10.4.2008 | 12:40
Móðursýki fjölmiðla
Töluvert hefur borið á því undanfarið að fjölmiðlar hafi dregið upp svarta mynd af því sem hér er að gerast á austurlandi varðandi íbúaþróun. Austurglugginn hefur tæpt á því, Morgunblaðið einnig og líka Fréttablaðið.
Það þykir víst stórfrétt að austfirðingum hefur ekki fjölgað um fleiri þúsund eftir álver.
En skoðum nú málið aðeins.
Nú eru liðin tæp fjögur ár frá fyrstu skóflustungu að þessum stóra vinnustað hér á Reyðarfirði, og bábiljan um að hér myndi fjölga í veldisvís, og það líklega í sömu viku og valgerður stakk krómaðri skóflunni í undirbúna jörð. Væntingar voru gríðarlegar og verktakar og einstaklingar stukku af stað með offorsi og látum til að byggja yfir allan þann lýð sem hingað myndi flæmast til að vinna í álverinu og tengdum fyrirtækjum.
Einn verktaki til að mynda krafðist þess að fá 100 lóðir í sinn hlut á Reyðarfirði og annað eins á Héraði það væri ekkert vit að byggja minna en það. Þessi sami verktaki er nú farinn með skottið á milli lappana án þess að standa við samninga sem hann gerði við bæði Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað, því "hér er ekkert að gerast" ef við notum þeirra orð.
En það er önnur saga. Það sem ég ætlaði að fara yfir var íbúaþróunin og væntingar austfirðinga til hennar.
Við skulum skoða íbúatölur hér í fjórðungnum síðustu ár. Árið 2004 og 2008 voru íbúar helstu byggðarkjarna hér á austurlandi sem hér segir, fyrri talan er 2004 og sú seinni 2008
- Djúpivogur 379-355
- Breiðdalsvík 163-149
- Stöðvarfjörður 257-231
- Fáskrúðsfjörður 614-678
- Reyðarfjörður 696-1.537
- Eskifjörður 999-1.100
- Norfjörður 1.411-1.436
- Egilsstaðir 1.765-2.229
- Fellabær 417-444
- Seyðisfjörður 714-713
- Borgarfjörður 103-100
Þegar þessar tölur eru skoðaðar hefur fækkað í fimm byggðarkjörnum en fjölgað í sex. Þeir staðir sem lengst liggja frá áhrifavæði framkvæmdanna eru þeir sem fækkar í.
Samtölur úr þessu eru þær að árið 2004 bjuggu í þessum kjörnum bjuggu 7.518 en árið 2008 bjuggu þar 8.972 og það er, ef mín starfræði bregst mér ekki, fjölgun um 1.454 íbúa eða um 20%.
Þessar tölur eru teknar af vef Hagstofunar og miðast við 1 jan. Ég fæ ekki séð hvernig þetta er fólksfækkun, en til að gæta sannmælis þá eru sveitir fjórðungsins ekki þarna inni nema að hluta og þar gæti hafa fækkað eitthvað og hluti af þeim séu sú fjölgun sem við sjáum í byggðarkjörnunum.
En þegar þessu sleppir þá er gaman að skoða tölur af vesturlandi á áhrifasvæði svipaðrar framkvæmdar, Norðuráls í Hvalfirði.
Árið 1997 þegar skóflustunga var tekin að því álveri þá bjuggu á Akranesi og Borgarnesi samanlagt 6.889 manns. En tíu árum seinna bjuggu þar 8.275 manns en það er fjölgun uppá um 20% einnig, þrátt fyrir það að bæði stafsfólk og fyrirtæki af Kjalarnesi, Mosfellsbæ og úr Reykjavík séu að vinna og þjónusta Norðurál.
En munurinn á Norðuráli og Fjarðaáli er einmitt sá að hér verða menn að koma upp þjónustu við álverið á meðan það er lítið mál að sækja hana til torfunar og því er alveg öruggt að hér mun fjölga mun meira heldur en gerði vestur á landi þegar umrætt álver var reist.
Góðar stundir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll frændi,vil skjóta því inn hérna að ekki er allt sem sýnist. Á Akranesi eru núna u.þ.b. 650 útlendingar í vinnu ( mest pólverjar) Bærinn er að breytast í svefnbæ frá Reykjavík.Kvennastörf eru að leggjast af nema sjúkrahús og elliheimili. Starfsmannaveltan í Norðurál er svakaleg þrátt fyrir að það hafi verið í rekstri í 10 ár. Þarna voru gerð stór mistök í samningum sem mér sýnist að hafi líka orðið raunin hjá Fjarðaáli þ.e.a.s 12 tíma vaktir. Starfsmaður í Norðuráli er 4 tímum lengur að vinna fyrir sömu upphæð og starfsmaður hjá Alcan í Straumsvík í 8 tíma. En gangi þér vel..kveðjur til allra Skafti.
Stefán Skafti Steinólfsson (IP-tala skráð) 12.4.2008 kl. 00:00
Sæll Eiður
Íbúatölurnar sem þú ert með eru bara íbúar í þéttbýli, t.d. eru um 230 í Breiðdalshreppi en 149 í þorpinu. Íbúatölurnar segja ekki allt.
Heldur hefur meðalaldur lækkað og menntunarstig hækkað mjög því að það er mikið að af ungu fólki sem var búið að mennta sig komið heim aftur í fjórðunginn. Ég á sjálf einn 34 ára sem hefur ekki verið í fjórðungnum síðan hann var 18 ára, en er nú komin austur og vinnur í álverinu.
Jóhanna G (IP-tala skráð) 19.4.2008 kl. 11:01
Það er rétt að íbúatölurnar miðast einungis við byggðarkjarnana en ekki dreifbýlið. Ég valdi þann kostinn til að reyna að ná samanburði sem gæfi nokkuð rétta mynd af því hvernig hlutirnir hefðu þróast.
Eiður Ragnarsson, 24.4.2008 kl. 10:48
talan 1.537 er kannski ekki alveg rétt fyrir Reyðarfjörð. Rauntalan er held ég um 1.100.
Kveðja, Gunni
Gunnar Th. Gunnarsson, 25.4.2008 kl. 01:01
1.537 eru tölur frá 1 jan. Það má búast við því að þetta læki eitthvað því að 1 jan voru eflaust enn skráðir einhverjir hér sem nú eru farnir, ég held einnig að 1.100 - 1.200 sé nokkuð nærri lagi.
Eiður Ragnarsson, 27.4.2008 kl. 04:19
Sæll Skafti.
Ég er ekki viss um það að starfsmenn í hjá Alcan séu neitt betur settir með sín laun eða vaktakerfi, í það minnsta eru grunnlaun hjá Fjarðaáli hærri en grunnlaun eru í Straumsvík og vaktaálögin þau sömu. En vaktirnar eru lengri en á móti því eru starfsmenn í Straumsvík að vinna um 225 vaktir á ári á meðan starfsfólk hjá Fjarðaáli eru að vinna um 180 vaktir á ári. Í þessum tölum er ekki tekið tillit til vetrar og sumarfría, en það er svipað á báðum stöðum.
Eiður Ragnarsson, 27.4.2008 kl. 05:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.