Merkilegt....

Hvað úrræðaleysið er algert í þessum málum... Menn berja sér á brjóst og segja að hér sé allt á betri veg að fara og úrræðin séu næg og góð.
Hvað með þá sem áttu sína útborgun og allt þeirra sparifé er horfið í gin banka og lánasjóða því ekki fá þeir fyrirgreiðslu, jafnvel þó að þeir eigi í erfiðleikum með að borga... "Þú átt of miklar eignir" er svarið sem þetta fólk fær, en eignahlutur þeirra í eigin húsnæði er farin úr 30-40% niður í 10-0%

Eiga þessir einstaklingar engan rétt??

Ég þekki hjón sem greiddu út í sínu húsi 5 milljónir og tóku 18 að láni hjá íbúðalánasjóði. Sparifé sem hafið verið önglað saman í gegnum tíðina og hófleg skuldsetning og að sjálfsögðu stillt af miðað við tekjur.

Nú er staðan sú að 23 milljóna eignin stendur rétt tæplega undir því láni sem tekið var á húsið, en þau eiga ekki rétt á neinum "leiðum" þar sem þau eru ekki "yfirveðsett" að mati sjóðsins....

Það átti að sjálfsögðu að fara í flata niðurfellingu strax í kjölfar hrunsins, á meðan svigrúm var til afskrifta. Nú er svigrúmið ekkert bankarnir eru í eigu kröfuhafa sem vilja hámarka sitt pund og ekki eru þeir að spá í afkomu Jóns og Gunnu á skerinu kalda.

Flöt lækkun skulda uppá 20-25% hefði verið ódýrasta leiðin til að fara, sértæku úræðin hefði síðan komið til viðbótar handa þeim sem sú leið hefði ekki dugað fyrir...

En sú góða hugmynd varð ekki til á réttum stað, ef það kemur ekki frá VG eða Samfylkingu, þá er ekki hægt að nota það..

Helvítis fokking fokk....


Þetta er....

Alveg með ólíkindum...

Ríkisstjórnin er óstarfhæf og hún ætti að sjá sóma sinn í því að fara frá.  Mig skortir orð til að lýsa þessum fíflagangi, allt gert til að halda völdum, bullandi ágreinngur um annað hvert mál, ályktanir floksráða skjóta á samstarfsflokkin eins og engin sé morgundagurinn ofl ofl.

Og ekki nóg með það, heldur er brostið á hér bullandi góðæri ef eitthvað er að marka ræðu forsætisráðherra..

Ég legg til að við leggjum niður Spaugstofuna og útvörpum og sjónvörpum beint frá þingflokksfundum og Alþingi...

Helvítis vitleysa...........


mbl.is Frumvarpið fellt í nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kanski...

Þurfa fuglarnir að fara á "Atkins" kúrinn, brauðið sem þeir eru að éta alla daga er búið að drepa þá, það er alltof mikið af kolvetnum í fæðinu... Smile
mbl.is Höfundar skýrslu um fuglalíf kallaðir á fund ráðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er aðeins að .....

Velta því fyrir mér.. hvort að brotthvarf Guðmundar Steingrímssonar og fleiri aðila úr Framsókn sé gott eða vont...

Hvað haldið þið???

Guðmundur hefur sínar ástæður, hann er Evrópuaðildarsinni, en það er ljóst eftir síðasta landsþing Framsóknar að ekki er meirihluti fyrir þeirri skoðun innan flokksins.. Mér finnst reyndar vera gert meira úr þessu en efni standa til.. það hætta og byrja menn í öllum flokkum daglega.. við sjáum nú ekki margar blaðagreinar eða fyrirsagnir um það...

En svo fór ég að velta öðru fyrir mér..

Mikið hefur borið á því undanfarin ár og misseri að stjórnmálamenn geri lítið úr skoðunum og hugmyndum annarra stjórnmálamanna til að ota sínum hugmyndum framar og gengisfella hugmyndir andstæðinga...  Það er að sjálfsögðu áratuga eða árhundraða hefð fyrir þessum vinnubrögðum, og því er erfitt að snúa ofan af þessu í einu vettvangi.

En Sigmundur Davíð segir í pistli á sinni heimasíðu eina setningu sem mér þótti merkileg.. Fyrir utan það að óska Guðmundi velfarnaðar í sínum málum í framtíðinni óskaði hann þess að Guðmundur styddi góð mál Framsóknar eða öllu heldur þau mál sem Guðmundi þættu þóknanleg og ættu samleið með hans pólitísku skoðunum...

Og þá fór ég að spekúlera.. Er þetta ekki lausnin á argaþrasinu og gengisfellingu hugmynda,  hroka og fyrirlitningu sem einkennt hafa íslensk stjórnmál undanfarin misseri.... 

(Það er engin hugmynd góð, nema hún komi frá mínum flokki, það er engin þess megnugur að vinna á vandanum nema hann komi úr mínum flokki og allir aðrir eru vesalingar sem ekkert geta...) Kannist þið við þetta sem hér stendur í sviga...?? Það hefur engin sagt þetta berum orðum, en þetta hefur verið mælt undir rós og hugsað.. það er alveg á hreinu.

Það verður leikmannaskiptagluggi eins og í boltanum..  Flokkarnir skipta á leikmönnum hugmyndir dreifast og umræður verða málefnalegri því að ekki gengur að hrauna yfir sinn meðspilara, þú átt bara að hrauna yfir andstæðingana...

Kannski frekar súr pæling ég veit það ekki....


Ætli.....

Hann sé byrjaður á umhverfismati??

Framkvæmd af þessari stærðargráðu og á þessum stað hlýtur að kalla á það... Og er það ekki líka rétt hjá mér að hluti af þessu landi er í Vatnajökulsþjóðgarði, og hluti er orðið "þjólenda"..

Bara vangaveltur hvort að þetta sé raunhæft hjá kalli.. fyrir utan að græja og gera golfvöll á þessu þurrasta og kaldasta svæði landsins...

En með nægum peningum er allt hægt....


mbl.is Tugmilljarða fjárfesting á Fjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væri þetta...........

Ekki mun betri staðsetning..

Stutt að senda útlendingana beint úr landi.. spara þar...

Þegnskylduvinna í nágrenninu fælist í því að loka óleyfilegum slóðum á Reykjanesinu og tína upp rusl eftir varnaliðið.. Spara þar...

Tóm hús til staðar á svæðinu.. kaupa bara rimla og málið dautt...  Spara þar...

Og margt margt fleira sem mælir með þessu umfram Hólmsheiði... Ég held svei mér þá að það sé langt frá því að vera besti kosturinn og ætti að endurskoða hann snarlega...

 


mbl.is Harma ákvörðun um fangelsi á Hólmsheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk peningatré...

Í Austurglugganum nýverið var stutt viðtal við Innanríkisráðherra, Ögmund Jónasson og þar tjáir hann sig um ný Oddskarðsgöng. Skemmst er frá því að segja að þar eru þessi jarðgöng slegin út af borðinu, allavega næstu misseri vegna skorts á fjármagni, að sögn ráðherra.

Þessi orð hans vekja furðu hjá mér því að á sama tíma er ríkið í raun að fjármagna Vaðlaheiðagöng með kaupum á skuldabréfum af hlutafélagi því sem að byggir göngin (eignarhlutur ríkisins í því fyrirtæki er 51%) Stytting hringvegarins vegna Vaðlaheiðarganga er um 16 km, og því er ákaflega hæpið að þær 8 mínútur sem sparast í akstri (samkvæmt mælingum Eurorap) verði þess virði að greiða veggjald fyrir þær sem nægir til að endurgreiða ríkinu skuldabréf þau er keypt verða til að fjármagna framkvæmdina.

En látum það liggja á milli hluta í bili, tilgangur þessara skrifa var ekki að ráðast á Vaðlaheiðagöng sem slík, heldur benda á mikilvægi þess að ráðast í gerð jarðganga milli Eskifjarðar og Norfjarðar sem allra fyrst og að bera saman þessa tvo kosti og velta því aðeins upp hvað sé það sem veldur því að aðra sé hægt að fjármagna með opinberu fé en hin ekki..

Í fyrsta lagi við ég nefna þau loforð ríkisvaldsins um tengingar innan þess sveitarfélags sem nú heitir Fjarðabyggð, miklu var lofað en minna um efndir, og hafa sveitarstjórnarmenn hér þurft að berjast fyrir hverjum metra, þrátt fyrir að við séum að tala um umferðarþyngstu vegi á Austurlandi t.d. Hólmaháls, þar sem þurfti að beita gífurlegum þrýstingi til að fá úrbætur á vegi sem var í raun stórhættulegur á sama tíma og hann er umferðarþyngsti vegur austanlands.

En rökin með göngum er vel þekkt, en ætla ég að tína þau til einu sinni enn. Norðan við Oddskarð er annar stærsti byggðarkjarni Austfjarða, með um 1.500.- íbúa, þar er staðsett sjúkrahús fjórðungsins, Verkmenntaskóli Austurlands hefur þar sína starfsemi, eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, Síldarvinnslan er þar staðsett og er stór atvinnuveitandi fyrir Austfirðinga, margskonar þjónustufyrirtæki starfa á Neskaupstað, sem bæði fá vinnuafl og selja sína þjónustu íbúum og fyrirtækjum sunnan Oddskarðs.

Milli 50 og 60 manns sækja vinnu daglega yfir Oddskarð í eitt fyrirtæki á austurlandi (Alcoa Fjarðaál) og má gera ráð fyrir því að það sé ekki eina dæmið um slíkt báðar leiðir yfir Oddskarð, en við vitum að Launafl, Síldarvinnslan, VHE, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Fjórðungssjúkrahúsið, Fjarðabyggð og fleiri atvinnurekendur treysta á að fólk komist ferða sinna til og frá Norfirði sem greiðast.

Fjallvegurinn er einn sá hæsti á landinu utan miðhálendisins og liggur í yfir 600 metra hæð yfir sjó á snjóþungum fjallgarði, það snjóþungum að aðalskíðasvæði Austfirðinga er staðsett þar og má benda á að oft eru opnunardagar þar fleiri en á öðrum skíðasvæðum landsins vegna staðsetningar og snjóalaga. Núverandi göng eru að hruni komin, fólk veigrar sér við að fara í gegnum þau vegna hruns og þrengsla, og nýleg dæmi sýna svo ekki verður um villst að fullþörf er á endurnýjun.

Næst ber að nefn þau rök að Norfjarðargöng ættu að vera fyrsti áfangi í því að tengja Austfirðina með alvöru nútíma samgöngum og hefur verið ljáð máls á því að næsti áfangi á eftir nýjum Norfjarðargöngum ætti að vera göng milli Norfjarðar og Seyðisfjarðar um Mjóafjörð, en skýrsla RHA sýnir það svart á hvítu að það er einn arðbærasti jarðgangakostur á Austurlandi og myndi það breyta öllu umhverfi Austfirðinga og austfirskra fyrirtækja, samgöngulega séð.

En þrátt fyrir öll þessu haldgóðu rök, þá er þetta ekki hægt það eru ekki til peningar… Segir ráðherrann.

En dæmið hér fyrir ofan af Vaðlaheiðargöngum sýnir að það eru greinilega til peningar, íbúar Norfjarðar og Austurlands hafa jafnvel lýst því yfir að þeir séu tilbúnir að greiða veggjald, þó ekki séu menn einhuga um þá leið. Því sé ég ekkert því til fyrir stöðu að stofnað verði hlutafélag um Norfjarðargöng og ríkið kaupi skuldabréf til að fjármanga göngin rétt eins og gert er fyrir norðan. 

Vissulega er meiri umferð um Víkurskarð, eða um 1.256 bílar á dag (2010) en 436 um Oddskarð, en ef borið er saman hlutfall ÁDU og SDU þá er hlutfallið í Oddskarði 84% á meðan það er einungis 59% yfir Víkurskarð, sem segir að hærra hlutfall umferðar tengist afþreyingu og sumarleyfum, og því má gera því skóna að stórt hlutfall sumarumferðar fari áfram um Víkurskarð og spari sér veggjaldið og njóti útsýnisins á meða, því íslensk fjöll eru öll eins innanfrá séð.

En ég held að þetta snúist ekki um peninga, þetta snýst um eitthvað allt annað.

Margsinnis hafa ný Norfjarðargöng verið í umræðunni og alltaf eru menn sammála um mikilvægi þess að þau séu byggð, en ekkert gerist öðrum göngum er kippt fram fyrir og þessi mikilvæga samgöngubót látin sitja á hakanum. Það eru til fjármunir í þessa framkvæmd, það þarf bara að forgangsraða upp á nýtt, við gerðum það þegar tekin var ákvörðun um að klár að byggja minnisvarða um hrunið (Hörpuna), þeir eru til þegar byggja á háskólasjúkrahús sem varla verður hægt að manna eða reka vegna landflótta læknastéttarinnar og niðurskurði í rekstri heilbrigðisstofnan, þeir eru til þegar kemur að því að rjúfa land á Hólmsheiði til byggingar á fangelsi þó að það hafi verið bent á fljótlegri, einfaldari og umfram allt ódýrari lausnir. Og peningarnir eru til þegar kaupa þarf skuldabréf af fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins til að fjármagna göng undir Vaðlaheiði.

Ég spyr því hæstvirtan innanríkisráðherra.. Vaxa bara peningar á norðlenskum og sunnlenskum trjám eða snertir framkvæmd Norfjarðaganga ekki nógu marga atkvæðabæra einstaklinga til að þau séu „arðbær“ ?


Og þarna er...

Harðbannað að keyra vélsleða eftir 1. maí..!! 

Í reglum um Vatnajökulsþjóðgarð er ekki heimilt að ferðast um á sleðum á þessu svæði eftir 1. maí.  Er ekki alveg tilefni til að endurskoða það eitthvað, þarna er ennþá núna í dag (27. júní.) prýðis sleðasnjór.

Þetta sýnir svo óumdeild er á hversu miklnum villigötum sumt sem tengist þessum "þjóðgarði" er.

Það er ekki heil brú í þessu ágæta fólki sem þetta hefur planað...


mbl.is Öskjuferðir hafnar úr Mývatnssveit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rómantík...??

Eitt af einkennum rómantíkur í íslenskum bókmenntum eru að í stað þess að leita sér fyrirmyndar klassískri fornöld beindu menn sjónum að þjóðsögum og þjóðkvæðum. Í þeim sáu þeir ,,skáldskap þjóðarinnar" því þjóðkvæði og þjóðsögur áttu að hafa orðið til án milligöngu einstaklinga, það var þjóðin sjálf sem orti. Þetta tengist hugsunum um ,,þjóðarsálina" og snertir þjóðernisáhuga manna. Í stað alþjóðahyggju upplýsingarinnar leggja skáldin áherslu á séreinkenni þjóðanna, gerast þjóðernissinnar.

Einstaklingshyggja varð einnig ráðandi með aukinni áherslu á tilfinningarlíf, skynjun einstaklingins á umheimi sínum og sjálfstæði mannsins gagnvart skaparanum var eðlilegt að hugmyndir um mannin tækju ýmsum breytingum. Hetjudýrkun fór vaxandi og fór hún vel saman við áhuga manna á fornbókmenntunum, Íslendingasögunum og Eddukvæðunum.

Einnig vaknaði þrá eftir hinni horfnu paradís, að verða aftur ,,heill", fullkominn.

Þessi upptalning hér að ofan er langt frá því að vera tæmandi og ekki endilega kórrétt, en með því að renna í gegnum nokkrar greinar og ritgerðir um rómantík í íslenskum bókmenntum þá mátti finna m.a. þessar lýsingar. Nú ber svo við að rómantík er ekki eins mikil í bókmenntum landans, heldur er meira gert út á raunsæi í bókum samtímans, en í stað rómantíkur á blaðsíðum landans hefur þessi stefna haldið innreið sína á Alþingi Íslendinga.

Helsta birtingarmyndin þessa dagana eru hinar umdeildu strandveiðar, og má finna ákveðna samsvörun í þeim við það sem hér er sagt að ofan, en það er frelsi einstaklngsins og “hetjur hafsins” sem þar fá nýja skýrskotun, einstaklingurinn sem berst fyrir brauði sínu með vinnu, erfiðisvinnu og sækir björgina í greipar ægis einn og óstuddur, engum háður og “Bjarts í Sumarhúsum” heilkennið svífur yfir vötnum eins og dalalæða að morgni..

En hver er hin sanna rómantík í málinu…??? Sjávarbyggðirnar fyllast lífi þegar gamlir sjóhundar og trillukarlar sem vart geta gengið eftir að hafa rúntað um götur bæjarins á bílnum sínum í 20 ár, á bílnum sem þeir keyptu þegar þeir seldu útgerðarfyrirtæki bæjarins kvótan sinn jafnvel oftar en einu sinni. Gamla trillan sem þeir héldu eftir því að hún var verðlaus, er síðan gerð sjóklár með fé sem beðið hefur inn á bók, fé sem fékkst fyrir sölu kvótans og handfærum síðan dýft í sjó til að krækja í þann gula og smella honum á land.

Þær fyllast lífi þegar áhafnarmeðlimir á stærsta skipi byggðarlagsins, sannir hátekjumenn sem kaupa sér trilluhorn til að dunda sér á í frítúrum, er nú notað til að öngla upp þeim gula á handfærinn þegar ekki gefur á aflaskipinu eða einfaldlega þegar frí er og gott veður.

Þær fyllast lífi þegar opinber starfsmaður notar sumarfríið sitt til að róa á gömlum bát sem hann erfði eftir afa sinn, en afinn settist í helgan stein þegar trillukvóti varð seljanlegur og gaf barnabarni sínu bátin svo að hann gæti skotið sér svartfugla og pokaendur í soðið, en nú er sá bátur með öðrum að öngla upp tonnunum sem tryggja eiga nýliðiun í greininni. En starfsmaður hins opinbera leggur ekki vinnunni heldur notar veiðarnar til að hreinsa hugan og slaka á og þegar ekki gefur sinnir hann sinni vinnu sem áður.

Sjávarbyggðirnar fyllast lífi þegar flutningabíllinn kemur að hafnarkantinum til að tína upp fiskana sem veiddir eru, til að keyra þeim á markað í fjarlægu byggðarlagi og þaðan er fiskurinn seldur til vinnslu eða jafnvel sendur ferskur erlendis svo að þær hendur sem á honum snerta eru fáar og handtökin fá.

Vissulega má segja að þessi mynd sem hér er dregin upp sé svört, en hún er ekki jafn svört og sú mynd sem máluð hefur verið af strandveiðunum er hvít.

Vissulega eru nýjir menn að hasla sér völl í skjóli þessara laga og er það vel, en hefur einhver tekið það út hversu mikið af aflanum er landað af fólki eins og hér er lýst að ofan..??

Hefur einhver tekið það út hversu mikið af aflanum er unnið í sjávarbyggðinni sem veiðunum er ætlað styrkja… ??

Hefur einhver tekið það út hver arðurinn er af veiðunum hjá þeim sem veiðarnar stunda…??

Hefur þetta kerfi yfir höfuð verið skoðað með gagnrýnum huga og það skoðað hverju það er að skila og hversu nálægt það er þeirri rómantísku mynd sem dregin var upp af þeim í upphafi…??

Mér vitanlega hefur það ekki verið gert, en það er tímabært að velta upp þessum spurningum og rýna til gangs öllum til heilla.

Góðar stundir…


Ég held að....

Ráðherran sé ekki með réttu ráði...

Í fyrsta lagi þá eru fyrirtækin að færa vaxtareikning sinn aftur fyrir dóm hæstaréttar sem er í algeru ósammræmi við meginreglu allra lagasetninga lög eiga ekki að vera afturvirk og það eru dómar ekki heldur..

Í öðru lagi má túlka lögin á þann veg að það sé óheimilt að reikna vexti nema á upprunalegan höfuðstól en það eru fyrir tækin ekki að gera með sínum aðferðum, heldur eru þau að bæta við höfuðstólin vöxtum og reikna síðan vexti af því.

Ég held að það sé löngu tímabært að þetta ágæta fólk sem hingað til hefur tekið stöðu með bönkum, fjármagnseigendum og síðast erlendum vogunarsjóðum.. fari að vinna fyrir fólkið í landinu... 


mbl.is Ávinningur kominn fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki var nú mikið um....

Sleðaferðir í vetur.. en þó var ein góð farin, en það eina sem skyggði á þennan góða dag var það að sleðin hans Inga ákvað að gefa upp öndina í ferðinni.. en það verður örugglega komið í lag fyrir næsttu vertíð.

En ég tók slatta af myndum í ferðinni og deili þeim hér með...


Hvaða áhrif...

Mun þetta hafa...?

Komi til þessarar skattheimtu , leggst þessi skattur á byggðir sem byggja á fiskveiðum og vinnslu sjávarafurða. Áhyggjur eru einfaldlega þær að framangreindar hugmyndir munu að öllum líkindum leiða til þess fjármagn verði fært frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.

Vífill Karlsson hagfræðingur hefur sýnt fram á að skatttekjur af landsbyggðinni eru u.þ.b. tvöföld sú upphæð sem ríkið eyðir á landsbyggðinni. Á mannamáli þýðir þetta einfaldlega að af hverjum tveimur krónum sem landsbyggðarfólk borgar í skatt fer ein króna í að byggja upp opinbera þjónustu í heimabyggð en önnur króna í sameiginlega þjónustu í Reykjavík. Ef farið er aðeins dýpra í þess umræðu hefur málum verið þannig fyrir komið að 75% af ráðstöfun tekna ríksins er á höfuðborgarsvæðinu en aðeins 25% utan þess. Um 42% af þeim fjármunum sem ríkið aflar með sköttum kemur frá höfuðborgarsvæðinu, en 58% utan þess.

Er þetta ekki orðið gott.. ?? Væri nú ekki nær að fara skila þessari "auðlindarentu" til sjávarbyggðana, því að það er ekki nóg að það sé útgerð og kvóti ef að krónurnar sem koma inn fyrir pakkan renna allar í ríkissjóð sem skiptir þeim svo með þeim ósanngjarna hætti sem bent er á hér að ofan.

Nær væri að þessir fjármunir rynnu óskiptir til sjávarbyggðanna hver einsasta króna og kæmu þær að góðum notum þar í uppbyggingu á þjónustu við fólkið í sjávarbyggðunum, en skortur á þjónustu er stundum nefndur sem einn af áhrifavöldunum þegar ræddur er búferlaflutningur af landsbyggðinni.

En rennið endilega yfir þessar tölur hér að ofan.. Mér finnst þetta sláandi og maður veltir því fyrir sér hvort að ekki þurfi að stokka spilin og gefa uppá nýtt..

 


mbl.is 30% gjaldsins til sjávarbyggða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband