Var að........

Skoða hjá mér bókahillurnar í gær og rakst þar á bók sem ég fékk fyrir 21 ári síðan, senda mér að kostnaðarlausu, sem greiðslu fyrir ritstörf.....

Þannig var má með vexti að gefin var út bók til heiðurs Guðmundi Magnússyni fræðslustjóra er hann varð sextugur að aldri, og var ég beðin um að skrifa litla ritgerð um skólavist mína og jafnaldra minna í gamla Stígandhúsinu á Múla í Álftafirði.

Þar skrifaði kennari okkar,  Kolfinna, um skólahaldið eins og það var á þessum árum (1979-1982)

Skólahald var frekar sérstakt í þessu húsi og við sem í þennan skóla gengu fengum rétt um 100 dögum minna í skólavist en jafnaldrar okkar í stærri skólum, vegna þeirra aðstæðna sem þarna voru, en það virðist ekki hafa komið niður á lærdóminum að nokkru leiti.

Ég læt þessa ritgerð fylgja hér með:

Gamli skólinn.

Veturinn 1979-80 var fyrsti veturinn sem kennt var í samkomuhúsi sveitarinnar og jafnframt fyrsti veturinn minn í skóla.  Áður hafði verið kennt um sveitina hér og þar í heimavist.  Þetta var einnig fyrsti veturinn sem ekið var daglega með okkur krakkana í skólann. 

Fyrstu vikurnar var aðeins kennt eftir hádegi vegna þess að verið var að byggja við gamla húsið.  í þessari viðbyggingu var öll hreinlætis aðstaða skólans.  Þegar viðbyggingunni var lokið var einnig byrjað að kenna fyrir hádegi.

Fyrstu veturna var ég aðeins þrjá daga vikunar í skóla og fóru þá tveir í bóklegt nám en síðan einn í smíðar, handavinnu og teikningu.  Leikfimiaðstaða þessum skóla var ekki uppá marga fiska, enda voru gólffjalirnar ólakkaðar svo að maður var aldrei laus við flísar.  Helst þurftu menn að vera í skóm til að sleppa við flísarnar.

Næsta vetur var kennt í fyrsta sinn í tveimur "stofum". Var aðstaðan til þess alls ekki næganlega góð enda húsið bara einn salur og svið.  "Skólastofurnar" voru salurinn og sviðið.  Veggurinn þar á milli var þunnt tjald og ekki þurfti mikinn hávaða til þess að hann bærist á milli.

Okkur krökkunum þótti mjög gaman í skólanum, sérstaklega þegar við áttum að elda súpu í hádeginu.  Svo sötruðum við súpuna úr könnu með nestinu okkar.  Suma daga fengum við meira að segja pylsur en það var nú ekki mjög oft.  Í leikfiminni var oftast mjög gaman (ef við fengum ekki flís) og sér í lagi þegar við vorum á slánni.  Sláin var járnpípa sem var til að styrkja veggina í salnum og lá yfir hann þveran.  Auðvelt var að hanga á slánni og notuðum við krakkarnir okkur það óspart.  Við héngum á höndum og fótum og fórum í gegnum okkur og dingluðum í allar áttir.  Þetta var mjög vinsælt.  Eitt var það sem okkur líkaði ekki og það var að mega ekki leika okkur neitt að ráði inni.  Við vorum alltaf send út þegar við ætluðum að leika okkur.

Ég man vel eftir því þegar verið var að byggja nýja skólann.  Þá fórum við oft þangað og létum okkur dreyma um þá daga er við yrðum í þessum skóla.  Og svo kom að því að við fluttum í nýja húsið.  En þó að aðstaðan í nýja skólanum væri að öllu leiti betri en í þeim gamla, þá eigum við öll okkar góðu minningar um gamla góða skólan okkar.

Já á misjöfnu þrífast börnin best ekki satt??


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Að lesa þessa ritgerð sendi margar hugljúfar minningar í gegnum hugann. Ég tek undir allt sem fram kemur í þessri ritgerð. Og ég verð samt að minnast á 1 dag. Það var brjálað veður,  húsið hélt hvorki vatni né vindi, brjáluð hríð og rafmagnslaust. Það var ekki hægt að hringja og láta sækja okkur og ég man að við vorum í leikfimi allan daginn í útigöllunum með húfur og vettlinga bara til að halda á okkur hita frá 8-15:30 þetta var æði, í alvörunni.

Takk Eiður að setja þetta inn.

 Kveðja litla frænka

Helena Helgadóttir (IP-tala skráð) 16.8.2007 kl. 20:14

2 Smámynd: Jón Ragnarsson

Ég er að tárast hérna... *sniff*

Jón Ragnarsson, 17.8.2007 kl. 00:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband