Helgi Garðarsson In memoriam...

Mín fyrsta minning um Helga er sennilega þegar ég spurðist fyrir um vinnu hjá honum þegar hann var sláturhússtjóri á Djúpavogi.  Örugglega hafa leiðir okkar þó legið mun fyrr saman, sennilega strax í barnæsku minni, þó að mitt minni nái ekki yfir það, enda gæti verið að heimasæturnar í Stekkatúni hafi verið eftirminnilegri en heimilisfaðirinn og það trufli minni mans eitthvað.

Kátt var oft á hjalla í sláturhúsinu og mikið fjör og sennilega þætti mönnum nóg um í dag, en tíðarandinn var annar þarna og sprell og hrekkir voru daglegt brauð og oft var Helgi miðdepillinn í þeim leik.  Eflaust eru þeir nokkuð margir sem gætu rifjað upp gamansamar sögur af þeim vettvangi, margar og góðar þó að ég kunni fáar.

Seinna vann ég með Helga við landanir úr togurum á Djúpavogi, en í þá tíð sáu Álftfirðingar um allar landanir og var það ekki sjálfgefið að í þetta gengi kæmist maður, en ég fékk þar inngöngu, sennilega fyrir gott orð foreldra minna, "einungis til reynslu, ég er ekki viss um að svona horrengla valdi þessu" svo ég noti hans orð.

Fékk ég þó að halda áfram enda var manni í mun um að sýna að maður stæði sína plikt.  Það var svipað þarna og annarsstaðar þar sem Helgi var mikil kátína og léttleiki út í eitt í þessu gengi.

Bestu minningar mínar um Helga eru þó sennilega af tvennum vettvangi, en það var úr stuttri veru minni um borð í Sunnutindi, og af smalamennsku inni í Hamarsdal.  

Fáa túra fór ég á sjó en alla túrana fór ég með Helga og var það ágæt blanda af gamni og alvöru, en alltaf var stutt í grínið en þar sem það skipti máli, var Helgi oft betri kennari en margur annar.

Smalamennskan inn í Hamarsdal var þó sennilega eftirminnilegust, en Helgi unni sér vel inni í dölumunum inn af Hamars og Álftafirði,  í góðra vina hópi.

Sigurborg, Helena, Helga og Jökull, ég votta ykkur og ykkar fjölskyldum mína dýpstu samúð.  

Hvíl í friði Helgi Garðarsson

Helgi Garðarsson

 

Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni
veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljóss
lát náð þína skína svo blíða.
Minn styrkur þú ert, mín lífsins rós
tak burt minn myrka kvíða.
Þú vekur hann með sól að morgni
þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól
lýsa upp sorgmætt hjarta.
Hjá þér ég finn frið og skjól.
Láttu svo ljósið þitt bjarta
vekja hann með sól að morgni
vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál
svala líknarhönd. 
Og slökk þú hjartans harmabál
slít sundur dauðans bönd.
Svo vaknar hann með sól að morgni
svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma. 
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma. 
Svo vöknum við með sól að morgni 
svo vöknum við með sól að morgni.

Svo vöknum við með sól að morgni
svo vöknum við með sól að morgni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband