Hvar skal lenda..??

Mikil og tilfinningaþrungin umræða hefur átt sér stað á vefmiðlum og víðar um Stóra flugvallarmálið og sitt sýnist hverjum. Núverandi yfirvöld í Höfuðborg okkar róa að því með öllum tiltækum ráðum að koma vellinum fyrir kattarnef, hann er fyrir og skal víkja.

Það hefur verið rætt að taka skipulagsvaldið af Höfuðborginni hvað varðarflugvallarsvæðið til að tryggja að þessi bráðnauðsynlega þjónusta verði áfram til staðar. Ég get vel skilið rök þeirra sem leggja það til að svo verði gert, það eru mörg rök sem mæla með því að í tilvikum sem þessum sé skipulagsvaldið, að minnsta kosti að hluta hjá ríki en ekki borg.

Ég get líka skilið borgarfulltrúa í víkinni við sundin að þeim finnist þetta arfavitlaust og vanhugsað og séu algerlega á öndverðum meiði við þessa hugmynd. En hvað á að gera.. ?? Það er ljóst í mínum huga að það verður ekki gerður annar flugvöllur í nágrenni Reykjavíkur, það kostar einfaldlega meiri fjármuni en við eigum til að eyða í slíka framkvæmd. Það er ljóst að verði ekki flogið til Reykjavíkur þá verður einungis einn valkostur uppi á borðum og það er Keflavíkurflugvöllur með sínum kostum og göllum.

Því hefur t.d verið kastað fram að það auki kostnað við millilandaflug til Íslands að fjarlægja Vatnsmýrarvöll, því að þá séu varaflugvellir í meiri fjarlægð.. Hefur það verið skoðað.. ??

Því fylgja ákveðnir kostir að hafa allt flug á einum stað (Keflavík) með tilliti til tenginga innanlands og flæði ferðamanna um ástkæra Ísafold.. Hefur það verið metið.?

Það er líka ljóst að staðsetning flugvallararins á þeim stað sem nú er hefur jákvæða kosti varðandi sjúkraflug og flutning á sjúkum til Höfuðborgarinnar. Fjölmörg störf eru í dag á flugvellinum sjálfum og hjá fyrirtækjum sem eru tengd fluginu og þau munu væntanlega færast og jafnvel tapast vegna samlegðaráhrifa sem eru væntanlega einhver við svona flutning, hefur það verið skoðað.?

Er ekki nauðsynlegt að kippa þessari umræðu upp úr skotgröfum og meta kosti og galla beggja valmöguleika?

Mér finnst í það minnsta nauðsynlegt áður en eitthvað annað kemur í Vatnsmýrina, þurfi að komast niðurstaða í málið, því að ekki er hægt að búa við það að flugvellinum sé bara smátt og smátt lokað áður en nokkuð hefur verið ákveðið um framhaldið.. Það er ekki ásættanlegt og það eru ekki fagleg vinnubrögð og eru núverandi borgaryfirvöldum til mikils vansa.

Ég er því fylgjandi að völlurinn verði áfram þar sem hann er því að það tel ég vera sú niðurstaða sem er best öryggis og samgöngulega séð fyrir okkur sem notum þennan flugvöll, og þá þjónustu sem að honum tengist, reglulega.

Verði hinsvegar á einhverjum tímapunkti ákveðið að hann skuli víkja þá er það algjör lágmarkskrafa að það sé ljóst hvað skal í staðinn koma, en ekki bara óljósar vangaveltur um möguleg flugvallarstæði hér og þar, ásamt þeim möguleika á því að allt fari þetta á heiðar Reykjanesskagans með millilandafluginu okkar.

Góðar stundir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband