóni ekki langt frá Hamarsfirðinum. Miklar vangaveltur eru um tilurð þessara peninga og má jafnvel ímynda sér að hér hafi Rómverjar haft vetursetu eða komið hér við í könnunarleiðöngrum um norðurhöf.

Aðrir telja að þessir peningar séu einfaldlega tilkomnir úr sjóðum víkinga en þekkt er að mynt slegin á hinum ýmsu tímum er notuð áfram vegna verðgildis þeirra málma sem í henni eru. Það sem mælir þó helst gegn þeirri kenningu er að slíkar myntir hafa ekki fundist í víkingasjóðum sem grafnir hafa verið upp á norðurlöndum og annarsstaðar þar sem bæi víkinga hefur verið að finna.

Einnig hafa fundist hér 2 silfurpeningar frá tímum Rómverja en líklegra þykir þó að þeir peningar hafi verið hluti af sjóðum verslunarmanna í gegnum aldirnar mun frekar en koparpeningarnir 4 sem fundist hafa, en fjórði koparpeningurinn af sama tagi fannst í Hvítárholti í hreppum eftir miðja síðustu öld. Var hér kannski blómleg byggð þegar Ingólfur og aðrir norrænir menn komu hér fyrst.. ??

Yfirtóku þeir land sem þegar var numið og var Landnámabók skrifuð af afkomendum þeirra til að færa í stíl hina raunverulegu yfirtöku Norrænna manna, á byggð í eynni við heimskautsbauginn.. ?

Bent hefur verið á að genamengi kvenna og karla á Íslandi megi rekja í sitthvora áttina, meirihluti kvenna eiga ættir sínar að rekja til Bretlandseyja en karlar til Norðurlanda og hefur það verið tengt ránsferðum og strandhöggi íslenskra víkinga og til eru sagnir um slíkt, en gæti ekki einnig verið að landtökumenn af norrænu bergi brotnir hafi tekið hér fullnumið land með valdi, fellt karlmenn og haldið konum þeirra og bústofni sem herfangi í hinu nýja landi.. ?

Kannskier slík landnámssaga ekki sveipuð jafn mikilli rómantík og sú sem kennd hefur verið í gegnum árin og eru þetta líka bara getgátur byggðar á engu nema hugmyndaflugi þess sem þetta skrifar, en engu að síður vel mögulegt á þeim tímum sem land á að hafa verið numið hér.

Við skulum heldur ekki gleyma sögnum af kristnum mönnum sem áttu að hafa verið hér fyrir landnám og eru örnefni hér sem benda til þess þó svo að örnefni sé engin sönnun fyrir tilvist þessara einsetumanna sem kallaðir voru Papar.. Það kannast allir við setninguna um skóginn milli fjalls og fjöru úr Landnámabók, en í þessari sömu setningu er minnst á kristna menn sem hér voru, kallaðir Papar og að þeir hafi farið af landi brott því ekki vildu þeir vera innan um hina heiðnu normenn.

Eitt er víst að við þessum vangaveltum fáum við ekki nein gild svör en þær eru engu að síður stórskemmtilegar.

Eða það finnst mér í það minnsta..

Góðar stundir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband