28.4.2010 | 00:10
Spurning...
Hvað þetta heldur lengi áfram, það eru fordæmi fyrir því að það geti gosið ansi lengi úr þessari eldstöð sem og öðrum íslenskum.
Munar þó miklu um það hversu mikið gjóskufallið hefur minkað eftir að gosið náði sér uppúr ísnum að hluta og ef þetta verður hreint hraungos þá minka vandræðin sem af því hljótast.
Það verður þó ekki horft fram hjá því hversu miklar búsifjar íbúar undir Eyjafjöllum og þjóðarbúið allt hefur hlotið af þessu, en vonandi kemur ekki annað og öflugra gos í kjölfarið hjá nágrannanum Kötlu, en þó að það séu fordæmi fyrir því þá eru jú fleiri fordæmi þess að Eyjafjallajökull einn og sér gjósi án þess að Katla fylgi í kjölfarið.
Ég verð þó að segja það að orð Óla forseta eru í raun orð í tíma töluð því að allar okkar varúðarráðstafanir hafa snúist um rýmingu og bjargir á okkar fólki á hamfarasvæðunum en ekki hafði verið mikið horft í hluti eins og flugsamgöngur í allri Evrópu og víðar í þessu samhengi, en stæra gos frá Kötlu myndi hafa mun alvarlegri áhrif en þetta gos er nú búið að hafa og því ættu menn nú að hugsa í það minnsta eitthvað um úrræði ef hér yrði flugsamgangalaust í einhverjar vikur jafnvel komi til öflugs gos í Kötlu.
Einnig eru aðrar öflugar eldstöðvar sem gætu haft jafnslæm áhrif, s.s. Öræfajökull og Bárðarbunga en þessar stöðvar hafa verið mun rólegri í gegnum tíðina en eru samt virkar og gætu skotið ösku upp í himinhvolfin með líkum hætti og Eyjafjallajökull hefur gert, og gos í Bárðarbungu hafa verið öflug þó ekki hafi þar gosið á sögulegum tíma.
Jarðfræðingar hafa jafnvel talið að Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi hafi myndast í hamfarahlaupi við gos í Bárðarbungu en gljúfrin eru það gömul að sennilega hefur verið til staðar meiri ís en nú er. Stærsta hraun landsins og reyndar á jörðinni úr einu gosi á nútíma er ættað úr Bárðarbungu, en það er Þjórsárhraunið sem varð til í gosi í Bárðarbungu fyrir 8500 árum. Rann það ofan af hálendinu vestan við Bárðarbungu, og í sjó fram milli Ölfusár og Þjórsár. er það talið vera um 30 rúmkílómetrar og 950 ferkílómetrar, til samanburðar þá er Skaftárhraun það stærsta sem runnið hefur á sögulegum tíma á jörðinni "einungis" 12 rúmkílómetrar og um 500 ferkílómetrar.
Það er því ljóst að það sem við höfum upplifað af gosum hér á skerinu síðustu vikur er í raun bara sýnishorn af því sem getur hér gerst, en það ber auðvitað að hafa í huga að þessi stóru gos eru með löngu millibili og því ekki líklegt að við upplifum svona stærstu "sort" en þó má búast við einhverju stærra en því sem við höfum nú séð.
Fleiri svæði eru "komin á tíma" og sennilega eru þeirra hættulegust svæðin á Reykjanesi þ.e. Trölladyngja, Brennisteinsfjöll og Reykjaneskerfi, en síðustu staðfestu gos urðu fyrir um 700 árum, en venjuleg virkni í þessum kerfum er að öflugar goshrinur hafa komið á um 800 til 1000 ára fresti, og því má segja að þar sé kominn tími á gos þó svo að ansi mörg ár geti liðið áður en nokkuð gerist.
Engin merki um goslok | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:20 | Facebook
Athugasemdir
Hvað ertu að blanda Eyjabakkajökkli í þetta, er ekki gosið í Eyjafjallajökkli?
Hafliði Hinriksson, 28.4.2010 kl. 17:30
Það var s.s. auðvitað að ég þyrfti að gera vitleysu í þessum pistli... sýnir að maður á ekki að blogga seint að kveldi... þegar athyglin er byrjuð að gefa sig..
Eiður Ragnarsson, 28.4.2010 kl. 23:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.