1.1.2007 | 02:21
Árið 2006....
Þegar litið er til baka yfir nýliðið ár koma nokkrir hlutir upp í hugann, ég ætla að tíunda það sem ég man helst eftir hér hjá mér, í einhverskonar tímaröð
Árið hófst á hefðbundin hátt með hinu týpíska áramótafylleríi, og hefbundinni nýjársþynku. Það sem kemur næst markvert (ekki það að mér þyki áramótafylleríið eitthvað markvert) er Þorrablót 4X4 í Kverkfjöllum. Það er ávalt fyrirmyndar samkoma í alla staði, að minnsta kosti hvað varðar skemmtilegheit, og ekki spillti fyrir að þorrablótið bar upp á minn ágæta afmælisdag þann 26 feb.
Næst verður að teljast markvart að ég skellti mér útí prófkjörsbaráttu fyrir sveitarstjórnarkosningar hér í Fjarðabyggð, og fór það ekki eins vel og ég hefði viljað en í stað þess að enda í 1-2 sæti eins og ég stefndi á endaði undirritaður í 4 sæti. Það voru allnokkur vonbrigði en engu að síður tók ég fjórða sætið á lista Framsóknar hér í Fjarðarðabyggð og var það næsta törn að standa í þeirri baráttu og gekk það ekki heldur eins og ég hefði viljað, en það skorti einungis 9 atkvæði uppá að við næðum inn 3 manni.
Ég ætlaði nú líka aldeilis að taka á því í málefnum þeim sem snúa að úthaldi og líkamsburðum og skráði mig í boot camp, en ekki varði ástundunin mikil því að á sama tíma stóð ég í kosningabaráttu og hraðlestrarnámskeiði, og það skaraðist náttúrulega allt við hvort annað og því fékk bootið að sitja á hakanum.
Fór á fjöll um páskana með góðum félögum í góðu veðri, við fórum m.a í Kverkfjöll og Hveragil og var það tær snilld.
Fór aftur á fjöll nokkru seinna í ekki jafnskemmtilegum tilgangi en það var ein umfangsmesta leit sem farið hefur fram hér austanlands eða jafnvel á landinu öllu í seinni tíð, en ungur drengur týndist frá Grímstöðum á fjöllum. Björgunarsveitarfólk á austurlandi lagði nótt við dag við að reyna að finna drengin en leitin fékk ekki þann enda sem við hefðum viljað, því drengurinn fanst látinn rúmri viku eftir að hann týndist.
Í sumarfríinu var lítið gert annað en dittað að húsinu (og það var samt ekki nóg) og einnig skroppið á fjöll með félögum mínum í Ársól, en við tókum þátt í Hálendisverkefni Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og var það feikilegt fjör að ferðast um hálendið í tæpa viku í góðum félagsskap.
Þegar líða tók á sumarið skýrðust línur í lítilli starfsumsókn sem ég hafði lagt inn hjá einu umdeildu fyrirtæki á vormánuðum, en eftir langt ferli var mér boðin vinna hjá Fjarðaráli og eftir að hafa velt kostum og göllum þess að skipta um vinnu vandlega fyrir mér þá var tekin sú ákvörðun að hætta hjá Vífilfelli og hefja störf í hálfsmíðuðu álveri við Reyðarfjörð. Það var reyndar ekki ákvörðun sem mér fanst létt því að hjá því ágæta fyrirtæki Vífilfelli var gott að vinna og þar eignaðist ég marga góða vini, og ég vona að vinskapurinn haldist áfram.
Í október byrjun háf ég síðan störf hjá Fjarðaál, og hefur það verið mjög fróðlegt til þessa, en mín vinna þessa fyrstu þrjá mánuði hefur falist fyrst og fremst í því að læra, læra nýja hluti og nýja siði, en þarna er unnið á töluvert öðrum nótum en ég hef vanist í gegnum tíðina. Einnig var Ameríkuhreppur heimsóttur til að kynna okkur nokkrum nýjum vinnufélögum álver og ýmislegt sem þeim tengist.
Fleira gerðist auðvitað en þetta er svona hundavað fyrir ykkur sem villist hér inn og hafið áhuga á því hvað hefur drifið á mína daga þ.e. síðustu 365
Og að því sögðu óska ég ykkur öllum, vinir, kunningjar, ættingjar og bloggfélagar (og allir hinir) gæfuríks árs og þakka það sem nýliðið er.
Skál elsku dúllurnar mínar................
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
gleðilegt nýtt ár
Ólafur fannberg, 1.1.2007 kl. 09:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.